24. ágúst 2010. Lögðum af stað í hestaferð í gær, fimm manns með 41 hross. Riðum í Kjarnholt, þar sem við fengum góðar móttökur að venju, menn og hestar. Á morgun er stefnan tekin á Efstadal.
Allt gekk eins og í sögu, reksturinn hnökralaus og gæðingsefnin eru að byrja að sýna sig. Faxi gekk fallega hjá Þorkeli, nánast alltaf á hreinu tölti eða brokki og vefur sig upp á köflum. Tamningakonurnar Ragnheiður og Freyja Rós fóru á bak 5 vetra hryssunum Dís og Fregn. Baugur var þægilegur hjá Bjarna, verður greinilega sómahestur að minnsta kosti. Nánar um slíkt þegar líður á ferðina. Ég get þó ekki stillt mig um að segja að Eva er ennþá betra hross en ég hélt – og vökur líka!