Ég hef stundum skipt mér af félagsmálum hestamanna í ræðu og riti. Þessi afskipti hafa staðið yfir nokkuð reglulega undanfarin 20 ár eða meira.

Reglulega er kannski dálítið mikið sagt – en greinasafnið í tölvunni minni er ólygið og segir sögu sem styður þetta orðaval. Ég býst við því að það kunni að vera áhöld um það hvað hafi áunnist, og ég læt það liggja milli hluta í bili. Hvað sem öðru líður: Sjálfum þykir mér ég vera seinþreyttur til vandræða – og ég hyllist til að halda það enn um sinn, þótt ég stingi nú enn niður penna um málefni hestamanna. Málefnið er nefnilega brýnt.
Það hefur á undanförnum árum og áratugum stundum gustað hressilega um forystu- og ábyrgðarmenn í landssamtökum hestamanna, hvort sem þau kenna sig við hestamannafélög eða hrossarækt og hrossabúskap. Fyrir síðasta formannskjör í LH fyrir fjórum árum kvað svo rammt að þessu, að almennir félagsmenn tóku til sinna ráða og kusu til forystu mann sem hafði staðið utan við átakalínu um klíkuveldi og hagsmunapot, en höfnuðu frambjóðanda fyrri stjórnar og þeirra afla sem staðið höfðu fyrir endurteknum óvinafagnaði í herbúðum hestamanna.
Síðan þetta var, hefur tekist að kyrra úfna sjói – og nærtækt að þakka það hinum nýja formanni, Lárusi Ástmari Hannessyni. Ákvarðanir um landsmótsstaði hafa verið teknar í tíma og landsmótin hafa verið staðsett í samræmi við heimildir stjórnar LH – og þótt enn um sinn skorti ef til vill nokkuð á að fullkomin sátt ríki um landsmótsstaðina, hafa verið teknar djarfar ákvarðanir sem ég hygg að muni hljóta brautargengi og verða til framtíðar. Nefni ég þar sérstaklega ákvörðun um að færa landsmótsstað Norðlendinga að Hólum og ákvörðun um að fjölga hlutfallslega sunnlenskum landsmótum, í samræmi við fjölda þátttakenda í landsmótsgreinum.
Margt fleira væri vert að tiltaka, sem vel hefur gengið undir forystu Lárusar. Eins og allir góðir formenn og verkstjórar hefur honum verið einkar lagið að virkja meðstjórnarmenn sína og varaformann. Hann hefur treyst þeim fyrir mörgum þungavigtarverkefnum og verið fús að standa stundum bara í skugganum og leyfa öðrum að blómstra. 
Reglufesta og hlutlægni í meðferð mála er höfuðkostur allra félagsmálafrömuða – og yfirleitt allra þeirra sem kosnir eru með lýðræðislegum hætti til stjórnunarstarfa. Um þetta á og þarf beinlínis að gera kröfu, þegar valdir eru forystumenn, og vissulega er hægt að gera meiri kröfu til slíks fólks heldur en gerist og gengur. En slíkir foringjar eru samt sem áður ekki á hverju strái, eins og dæmin sanna. Þeir þurfa nefnilega að hafa bein í nefinu, kunna að greina rétt frá röngu, forðast frændhygli eins og heitan eldinn, setja stefnuna og hvika ekki frá henni þótt gefi á bátinn og upp komi mál sem örðugt getur reynst að taka á í kunningjasamfélagi. Slík mál hafa komið upp í formannstíð Lárusar Hannessonar – og hann hefur reynst taka á þeim með þeim hætti sem boðaður var í upphafi þessarar efnisgreinar: Af reglufestu og hlutlægni.
Ég hélt, þegar ég heyrði fyrst af því að til stæði að velgja Lárusi undir uggum í formannssæti LH og standa fyrir mótframboði á næsta ársþingi, að hér væri um falsfrétt að ræða. Engin rök hef ég heyrt fyrir þessu mótframboði, enginn ágreiningur um stefnumál eða önnur málefni hefur verið kynntur. Ef ástæðurnar eru persónulegar og mega ekki koma upp á yfirborðið, þá herðir það bara á mér að koma þessum hugleiðingum á framfæri – í þeirri von að ekki verði nú kynt undir ófriðarbáli meðal hestamanna að þarfleysu. Nóg hafa samt gefist tilefnin í tímans rás.
Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið, vonast ég til þess landsfundarfulltrúar á LH þinginu sem framundan er noti tækifærið – sem vissulega gefst í þessari óvæntu formannskosningu – til þess taka af allan vafa um það að þeir kunni að meta formennsku Lárusar Ástmars Hannessonar undanfarin fjögur ár.


Bjarni Þorkelsson

%d bloggers like this: