Á silfurfati

Ég horfði á Landssýningu kynbótahrossa hjá Eiðfaxa. Gat aðeins horft á einstaklingssýninguna, en varð frá að hverfa þegar afkvæmasýningar stóðhesta hófust. Það er góð skemmtan, eins og vænta mátti – frábær hross í öllum efstu sætum. Álfaklettur er höfuðdjásn í öllu tilliti og þó nokkur í viðbót koma fast á hæla hans. Leynir frá Garðshorni er líklegastur til að feta í fótspor Álfakletts og þeirra höfuðsnillinga annarra sem lengst hafa náð. Viðar frá Skör er skammt undan, hvílíkur ganghestur útaf henni Limru minni. Askja frá Efstu- Grund hefur búið um sig í hugskotinu, hún er ólíkindatól.

Auglýsing fyrir sýninguna

Það er eins og vant er: Að nefna nöfn, það er eins og að hætta sér út á glerhált svellið. Og svo eru þeir sem ekki áttu heimangengt – nú get ég ekki stillt mig um að nefna Jökul frá Breiðholti, sem mér finnst mikið til um.

Þarna voru að minnsta kosti þrjú úrtökugóð klárhross, sem sómdu sér sannarlega vel á meðal þeirra allrabestu: Fenrir frá Feti, Lydía frá Eystri-Hól og Svarta Perlan frá Álfhólum.
Nokkur önnur klárhross verðskulduðu að fylla þarna flokk þeirra allrabestu.

En – hið nýja mat er nú farið að segja til sín, og birtist, eins og vænta mátti, í færri almennilegum skeiðsprettum í úrvalshópum allra aldurflokka. Breyttar áherslur færa nú á silfurfati æ fleiri skeiðlausum hrossum sæti á ´heiðursstalli hrossaræktarinnar, og ræna um leið jafnmörgum fjölhæfum og fallegum gæðingshrossum tækifæri til að láta ljós sitt skína á brautum sem þó eru sérhannaðar – með löngu undanfæri – fyrir afrekshross á öllum listagangi.

Bjarni & Glotti á Skeiðleikum nú í sumar.
Mynd: Haraldur Helgi

Vissulega voru öll hross sem þarna komu fram afar hugguleg og fóru vel, en allnokkrum var riðið nánast eingöngu á tölti. Það er fátæklegt á kynbótasýningu.

Hin stórhallærislega nýjung að birta dómana með sérstakri hæfileika- og aðaleinkunn án skeiðs, fékk á þessari sýningu aðeins mildari ásýnd, einfaldlega vegna þess að þulirnir kynntu aðeins aðra þessara einkunna, þ.e. hæfileikaeinkunn án skeiðs. Væri það ekki sanngjörn lending í þessu máli að láta einmitt þar við sitja, og láta þessa aðaleinkunn án skeiðs lönd og leið, láta hana hverfa eins og dögg fyrir sólu? Verði svo, má segja að Þorvaldur hrossaráðunautur og Jón Vilmundarson búfjárræktardómari par exellence, hafi af hyggjuviti sínu fært okkur lausn sem allir geti sæmilega við unað – á silfurfati.

Vituð ér enn, eða hvað?

Er ófriður í aðsigi?

Ég hef stundum skipt mér af félagsmálum hestamanna í ræðu og riti. Þessi afskipti hafa staðið yfir nokkuð reglulega undanfarin 20 ár eða meira.

Reglulega er kannski dálítið mikið sagt – en greinasafnið í tölvunni minni er ólygið og segir sögu sem styður þetta orðaval. Ég býst við því að það kunni að vera áhöld um það hvað hafi áunnist, og ég læt það liggja milli hluta í bili. Hvað sem öðru líður: Sjálfum þykir mér ég vera seinþreyttur til vandræða – og ég hyllist til að halda það enn um sinn, þótt ég stingi nú enn niður penna um málefni hestamanna. Málefnið er nefnilega brýnt.
Það hefur á undanförnum árum og áratugum stundum gustað hressilega um forystu- og ábyrgðarmenn í landssamtökum hestamanna, hvort sem þau kenna sig við hestamannafélög eða hrossarækt og hrossabúskap. Fyrir síðasta formannskjör í LH fyrir fjórum árum kvað svo rammt að þessu, að almennir félagsmenn tóku til sinna ráða og kusu til forystu mann sem hafði staðið utan við átakalínu um klíkuveldi og hagsmunapot, en höfnuðu frambjóðanda fyrri stjórnar og þeirra afla sem staðið höfðu fyrir endurteknum óvinafagnaði í herbúðum hestamanna.
Síðan þetta var, hefur tekist að kyrra úfna sjói – og nærtækt að þakka það hinum nýja formanni, Lárusi Ástmari Hannessyni. Ákvarðanir um landsmótsstaði hafa verið teknar í tíma og landsmótin hafa verið staðsett í samræmi við heimildir stjórnar LH – og þótt enn um sinn skorti ef til vill nokkuð á að fullkomin sátt ríki um landsmótsstaðina, hafa verið teknar djarfar ákvarðanir sem ég hygg að muni hljóta brautargengi og verða til framtíðar. Nefni ég þar sérstaklega ákvörðun um að færa landsmótsstað Norðlendinga að Hólum og ákvörðun um að fjölga hlutfallslega sunnlenskum landsmótum, í samræmi við fjölda þátttakenda í landsmótsgreinum.
Margt fleira væri vert að tiltaka, sem vel hefur gengið undir forystu Lárusar. Eins og allir góðir formenn og verkstjórar hefur honum verið einkar lagið að virkja meðstjórnarmenn sína og varaformann. Hann hefur treyst þeim fyrir mörgum þungavigtarverkefnum og verið fús að standa stundum bara í skugganum og leyfa öðrum að blómstra. 
Reglufesta og hlutlægni í meðferð mála er höfuðkostur allra félagsmálafrömuða – og yfirleitt allra þeirra sem kosnir eru með lýðræðislegum hætti til stjórnunarstarfa. Um þetta á og þarf beinlínis að gera kröfu, þegar valdir eru forystumenn, og vissulega er hægt að gera meiri kröfu til slíks fólks heldur en gerist og gengur. En slíkir foringjar eru samt sem áður ekki á hverju strái, eins og dæmin sanna. Þeir þurfa nefnilega að hafa bein í nefinu, kunna að greina rétt frá röngu, forðast frændhygli eins og heitan eldinn, setja stefnuna og hvika ekki frá henni þótt gefi á bátinn og upp komi mál sem örðugt getur reynst að taka á í kunningjasamfélagi. Slík mál hafa komið upp í formannstíð Lárusar Hannessonar – og hann hefur reynst taka á þeim með þeim hætti sem boðaður var í upphafi þessarar efnisgreinar: Af reglufestu og hlutlægni.
Ég hélt, þegar ég heyrði fyrst af því að til stæði að velgja Lárusi undir uggum í formannssæti LH og standa fyrir mótframboði á næsta ársþingi, að hér væri um falsfrétt að ræða. Engin rök hef ég heyrt fyrir þessu mótframboði, enginn ágreiningur um stefnumál eða önnur málefni hefur verið kynntur. Ef ástæðurnar eru persónulegar og mega ekki koma upp á yfirborðið, þá herðir það bara á mér að koma þessum hugleiðingum á framfæri – í þeirri von að ekki verði nú kynt undir ófriðarbáli meðal hestamanna að þarfleysu. Nóg hafa samt gefist tilefnin í tímans rás.
Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið, vonast ég til þess landsfundarfulltrúar á LH þinginu sem framundan er noti tækifærið – sem vissulega gefst í þessari óvæntu formannskosningu – til þess taka af allan vafa um það að þeir kunni að meta formennsku Lárusar Ástmars Hannessonar undanfarin fjögur ár.


Bjarni Þorkelsson

Af skeiðhestum

Góðir skeiðhestar hafa löngum verið líf og yndi Laugarvatns/Þóroddsstaðafólks, allt frá því að Bjarni Bjarnason skólastjóri var á dögum. Hann átti landsmótssigurvegara í 250 m skeiði 1958 og ´62, Skuggasynina Trausta frá Hofsstöðum og Gust frá Hæli. Knapi var Skúli Kristjónsson í Svignaskarði.
Þriðji Skuggasonurinn í eigu Bjarna, Blakkur frá Gullberastöðum, varð efstur alhliða gæðinga og sigurvegari í 250 m skeiði á FM 1961 á Gaddstaðaflötum. Bjarni sat Blakk sjálfur í gæðingakeppninni – þá 71 árs – en Þorkell sonur hans í skeiðinu.

Annar Bjarni Bjarnason er eigandi og knapi Heru frá Þóroddsstöðum, landsmótssigurvegara síðust tveggja landsmóta (2014 og ´16). Á þessum mótum settu þau Íslands- og heimsmet (21,76 og 21,41 sek.). Þriðja metið settu þau á Íslandsmóti á milli landsmóta (21,75 sek.)

Nöfn afreksvekringanna frá Laugarvatni og Þóroddsstöðum eru orðin mörg. Ógleymanlegt með öllu er samspil manns og hests, þegar best tekst til – og þannig hafa orðið til kennileiti í fjölskyldusögunni. Sumt af því er ég að rifja upp þessa dagana – og þótt það verði mest skúffuskrif, langar mig að sýna Fjasbókarvinum þetta, hvað sem meira verður.

Um Þorkel Þorkelsson og Sindra frá Laugarvatni, einhvern alflinkasta skeiðhest og gæðing fyrri tíma. Sindri var sonur Silfurtopps frá Reykjadal og Fjaðrar frá Tungufelli, annarrar ættmóður Laugarvatns- og Þóroddsstaðahrossa. Sindri varð annar í A-flokki gæðinga á FM 1972 og sömuleiðis á LM 1974 – auðvitað riðinn af eiganda sínum Þ.Þ., sem þá var 15 og 17 ára:

Hátt var markið sífellt sett
er Sindra Þorkell lagði
(ég segi frá því satt og rétt)
með snöggu, léttu bragði.

12.11.2016 – Folaldasýning Goða

Folaldasýning Hrossaræktarfélagsins Goða var haldin í dag í Hólmarshöllinni á Minniborg. Að vanda komum við með eina kerru, allt merfolöld að þessu sinni, hestfolöld eru nú engin til hér á Þóroddsstöðum!

1. sæti í hryssuflokki hlaut Trú frá Þóroddsstöðum, eig. Margrét Hafliðadóttir. Trú er undan Trausta frá Þóroddsstöðum og Von frá sama bæ, Þóroddsdóttur og Dömu, Nökkvadóttur frá V.-Geldingaholti og Glímu frá Laugarvatni. Trú er fyrsta afkvæmi stórgæðingsins Trausta, sem lætur að sér kveða, afar vel gerð og fljúgandi rúm og hágeng mýktarhryssa. Hún er sammæðra Fjöður frá Þóroddsstöðum, þeirrar sem kvað að á LM 2016 á Hólum í Hjaltadal í sumar, og nefnd hefur verið á þessum blöðum.

Í öðru sæti varð Nótt frá Þóroddsstöðum, eig. Bjarni Bjarnason. Nótt er undan Króki frá Ytra-Dalsgerði og Kolbrúnu frá Þóroddsstöðum, Hilmisdóttur frá Sauðárkróki og Svölu frá Þóroddsstöðum, Svartsdóttur frá Unalæk og Limru frá Laugarvatni, Angadóttur frá Laugarvatni og fyrrnefndrar Glímu frá sama bæ. Nótt er sammæðra Þóroddsdótturinni Hrefnu frá Þóroddsstöðum, sem var  4ra vetra á LM 2012 í Reykjavík, og vakti a.m.k. athygli glöggra hestamanna fyrir eindregna gæðingskosti.

Þriðja merfolaldið sem ég nefni hér, er NN, eig. Þorkell Bjarnason. Hún undan áðurnefndum Trausta og Freyju frá Þóroddsstöðum, rauðtvístörnótt efnishryssa sem ástæða er til að spá vel fyrir. Hún varð fimmta í flokknum.

 

05.11.2016 – Skeiðknapi ársins

Á uppskeruhátíð hestamanna 2016 var Bjarni Bjarnason valinn skeiðknapi ársins. Hann hefur mörg undanfarin ár verið í fremstu röð skeiðreiðarmanna, og reið nú hryssu sinni Heru frá Þóroddsstöðum til heimsmets í þriðja sinn; fyrst á LM 2014 (21,76), þá á Íslandsmóti 2014 (21,75) og loks nú á LM 2016 (21,41). Hann hefur öll þessi ár unnið margháttuð önnur afrek í öllum skeiðgreinum má segja,  á Heru og ýmsum hrossum öðrum. Má þar nefna Gunni og afkvæmi hennar Kolbein, Hrund og Randver,  Veru og Glúm,  Þoku og Blikku – svo aðeins sé tæpt á því helsta……………..

23.10.2016 Afrekaskrá 2016

bhÍ fréttum er þetta helst……………..

Ég sé það á Fjasbók að ýmsir hrossabændur eru að tína til sitthvað um unnin afrek hrossa sinna. Um leið og ég kynni nýtt útlit heimasíðunnar thoroddsstadir.is  fer ég að dæmi þessara ágætu bænda og set hér  það markverðasta sem á dagana hefur drifið í sumar.

Fyrst er að nefna Íslands- og heimsmet í 250 m skeiði: 21,41 sek.  Það setti Hera frá Þóroddsstöðum á LM 2016 á Hólum í Hjaltadal (sjá myndband hér að neðan). Hera fór nokkra ,,tilraunaspretti” í 150 m skeiði síðsumars, best á 13,92 sek. 100 m skeiðið fór Hera á 7,52.

Glúmur fór 250 m skeiðið á 22,44 sek. en 150 metrana á 14,49 sek, 100 m flugskeið á 7,97 sek.

Fleiri skeiðhross frá Þóroddsstöðum (Blikka og Randver) minntu rækilega á sig og gáfu fyrirheit um það sem koma skal.

Hnokki frá Þóroddstöðum var oft í fremstu röð í fimmgangskeppni og hlaut mest 7,07 í einkunn.

Knapi á þessum hrossum var Bjarni Bjarnason.

Í kynbótasýningunni á LM 2016 voru þessi unghross á verðlaunasæti (2. – 3.):

Í 5 v. flokki stóðhesta hlaut Trausti frá Þóroddsstöðum  8,64 (b. 8,30, h. 8,86) í aðaleinkunn. Hann hlaut 9,5 fyrir tölt og 9 fyrir skeið, 9 fyrir vilja og geðslag, 9 fyrir fegurð í reið.

Í 4. v. flokki hryssna hlaut Fjöður frá Þóroddsstöðum 8,35 (b. 8,04, h. 8,56) í aðaleinkunn. Hún hlaut 9 fyrir tölt og 9 fyrir skeið (þessi einkunnatvenna er sögulegt afrek og ætlað einsdæmi hjá 4ra vetra hrossi) og 9 fyrir vilja og geðslag.

 

 

Myndband af Skeiðspretti Bjarna og Heru á landsmóti

Landsmóti lokið

Í síðustu færslu var þess getið að Þóroddsstaðahross, 6 talsins, væru á leið á LM 2016 á Hólum í Hjaltadal. Þau fóru enga erindisleysu, og verður nú gerð nánari grein fyrir því helsta.

Trausti frá Þóroddsstöðum stórhækkaði hæfileikaeinkunn sína og fékk nú 8,86 (b. 8,30 h. 8,86 ae. 8,64) og lenti í 2.- 3. sæti í flokki 5 v. stóðhesta. Hann hlaut 9,5 fyrir tölt og 9 fyrir skeið, 9 fyrir vilja og geðslag og 9 fyrir fegurð í reið. Trausti fékk líka 9 fyrir réttleika fóta. Gangmýkt, auðsveipni, gangöryggi og hrein gangskil eru aðalsmerki Trausta – með fótaburði, fasi og hvellvekurð sem að samanlögðu tryggja þessa glæsilegu útkomu.

Fjöður frá Þóroddsstöðum, 4ra vetra ungstirnið, hækkaði líka í hæfileikum, heldur betur; fékk nú 8,56 (b. 8,04 h. 8,56. ae. 8,35). Hún varð líka 2. í sínum flokki. Hæst ber þar 9 fyrir tölt og 9 fyrir skeið! – og 9 fyrir vilja og geðslag. Hún fékk raunar 9 fyrir fótagerð líka. Niðurlag umsagnarinnar um Trausta hér að ofan, gilda sannarlega um Fjöður líka, og undirstrika ef til vill ræktunaráherslur og keppikefli Þóroddsstaðaræktunarinnar betur en margt annað; það kann að vera leitun að öðrum eins tryppum, jafnhæfum og í algerum úrvalsflokki á tölti jafnt og skeiði. Brokkið verður ekkert síðra, með auknum styrk og þroska, sannið þið til.

Glúmur frá Þóroddsstöðum fór á góðum tíma í 250 m skeiði: 22,8.

Og þá er bara eftir að minnast lítillega á sjálft heimsmetið í 250 m skeiði hjá Heru og Bjarna Bjarnasyni: Þau fóru á 21,41 – lang besta tímanum á landsmótinu, lang besta tímanum sem náðst hefur á Íslandi og um víða veröld. Hvílíkur snilldarsprettur! Þau bættu eigið Íslandsmet (frá 2014) um 0,34 sek (var 21,75).

Þótt það sé engin goðgá að ímynda sér að hér megi enn bæta í, við bestu ytri aðstæður, sérstaklega með tilliti til hitastigs (það var minna en 10 stiga hiti) – er því ekki að leyna að hér hafa ræst stórir draumar.

Landsmót framundan

6 stk. Þóroddsstaðahross hafa tryggt sér Landsmótssæti þetta árið.

Fyrstur verður hér talinn stóðhesturinn Trausti, 5 vetra gamall öðlingur, sem kemur inn á landsmót með aðra hæstu einkunn í sínum flokki: 8,52. Næst er hér nefnd Fjöður frá Þóroddsstöðum, 4ra vetra ungstirni sem kemur líka inn á LM með aðra hæstu einkunn í sínum flokki: 8,25. Nú nefni ég Hnokka frá Þóroddsstöðum, A-flokks gæðing okkar Traustamanna (hestamannafélag). Blikka frá Þóroddsstöðum vann sér þátttökurétt í 150 m skeiði. Glúmur frá Þóroddsstöðum vann sér þátttökurétt í 250 m skeiði. Og loks nefni ég Heru frá Þóroddsstöðum, Íslandsmethafa og landsmótssigurvegara 2014 í 250 m skeiði, sem hefur áunnið sér rétt til þess að verja titil sinn á því sprettfæri – og til viðbótar fer hún í 100 m flugskeið. Kannski verða hér sagðar skemmtilegar fréttir af þessum landsmótshrossum á næstu vikum.

Skeiðleikar I

Það byrjaði í gærkvöldi, keppnistímabilið í skeiði. Bjarni fór með þrjú hross sem öll unnu til verðlauna, þótt góðmálmar hefðust nú ekki upp úr krafsinu.

Hera varð 3ja í 250 m skeiðinu á 23,2, Glúmur 4ði á 23,4. Blikka varð 5ta í 150 m skeiði á 15,5. Annars gekk það þannig til núna að Þóroddssonurinn Dalvar frá Horni varð hlutskarpastur í 250 metrunum (22,8, kn. Árni Björn Pálsson), og Árni Björn leiddi einnig til sigurs í 150 m skeiðinu Korku sína frá Steinnesi (15,07). Ég vona að þessi byrjun verði farsæl hjá Þóroddsstaðahrossunum; þau eiga eftir að komast í betri þjálfun, og mun þá gull og silfur verða í heimteknum varningi, svo sem venja býður.