Ég horfði á Landssýningu kynbótahrossa hjá Eiðfaxa. Gat aðeins horft á einstaklingssýninguna, en varð frá að hverfa þegar afkvæmasýningar stóðhesta hófust. Það er góð skemmtan, eins og vænta mátti – frábær hross í öllum efstu sætum. Álfaklettur er höfuðdjásn í öllu tilliti og þó nokkur í viðbót koma fast á hæla hans. Leynir frá Garðshorni er líklegastur til að feta í fótspor Álfakletts og þeirra höfuðsnillinga annarra sem lengst hafa náð. Viðar frá Skör er skammt undan, hvílíkur ganghestur útaf henni Limru minni. Askja frá Efstu- Grund hefur búið um sig í hugskotinu, hún er ólíkindatól.

Auglýsing fyrir sýninguna

Það er eins og vant er: Að nefna nöfn, það er eins og að hætta sér út á glerhált svellið. Og svo eru þeir sem ekki áttu heimangengt – nú get ég ekki stillt mig um að nefna Jökul frá Breiðholti, sem mér finnst mikið til um.

Þarna voru að minnsta kosti þrjú úrtökugóð klárhross, sem sómdu sér sannarlega vel á meðal þeirra allrabestu: Fenrir frá Feti, Lydía frá Eystri-Hól og Svarta Perlan frá Álfhólum.
Nokkur önnur klárhross verðskulduðu að fylla þarna flokk þeirra allrabestu.

En – hið nýja mat er nú farið að segja til sín, og birtist, eins og vænta mátti, í færri almennilegum skeiðsprettum í úrvalshópum allra aldurflokka. Breyttar áherslur færa nú á silfurfati æ fleiri skeiðlausum hrossum sæti á ´heiðursstalli hrossaræktarinnar, og ræna um leið jafnmörgum fjölhæfum og fallegum gæðingshrossum tækifæri til að láta ljós sitt skína á brautum sem þó eru sérhannaðar – með löngu undanfæri – fyrir afrekshross á öllum listagangi.

Bjarni & Glotti á Skeiðleikum nú í sumar.
Mynd: Haraldur Helgi

Vissulega voru öll hross sem þarna komu fram afar hugguleg og fóru vel, en allnokkrum var riðið nánast eingöngu á tölti. Það er fátæklegt á kynbótasýningu.

Hin stórhallærislega nýjung að birta dómana með sérstakri hæfileika- og aðaleinkunn án skeiðs, fékk á þessari sýningu aðeins mildari ásýnd, einfaldlega vegna þess að þulirnir kynntu aðeins aðra þessara einkunna, þ.e. hæfileikaeinkunn án skeiðs. Væri það ekki sanngjörn lending í þessu máli að láta einmitt þar við sitja, og láta þessa aðaleinkunn án skeiðs lönd og leið, láta hana hverfa eins og dögg fyrir sólu? Verði svo, má segja að Þorvaldur hrossaráðunautur og Jón Vilmundarson búfjárræktardómari par exellence, hafi af hyggjuviti sínu fært okkur lausn sem allir geti sæmilega við unað – á silfurfati.

Vituð ér enn, eða hvað?

%d bloggers like this: