Ætli það sé ekki alveg út úr korti að skrifa dagbók á heimasíðuna sína? Og skrifar yfirleitt einhver dagbók sem hver sem er getur lesið jafnóðum? Varla getur hún orðið mjög persónuleg með því móti – og þar með geta þvílík skrif vart flokkast sem dagbókarskrif.

Jæja, allt um það. Góður og gegn bóndi í minni gömlu heimasveit sagði einhverju sinni, að það væri um að gera að tala bara nógu mikið, þá kæmi áreiðanlega eitthvað af viti. Vafalaust hefur hann meint þetta almennt og talið þetta gilda jafnt fyrir sjálfan sig og aðra. Ætti ég kannski að gera þetta að mínum einkunnarorðum hér á heimasíðunni og ímynda mér að þetta gæti hæglega gilt fyrir skrifin mín? Ég fer að hallast að því.
Við riðum út í dag, feðgar, í bölvuðum kulda og einkum roki. Bjarni járnar jafnframt, og fer skeifnasprettina. Ég er búinn að vera óduglegur að ríða út í rokinu og kuldabálinu að undanförnu, og nú fannst mér þetta ekki duga lengur, reið Kraka og Vísi, en teymdi Hrund. Bjarni ríður tamningatryppum inni í dag, en fór út á Dís í fyrsta skipti í vetur. Mér sýndist hún vera alveg eins og hann skildi við hana í sumar og líst vel á framhaldið með hana. Bjarni fór svo á Óskarssyninum hennar Sólveigar (vinkonu Ragnheiðar) og sýnist hann vera orðinn húðslakur, liðugur og eftirgefanlegur á báðar hendur. Þar hefur náðst mikill árangur og vonandi að stelpan geti komist betur af við hestinn framvegis. Til þess þarf hún að tileinka sér aðferðina sem Bjarni beitir við hann, svo einfalt er það.

%d bloggers like this: