25. ágúst 2010 Hestaferð – dagur 3

Sölvi bættist í hópinn í morgun, er riðið var frá Efstadal. Hann er með 5 hross, sum fílefld. Riðið var með veginum alveg að Laugarvatni, það er svo sem sæmilegur sumarreiðvegur og eiginlega mun betri en tilsvarandi reiðvegur upp í Tungum. Síðan var farinn þjóðvegurinn upp Hálsinn og vestur fyrir Langamel – vonandi í síðasta skipti með bílaumferðina í bak og fyrir, því nýi vegurinn er alveg að verða tilbúinn að taka við henni.

Eftir stutt stopp í nýju réttinni á Gildruflöt, var haldið vestur með fjöllum. Ég reið Sokka mínum á undan um þetta undraland æskunnar, og grunaði víða “gamalt spor eftir lítinn fót”. Reiðfærið er engu líkt á þessum slóðum, hjá Fardal og Selöldu og niður á Velli. Svo var haldið niður með hraunbrúninni, yfir nýja veginn og áfram hlemmigötur allt vestur í Kaldárhöfða, um Kringlumýri og Drift. Skálinn í Kringlumýri hefur heldur betur fengið andlitslyftingu hjá Miðengismönnum. Það var sannarlega vel til fundið hjá Ingvari að semja við þá um að fóstra skálann. Það vakti athygli okkar að skálinn stóð opinn. Ætli það sé meiningin?
Frænkurnar Gríma og Flétta slógu í gegn hjá Ragnheiði minni í dag. Hvítingur var magnaður hjá Þorkeli vestur með fjöllum, Hreppur fer síbatnandi, en Krummi þurfti aukakennslu og sat eftir, þegar öðru hafði verið sleppt í Kaldárhöfða. Freyja hleypti fyrir á Beitivöllum, þegar Gimsteinn tók sig útúr og ætlaði beint heim – og var á hinni 5 vetra gömlu Fregn, sem temst nú vel hjá henni. Bjarna gengur mjög vel með þá skjóttu frá Þorkeli. Hann reið nú Kjalari í fyrsta skipti, mjög þægilegum.

4. ágúst 2010 Hestaferð – dagur 2

Já, Magnús í Kjarnholtum gerði það ekki endasleppt við okkur í morgun. Hann fylgdi okkur að vaði á Tungufljóti skammt fyrir ofan Kjarnholtabæina, og svo upp með fljótinu að vestanverðu – allt á þessum líka fínu götum.

Við fórum svo nýjan reiðveg á bak við Laugafell, allgóðan á köflum. Héldum svo sem leið liggur að Efstadal, þar sem góðir vinir létu í té girðingu fyrir hrossin. Allt gekk eftir óskum, Vísir frábær, segir Ragnheiður, mylur töltið og tekur ekki í taum – og fallega sýndist mér Krummi ganga hjá Þorkeli. Þorkels-Skjóna er farin að kringja makkann vel hjá Bjarna, og í kjölfarið fylgir meiri fótaburður. Hún stefnir í að verða spilandi góð. Allt hefðbundið með hrossin hjá okkur Freyju, enda eru þar á ferð margreyndir eðalgæðingar – í bland.

Hestaferð

24. ágúst 2010. Lögðum af stað í hestaferð í gær, fimm manns með 41 hross. Riðum í Kjarnholt, þar sem við fengum góðar móttökur að venju, menn og hestar. Á morgun er stefnan tekin á Efstadal.

Allt gekk eins og í sögu, reksturinn hnökralaus og gæðingsefnin eru að byrja að sýna sig. Faxi gekk fallega hjá Þorkeli, nánast alltaf á hreinu tölti eða brokki og vefur sig upp á köflum. Tamningakonurnar Ragnheiður og Freyja Rós fóru á bak 5 vetra hryssunum Dís og Fregn. Baugur var þægilegur hjá Bjarna, verður greinilega sómahestur að minnsta kosti. Nánar um slíkt þegar líður á ferðina. Ég get þó ekki stillt mig um að segja að Eva er ennþá betra hross en ég hélt – og vökur líka!

Von frá Þóroddsstöðum gerir það gott á Vallamóti

Vallamótið var haldið í dag. Fórum ríðandi í gærkvöldi í kveldblíðunni. Bræðurnir riðu að mestu einhesta tveimur ofureflingum, Faxa Þyrnissyni og Kóngi Númasyni. Við hin vorum flest með tvo til reiðar – og teymdum raunar fleira af keppnishrossum osfrv. Ragnheiður hafði Ígul og Svip, Freyja Rós var með Spöng sína og Irpu, undirritaður var með Tvist og Vísi, Magga reið Hlé og teymdi Blakk. Hún sneri raunar við þegar Blakkur fór að hósta í Moldbrekkum. Gylfi, Ragnar og Jasmín voru með, Edda á heimleiðinni.

Von og Bjarni gerðu sér lítið fyrir og unnu A-flokkinn. Í forkeppni hlaut Von sannkallaða ofureinkunn, 8,80, en 8,56 í úrslitum. Von er í eigu húsmóðurinnar, aðeins sex vetra gömul. Hún er undan Þóroddi og Dömu Glímudóttur. Von er ákaflega jafnvíg hryssa, allar gangtegundir frábærar. Hún var valin hestur mótsins, enda listavel sýnd af tamningamanni sínum og þjálfara, Bjarna Bjarnasyni. Frammistaða þeirra vakti mikla athygli – yljaði raunar svo að þetta varð stór stund fyrir fjölskylduna. Við áttum raunar þrjú hross önnur sem komust í úrslit á mótinu, ýmist í A- eða B-flokki: Hvíting Hlésson og Fléttu (6v) og Eldingu (5v) Þóroddsdætur. Fleiri hross frá okkur ættuð sýndu sig með athyglisverðum hætti. Þau eru undan stóðhestunum Þyrni og Núma og undan og/eða útaf gæðingamæðrunum Von og Drottningu frá Laugarvatni, sem seldar voru Snæbirni og Björgu í Efstadal fyrir margt löngu. Ómögulegt er að gleyma Þyrnirós Þyrnisdóttur frá Minniborg, sem hlaut 9,0 fyrir tölt á mótinu – og svo er Þyrnir næstum ónotaður seinni árin. Hvílík fásinna! BÞ.

Kynbótadómar sem kvöldskemmtun

Ég las í morgun grein á vefútgáfu Eiðfaxa um nýstárlega útfærslu kynbótasýninga, og skrifaði af því tilefni þessa athugasemd: “Mjög athyglisverð tilhögun, eins og sannast hefur á Skeiðleikum. Verst ef þetta WR kjaftæði er að eyðileggja þá frábæru skemmtun, með kröfu um að kaupa dómara frá útlöndum og eyða í það verðlaunafénu! Það verður spennandi að sjá viðbrögð hrossaræktarinnar við þessu – og vonandi að það verði skoðað með opnum huga.”

Margfaldur landsliðsmaður hirðir rúllur

Þóroddsstaðabúinu hefur borist gríðarlega öflugur liðsstyrkur í baráttunni fyrir að koma heyinu heim. Undanfarna tvo daga hefur hinn margfaldi landsliðsmaður í körfubolta, Hjörtur Harðarson keyrt heim rúllur af miklum móð. Móðurinn er slíkur að ekki eru nema örfáar rúllur eftir á túnunum og ef fram fer sem horfir verða þær allar komnar heim fyrir kaffi í dag. Hjörtur byrjaði gríðarlega vel í hinu nýja starfi sínu og þykir efnilegur heybílstjóri. Dagsdaglega starfar hann hjá Landsbankanum í Keflavík. Hann ku þó vera farinn að íhuga að gera heykeyrsluna að sínu aðalstarfi.

12.01.11

Ætli það sé ekki alveg út úr korti að skrifa dagbók á heimasíðuna sína? Og skrifar yfirleitt einhver dagbók sem hver sem er getur lesið jafnóðum? Varla getur hún orðið mjög persónuleg með því móti – og þar með geta þvílík skrif vart flokkast sem dagbókarskrif.

Jæja, allt um það. Góður og gegn bóndi í minni gömlu heimasveit sagði einhverju sinni, að það væri um að gera að tala bara nógu mikið, þá kæmi áreiðanlega eitthvað af viti. Vafalaust hefur hann meint þetta almennt og talið þetta gilda jafnt fyrir sjálfan sig og aðra. Ætti ég kannski að gera þetta að mínum einkunnarorðum hér á heimasíðunni og ímynda mér að þetta gæti hæglega gilt fyrir skrifin mín? Ég fer að hallast að því.
Við riðum út í dag, feðgar, í bölvuðum kulda og einkum roki. Bjarni járnar jafnframt, og fer skeifnasprettina. Ég er búinn að vera óduglegur að ríða út í rokinu og kuldabálinu að undanförnu, og nú fannst mér þetta ekki duga lengur, reið Kraka og Vísi, en teymdi Hrund. Bjarni ríður tamningatryppum inni í dag, en fór út á Dís í fyrsta skipti í vetur. Mér sýndist hún vera alveg eins og hann skildi við hana í sumar og líst vel á framhaldið með hana. Bjarni fór svo á Óskarssyninum hennar Sólveigar (vinkonu Ragnheiðar) og sýnist hann vera orðinn húðslakur, liðugur og eftirgefanlegur á báðar hendur. Þar hefur náðst mikill árangur og vonandi að stelpan geti komist betur af við hestinn framvegis. Til þess þarf hún að tileinka sér aðferðina sem Bjarni beitir við hann, svo einfalt er það.

11.01.11

Haldið áfram að járna í kuldanum – og skroppið á bak tamningatryppum og einstaka heimahrossi. Gáfum líka ormalyf 2ja og 3ja vetra tryppum, sem við slepptum svo samanvið fylfullu hryssurnar og veturgömlu tryppin í Heimamýri.

Þar er tryggt vatn, en annars horfir til vandræða með það, allt botnfrýs í þessu hörkum sem gengið hafa. Við opnuðum heim úr Krossholti og útbjuggum svo hrossin kæmust í vatn heim við hús. Það fer einhvern veginn allur dagurinn í að hafa þetta allt í lagi – og gefa hér í dag og þar á morgun. Athuga betur með graðhesta og tittina niður í Stangarlækjargryfjum á morgun, kannski þarf ég að taka þá hingað heim í tún í bili, svo þeir hafi tryggt vatn. Höskuldur Þráinsson kom að spjalla við okkur feðga um miðjan daginn. Hann býr nú á Laugarvatni og ríður út í Útey hjá Heimi. Hann er glöggur og minnugur karlinn – og áhugasamur um hrossin okkar, t.d. sem hann sá á Völlunum í sumar. Margir sem koma tala nær eingöngu um eigin hross! Líka kom hingað við annan mann Haraldur nokkur Harðarson frá Eiðsstöðum í Blöndudal, frændi vor segir hann og altént af heimaslóðum móður minnar. Þeir voru að leita að rauðri hryssu sem tapast hafði frá Bjarnastöðum (Óla Hjalt). Ekki var hún hér en ég lofast auðvitað til að láta vita ef hún kynni að rekast hingað.

Hrossaræktarráðstefna 2009

Suma daga eru vefsíður, blöð og tímarit, sem kenna sig við hesta og hestamennsku, stútfull af tilefnum til þess að reisa við rönd. Sá sem hér stendur er raunar seinþreyttur til vandræða og lætur alla jafna yfir sig ganga í fjölmiðlum ýmislegt sem flokka má sem ófaglega og hlutdræga umfjöllun, atvinnuróg og steigurlæti besserwissera.

Nú má enginn skilja orð mín þannig að aldrei sé borið á borð fyrir okkur lesendur eitthvað gómsætara en þarna var nefnt, og vissulega hefur verið brugðist við ábendingum um það sem betur má fara, eins og í dæminu sem tekið verður hér á eftir.

En það er satt að segja assgoti hvimleitt að sjá fyrirsagnir eins og þessar um Gæðingakeppni fyrir austan fjall í sumar: Friðdóra sigraði A – flokkinn, Sigursteinn sigraði B – flokkinn o.s.frv. Þetta ágæta fólk var nefnilega ekki meðal hinna eiginlegu keppenda. Í gæðingakeppni eru það hestarnir sem etja kappi hver við annan. Um íþróttakeppnina gildir hins vegar að þar eru knaparnir í aðalhlutverki og hljóta sín sigurlaun í eigin nafni.

Það er raunar tímanna tákn að fréttirnar skuli vera þannig orðaðar. Þessi ólíka keppnistilhögun, gæðingakeppnin og íþróttakeppnin, virðist nú um stundir vera kominn í einn graut hjá almenningi, keppendum og dómurum og mótshöldurum, hverjir svo sem bera mesta ábyrgð á því hvernig komið er. Fagtímarit um hestamennsku geta hins vegar ekki verið þekkt fyrir að kunna ekki skil og greinarmun á gæðingakeppni og íþróttakeppni. Prentmiðlar af því tagi verða að fara fyrir í þeirri viðleitni að koma orðum að hlutunum í samræmi við eðli þeirra og tilgang. Þar hafa þeir ríkar skyldur.

Um kappreiðar gildir sama regla og um gæðingakeppni, þar er hesturinn í aðalhlutverki og á ævinlega að teljast fyrst þegar getið er um afrek í kappreiðum. Í mínum uppvexti hefði þótt fráleitt að segja svo frá kappreiðaúrslitum að Sigurður Ólafsson, Geiri í Gufunesi eða Jón í Varmadal hefðu unnið skeiðið – nei það voru Gletta eða Hrollur, Óðinn eða Þór, Randver eða Logi. Fyrst þegar ég heyrði menn tala svona – Sigurbjörn sigraði skeiðið eða Erling lá á góðum tíma – fannst mér það bara broslegt barnahjal eða agalaust kjaftæði útúrdrukkinna beitarhúsamanna. Nú er þetta sjálfsagt orðalag hjá kappreiðaþulum og fréttamönnum. Og hestarnir? Ekki nefndir.

Þessi persónu- og knapadýrkun er komin út í algerar öfgar og ég vil undirstrika það að enginn af þeim mönnum sem hér hafa verið nefndir, né nokkurt annað af því fólki sem hæst hefur borið í hvers kyns keppni, gæti neitt nema því aðeins að að hafa afrekshest í klofinu. Hvenær skyldum við annars heyra samtal eins og þetta: Hver vann aftur 7 vetra flokk stóðhesta á Landsmótinu 2008? Ja, það var annað hvort Þórður eða Danni. Eða vas sa sú?

Það er kannski ekki alveg út í hött – í framhaldi af þessum hugleiðingum um stjörnudýrkun og óljós mörk – að minnast á að það hefur komið til tals í Fagráði að skerpa þurfi á þeirri hugsun að kynbótasýningar séu ekki keppnisgrein. Þannig hafa Fagráð og hrossaræktarráðunautur frábeðið sér að skipta sér af vali á kynbótaknapa ársins.
Hinn yfirlýsti tilgangur kynbótasýninga er að finna og útnefna þau hross sem líklegust eru til þess að þoka okkur nær ræktunarmarkmiðunum. Margir telja þó að dagsformi og stundarhrifningu, reiðlist og sýningatækni sé gert óþarflega hátt undir höfði í kynbótasýningum nú um stundir. Nokkra hef ég heyrt ganga svo langt að segja að kynbótadómarar séu viljugir að gefa einkunnir í samræmi við það sem þeir sjá lakast í fari hrossanna, en leiði hjá sér hinar betri hliðar. Refsað sé fyrir mistök eins og í ströngustu íþróttakeppni, og hrossin eigi sér ekki viðreisnar von, þótt betur takist til í næstu ferð.

Þótt ég taki á engan hátt undir að þetta sé hin almenna regla, kann að felast í þessu sannleikskorn. Nefnilega það korn sem fyllti mælinn og hratt af stað þeirri umræðu í Fagráði að kynbótasýningar séu ekki keppnisgrein og hvatti þann sem hér stendur til þess að gera grein fyrir því sjónarmiði, sem ég leyfi mér að segja að allir Fagráðsmenn tækju undir, þótt enn hafi ekki verið formlega ályktað um málið.

Ég talaði hérna um dagsform og stundarhrifningu – það má líka kalla það kommuslag – sem segja má að einkenni sýningar í einstaklingsflokkum á landsmóti. Í fljótu bragði er kannski ekkert sérstaklega athugavert við þetta, þótt ég sé fremur gagnrýninn á alla þá vinnu sem lögð er í endurdóma á nýlega dæmdum hrossum. Ef til vill er þess skammt að bíða að fram komi nýtilegar hugmyndir um annars konar fyrirkomulag, já nýtt dómstig, sem aðeins verði notað á landsmótum: t.d. yfirlitssýningar þar sem dómarar hefðu í höndum dóminn frá forskoðun og heimilt væri að hækka og lækka einkunnir.

Afkvæmasýningar eru gott mótvægi við það sem hér hefur verið gert að umtalsefni. Þær eru ekki stundarkeppni, heldur sýning á afrakstri margra ára þrotlauss hugsjónastarfs, oftast áratuga. Tækifæri áhorfenda til að meta og bera saman afkvæmahópa og stinga út feður og formæður að ófæddum folöldum sínum hafa löngum mælst vel fyrir, kannski betur en flestir aðrir dagskrárliðir. Því miður virðist hafa sótt í það far að afkvæmasýningar kynbótahrossa hafi orðið hornreka á landsmótum í tímapressu og óvæginni kröfu um að fækka kynbótahrossum og stytta dagskrárliði. Og allir vita að heiðursverðlaunahryssur, stolt eigenda sinna og eftirlæti áhorfenda, hafa verið gerðar brottrækar af landsmótum af þessum sökum, en einnig vegna þess að rangar ákvarðanir voru teknar um þátttökuskilyrði þeirra.

Ég hef lagt til að róttækar breytingar verði gerðar á landsmótahaldi, til þess að skapa betra næði og athygli fyrir atburði sem fyrir augu ber. Ég lagði þessar hugmyndir fram á Landsþingi LH í fyrrahaust. Þær ganga út á það að halda Landsmót á hverju ári. Annað árið yrði sérstakt unglingalandsmót, líkt og haldið er á vegum UMFÍ, og hefur slegið algjörlega í gegn. Foreldrar og aðstandendur keppenda gætu á slíkum mótum einbeitt sér að verkefninu. Allt mótshaldið myndi hverfast um börnin og unglingana, líka athygli áhorfenda og fjölmiðla.

Hitt árið yrði svo gæðingakeppni og kynbótasýning, hægt væri að gera veg afkvæmasýninga meiri, bjóða heiðursverðlaunahryssur velkomnar á ný. Nú gæfist nægur tími til þess að sjá allt sem fram fer, jafnvel að borða og fara á klósettið.

Það er skemmst frá því að segja að þessi tillaga hlaut engar afgerandi undirtektir, enda ekki óeðlilegt að menn þyrftu að hugsa málið. Í þeim anda var þessari tillögu líka svarað á þinginu og hvatt til þess að haldin yrði opin ráðstefna um málefni og fyrirkomulag Landsmóta. Fagráð hefur í framhaldinu hvatt til þess að slík ráðstefna yrði haldin. Hvað dvelur Orminn langa?