Vallamótið var haldið í dag. Fórum ríðandi í gærkvöldi í kveldblíðunni. Bræðurnir riðu að mestu einhesta tveimur ofureflingum, Faxa Þyrnissyni og Kóngi Númasyni. Við hin vorum flest með tvo til reiðar – og teymdum raunar fleira af keppnishrossum osfrv. Ragnheiður hafði Ígul og Svip, Freyja Rós var með Spöng sína og Irpu, undirritaður var með Tvist og Vísi, Magga reið Hlé og teymdi Blakk. Hún sneri raunar við þegar Blakkur fór að hósta í Moldbrekkum. Gylfi, Ragnar og Jasmín voru með, Edda á heimleiðinni.

Von og Bjarni gerðu sér lítið fyrir og unnu A-flokkinn. Í forkeppni hlaut Von sannkallaða ofureinkunn, 8,80, en 8,56 í úrslitum. Von er í eigu húsmóðurinnar, aðeins sex vetra gömul. Hún er undan Þóroddi og Dömu Glímudóttur. Von er ákaflega jafnvíg hryssa, allar gangtegundir frábærar. Hún var valin hestur mótsins, enda listavel sýnd af tamningamanni sínum og þjálfara, Bjarna Bjarnasyni. Frammistaða þeirra vakti mikla athygli – yljaði raunar svo að þetta varð stór stund fyrir fjölskylduna. Við áttum raunar þrjú hross önnur sem komust í úrslit á mótinu, ýmist í A- eða B-flokki: Hvíting Hlésson og Fléttu (6v) og Eldingu (5v) Þóroddsdætur. Fleiri hross frá okkur ættuð sýndu sig með athyglisverðum hætti. Þau eru undan stóðhestunum Þyrni og Núma og undan og/eða útaf gæðingamæðrunum Von og Drottningu frá Laugarvatni, sem seldar voru Snæbirni og Björgu í Efstadal fyrir margt löngu. Ómögulegt er að gleyma Þyrnirós Þyrnisdóttur frá Minniborg, sem hlaut 9,0 fyrir tölt á mótinu – og svo er Þyrnir næstum ónotaður seinni árin. Hvílík fásinna! BÞ.

%d bloggers like this: