12.11.2016 – Folaldasýning Goða

Folaldasýning Hrossaræktarfélagsins Goða var haldin í dag í Hólmarshöllinni á Minniborg. Að vanda komum við með eina kerru, allt merfolöld að þessu sinni, hestfolöld eru nú engin til hér á Þóroddsstöðum!

1. sæti í hryssuflokki hlaut Trú frá Þóroddsstöðum, eig. Margrét Hafliðadóttir. Trú er undan Trausta frá Þóroddsstöðum og Von frá sama bæ, Þóroddsdóttur og Dömu, Nökkvadóttur frá V.-Geldingaholti og Glímu frá Laugarvatni. Trú er fyrsta afkvæmi stórgæðingsins Trausta, sem lætur að sér kveða, afar vel gerð og fljúgandi rúm og hágeng mýktarhryssa. Hún er sammæðra Fjöður frá Þóroddsstöðum, þeirrar sem kvað að á LM 2016 á Hólum í Hjaltadal í sumar, og nefnd hefur verið á þessum blöðum.

Í öðru sæti varð Nótt frá Þóroddsstöðum, eig. Bjarni Bjarnason. Nótt er undan Króki frá Ytra-Dalsgerði og Kolbrúnu frá Þóroddsstöðum, Hilmisdóttur frá Sauðárkróki og Svölu frá Þóroddsstöðum, Svartsdóttur frá Unalæk og Limru frá Laugarvatni, Angadóttur frá Laugarvatni og fyrrnefndrar Glímu frá sama bæ. Nótt er sammæðra Þóroddsdótturinni Hrefnu frá Þóroddsstöðum, sem var  4ra vetra á LM 2012 í Reykjavík, og vakti a.m.k. athygli glöggra hestamanna fyrir eindregna gæðingskosti.

Þriðja merfolaldið sem ég nefni hér, er NN, eig. Þorkell Bjarnason. Hún undan áðurnefndum Trausta og Freyju frá Þóroddsstöðum, rauðtvístörnótt efnishryssa sem ástæða er til að spá vel fyrir. Hún varð fimmta í flokknum.

 

05.11.2016 – Skeiðknapi ársins

Á uppskeruhátíð hestamanna 2016 var Bjarni Bjarnason valinn skeiðknapi ársins. Hann hefur mörg undanfarin ár verið í fremstu röð skeiðreiðarmanna, og reið nú hryssu sinni Heru frá Þóroddsstöðum til heimsmets í þriðja sinn; fyrst á LM 2014 (21,76), þá á Íslandsmóti 2014 (21,75) og loks nú á LM 2016 (21,41). Hann hefur öll þessi ár unnið margháttuð önnur afrek í öllum skeiðgreinum má segja,  á Heru og ýmsum hrossum öðrum. Má þar nefna Gunni og afkvæmi hennar Kolbein, Hrund og Randver,  Veru og Glúm,  Þoku og Blikku – svo aðeins sé tæpt á því helsta……………..

23.10.2016 Afrekaskrá 2016

bhÍ fréttum er þetta helst……………..

Ég sé það á Fjasbók að ýmsir hrossabændur eru að tína til sitthvað um unnin afrek hrossa sinna. Um leið og ég kynni nýtt útlit heimasíðunnar thoroddsstadir.is  fer ég að dæmi þessara ágætu bænda og set hér  það markverðasta sem á dagana hefur drifið í sumar.

Fyrst er að nefna Íslands- og heimsmet í 250 m skeiði: 21,41 sek.  Það setti Hera frá Þóroddsstöðum á LM 2016 á Hólum í Hjaltadal (sjá myndband hér að neðan). Hera fór nokkra ,,tilraunaspretti” í 150 m skeiði síðsumars, best á 13,92 sek. 100 m skeiðið fór Hera á 7,52.

Glúmur fór 250 m skeiðið á 22,44 sek. en 150 metrana á 14,49 sek, 100 m flugskeið á 7,97 sek.

Fleiri skeiðhross frá Þóroddsstöðum (Blikka og Randver) minntu rækilega á sig og gáfu fyrirheit um það sem koma skal.

Hnokki frá Þóroddstöðum var oft í fremstu röð í fimmgangskeppni og hlaut mest 7,07 í einkunn.

Knapi á þessum hrossum var Bjarni Bjarnason.

Í kynbótasýningunni á LM 2016 voru þessi unghross á verðlaunasæti (2. – 3.):

Í 5 v. flokki stóðhesta hlaut Trausti frá Þóroddsstöðum  8,64 (b. 8,30, h. 8,86) í aðaleinkunn. Hann hlaut 9,5 fyrir tölt og 9 fyrir skeið, 9 fyrir vilja og geðslag, 9 fyrir fegurð í reið.

Í 4. v. flokki hryssna hlaut Fjöður frá Þóroddsstöðum 8,35 (b. 8,04, h. 8,56) í aðaleinkunn. Hún hlaut 9 fyrir tölt og 9 fyrir skeið (þessi einkunnatvenna er sögulegt afrek og ætlað einsdæmi hjá 4ra vetra hrossi) og 9 fyrir vilja og geðslag.

 

 

Myndband af Skeiðspretti Bjarna og Heru á landsmóti

Landsmóti lokið

Í síðustu færslu var þess getið að Þóroddsstaðahross, 6 talsins, væru á leið á LM 2016 á Hólum í Hjaltadal. Þau fóru enga erindisleysu, og verður nú gerð nánari grein fyrir því helsta.

Trausti frá Þóroddsstöðum stórhækkaði hæfileikaeinkunn sína og fékk nú 8,86 (b. 8,30 h. 8,86 ae. 8,64) og lenti í 2.- 3. sæti í flokki 5 v. stóðhesta. Hann hlaut 9,5 fyrir tölt og 9 fyrir skeið, 9 fyrir vilja og geðslag og 9 fyrir fegurð í reið. Trausti fékk líka 9 fyrir réttleika fóta. Gangmýkt, auðsveipni, gangöryggi og hrein gangskil eru aðalsmerki Trausta – með fótaburði, fasi og hvellvekurð sem að samanlögðu tryggja þessa glæsilegu útkomu.

Fjöður frá Þóroddsstöðum, 4ra vetra ungstirnið, hækkaði líka í hæfileikum, heldur betur; fékk nú 8,56 (b. 8,04 h. 8,56. ae. 8,35). Hún varð líka 2. í sínum flokki. Hæst ber þar 9 fyrir tölt og 9 fyrir skeið! – og 9 fyrir vilja og geðslag. Hún fékk raunar 9 fyrir fótagerð líka. Niðurlag umsagnarinnar um Trausta hér að ofan, gilda sannarlega um Fjöður líka, og undirstrika ef til vill ræktunaráherslur og keppikefli Þóroddsstaðaræktunarinnar betur en margt annað; það kann að vera leitun að öðrum eins tryppum, jafnhæfum og í algerum úrvalsflokki á tölti jafnt og skeiði. Brokkið verður ekkert síðra, með auknum styrk og þroska, sannið þið til.

Glúmur frá Þóroddsstöðum fór á góðum tíma í 250 m skeiði: 22,8.

Og þá er bara eftir að minnast lítillega á sjálft heimsmetið í 250 m skeiði hjá Heru og Bjarna Bjarnasyni: Þau fóru á 21,41 – lang besta tímanum á landsmótinu, lang besta tímanum sem náðst hefur á Íslandi og um víða veröld. Hvílíkur snilldarsprettur! Þau bættu eigið Íslandsmet (frá 2014) um 0,34 sek (var 21,75).

Þótt það sé engin goðgá að ímynda sér að hér megi enn bæta í, við bestu ytri aðstæður, sérstaklega með tilliti til hitastigs (það var minna en 10 stiga hiti) – er því ekki að leyna að hér hafa ræst stórir draumar.

Landsmót framundan

6 stk. Þóroddsstaðahross hafa tryggt sér Landsmótssæti þetta árið.

Fyrstur verður hér talinn stóðhesturinn Trausti, 5 vetra gamall öðlingur, sem kemur inn á landsmót með aðra hæstu einkunn í sínum flokki: 8,52. Næst er hér nefnd Fjöður frá Þóroddsstöðum, 4ra vetra ungstirni sem kemur líka inn á LM með aðra hæstu einkunn í sínum flokki: 8,25. Nú nefni ég Hnokka frá Þóroddsstöðum, A-flokks gæðing okkar Traustamanna (hestamannafélag). Blikka frá Þóroddsstöðum vann sér þátttökurétt í 150 m skeiði. Glúmur frá Þóroddsstöðum vann sér þátttökurétt í 250 m skeiði. Og loks nefni ég Heru frá Þóroddsstöðum, Íslandsmethafa og landsmótssigurvegara 2014 í 250 m skeiði, sem hefur áunnið sér rétt til þess að verja titil sinn á því sprettfæri – og til viðbótar fer hún í 100 m flugskeið. Kannski verða hér sagðar skemmtilegar fréttir af þessum landsmótshrossum á næstu vikum.

Skeiðleikar I

Það byrjaði í gærkvöldi, keppnistímabilið í skeiði. Bjarni fór með þrjú hross sem öll unnu til verðlauna, þótt góðmálmar hefðust nú ekki upp úr krafsinu.

Hera varð 3ja í 250 m skeiðinu á 23,2, Glúmur 4ði á 23,4. Blikka varð 5ta í 150 m skeiði á 15,5. Annars gekk það þannig til núna að Þóroddssonurinn Dalvar frá Horni varð hlutskarpastur í 250 metrunum (22,8, kn. Árni Björn Pálsson), og Árni Björn leiddi einnig til sigurs í 150 m skeiðinu Korku sína frá Steinnesi (15,07). Ég vona að þessi byrjun verði farsæl hjá Þóroddsstaðahrossunum; þau eiga eftir að komast í betri þjálfun, og mun þá gull og silfur verða í heimteknum varningi, svo sem venja býður.

Flugskeið í Meistaradeild

Bjarni Bjarnason og Hera frá Þóroddsstöðum urðu í kvöld sigurvegarar í flugskeiði Meistaradeildar.

Þetta er annað árið í röð sem sigur vinnst hjá þessu pari. Að þessu sinni voru yfirburðirnir ótvíræðir; þau lönduðu tveimur langbestu tímunum: 5,98 og 6,00! Lið þeirra Auðsholtshjáleiga varð stigahæsta liðið og liðsfélaginn Árni Björn Pálsson stigahæsti knapi Meistaradeildar 2016. Hamingjuóskir frá Þóroddsstöðum!

Horse – Expo á Þóroddsstöðum

Í tengslum við síðasta keppniskvöld Meistaradeildar er hér á landi staddur ca. 50 manna hópur á vegum Horse-Expo. Það kom allt til okkar að Þóroddsstöðum í dag fimmtudag, í tveimur hópum……..

Þetta var mjög skemmtileg heimsókn. Við fræddum hópana svolítið um Þóroddsstaðaræktunina: Söguna, ræktunaráherslur fyrr og nú. Höfðinginn Þóroddur heilsaði upp á fólkið og lagt var á samtals 5 hross: Gikk 4ra vetra, Ófeig 5 vetra, Trausta 5 vetra, Eldingu og Hnokka. Að auki voru teymd út á gólfið afrekshryssan Hera og Glúmur, svona til að undirstrika ræktunaráherslur búsins. Hrossin stóðu sig afar vel í reiðinni, og var ekki annað að heyra en heimsóknin mæltist vel fyrir hjá hinum útlendu gestum.

Samantekt v/ uppskeruhátíðar hestamanna

Eftirfarandi var tekið saman í tilefni af því að Hrossaræktarbúið á Þóroddsstöðum var tilnefnt til tveggja heiðursviðurkenninga – sem Ræktunarbú og Keppnishrossabú ársins 2015 – og einnig vegna þess að Bjarni Bjarnason var tilnefndur sem skeiðknapi ársins 2015.

Ræktunarsaga Þóroddsstaða / Laugarvatnshrossa hrossa spannar nú meira en hálfa öld. Helstu merkisberar hennar verða margir nefndir í umfjöllun sem hér fylgir – en árið 2015 unnust þessi afrek.
a) staðfesting WorldFengs á heiðursverðlaunum stóðhestsins Þórodds frá Þóroddsstöðum 4ða árið í röð. Tveir heiðursverðlaunastóðhestar í viðbót eru undan Laugarvatns/Þóroddsstaðahrossum (Gári undan Limru frá Laugarvatni og Nökkvi undan Anga frá Laugarvatni). Einn heiðursverðlaunahesturinn í viðbót er afkomandi Laugarvatnshrossa, þótt nokkru lengra sé að rekja það (Garri – Angi er langafi hans).
b) fimm hross sýnd í kynbótadómi

1. Trausti 4v. aðaleink. 8,44, hæsti dómur ársins á 4ra vetra stóðhesti. Trausti er undan Þresti frá Hvammi og Snót frá Þóroddsstöðum. Snót er undan Aroni frá Strandarhöfði og Dömu frá Þóroddsstöðum, dóttur Nökkva frá Geldingaholti (Angasonar) og Glímu frá Laugarvatni (Dreyradóttur frá Álfsnesi).
Í bakættum Trausta er óslitinn straumur flugvakurra og fjölhæfra gæðingshrossa. Glíma er langamma hans, eins og áður sagði, hún var undan Sjöfn, dóttur Slaufu, dóttur Fjaðrar frá Tungufelli, sem kalla má upphafshryssu hrossaræktar á Laugarvatni/ Þóroddsstöðum.
Í þessu baklandi getur að líta helstu merkisbera í einni stærstu hallarbyltingu sem gerð hefur verið í íslenskri hrossarækt: Hrafn 802 frá Holtsmúla, Náttfara 776 frá Ytra-Dalsgerði, Sörla 653 frá Sauðárkróki, Ófeig 882 frá Flugumýri, Þátt 722 frá Kirkjubæ, Gáska frá Hofsstöðum. Segja má að Orri frá Þúfu tilheyri næstu byltingarbylgju, hann er líka á bak við Trausta.
Trausti er rauðblesóttur, léttbyggt og léttstígt alhliða gæðingsefni. Hann var auðtaminn og afar skapljúfur. Að sögn fór hann snemma vetrar að gefa til kynna úr hverju hann var gerður.

2. Hnokki 8v. geldingur, aðaleink. 8,59 (hæfileikaeink. 8,89). Hnokki er óvenjulegur gæðingur, eins og dómurinn segir til um – og hefur einnig unnið eftirtektarverð afrek á hringvellinum, einkum í fimmgangi, en einnig í fjórgangi og tölti. Hnokki er undan Dömu frá Þóroddsstöðum og Aroni frá Strandarhöfði, og þannig eiga þeir Trausti margar greinar sameiginlega í sínu ættartré. Það gildir líka um þau hross sem talin verða hér á eftir, og fylla flokk sýndra hrossa frá Þóroddsstöðum árið 2015 – og skipa Hrossaræktarbúinu á Þóroddsstöðum á bekk meðal tilnefndra ræktunarbúa ársins 2015:

3. Fáfnir 7v. aðaleink. 8,29 u. Aroni Strandarhöfði og Klukku frá Þóroddsstöðum, Þorradóttur frá Þúfu og Áslaugar frá Þóroddsstöðum, Kjarvalsdóttur frá Sauðárkróki

4. Tinna 8v. aðaleink. 8,15 u. Glampa frá Vatnsleysu og fyrrnefndrar Klukku frá Þóroddsstöðum.

5. Nökkvi 5v. aðaleink. 7,90 u. Keili frá Miðsitju og Blökk Þyrnisdóttur og Jöru frá Laugarvatni

Keppnisárangur er í rauninni fyrst og síðast ræktunarárangur. Hrossaræktarbúið á Þóroddsstöðum er nú tilnefnt í flokki keppnishrossa annað árið í röð, og segja má að það styðji mjög tilnefninguna um ræktunarbúið. Hér getur að líta helstu afrek á keppnisvellinum 2015:
c) Hnokki IS 2007188805 sýndi sjaldgæfa fjölhæfni og tók þátt í 3 greinum í uppsveitadeild: Fjórgangi (2. sæti, eink 7,0 / fimmgangi (1. sæti, eink. 7,3 og tölti (1. sæti, eink. 7,4).

Hnokki varð efstur í 5-gangi í fyrri umferð Úrtökumóts fyrir HM á Kjóavöllum, (eink. 7,13).
Hnokki hlaut 6,93 í forkeppni í tölti (T3) á Meistaramóti Spretts 5. september, og keppti til úrslita í greininni.
d) Hera IS 2005288800 varð Íslandsmeistari í 100 m flugskeiði á 7,49 sek. (Íslandsmót á Kjóavöllum). Þetta var þriðji Íslandsmeistaratitill Heru í röð í 100 m flugskeiði: 2013, 2014, 2015.
Hera á besta tíma ársins í 100 m flugskeiði, 7,42 sek.
Hera á næst besta tíma sumarsins í 250 m skeiði, 22,1 sek. (Úrtökumót fyrir HM á Kjóavöllum, 1. sæti)
Hera varð í þriðja sæti í 250 m skeiði á 22,3 sek. (Íslandsmót á Kjóavöllum)
Hera vann flugskeið Meistaradeildar 2015 og varð í 2. sæti í 150 m (14,84 sek.)
e) Glúmur IS 2007188806 á best 7,81 sek. í 100 m flugskeiði (Skeiðleikar 5) og 22,8 sek. í 250 m skeiði (Meistaramót Spretts). Glúmur varð annar í flugskeiði Uppsveitadeildar.
f) Blikka IS 2006288809 á nokkra frábæra tíma í 150 m skeiði, best 14,59 sek. (Meistaramót Spretts). Hún sigraði 150 m skeið á 14,83 sek. (Skeiðleikum 4) og hreppti oftar verðlaunasæti. Blikka hljóp 100 m flugskeið á 7,89 sek. (Skeiðleikar 5)
g) Dís IS 2005288804 fór 100 m flugskeið á 8,28 sek. og 150 m skeið á 15,72 sek. (Skeiðleikar á Selfossi)

h) Randver IS 2008188800 fór 150 m skeið á 14,89 sek. (Meistaramót Spretts) – á fyrsta keppnisári

i) Goði IS 2003188801 fór á 15,27 sek. í 150 m skeiði og 23,74 sek. í 250 m skeiði.

j) Vera IS 1999288806 fór 100 m skeið á 7,84 (Svíþjóð)
k) Tinna IS 2007288804 komst í úrslit í 5-gangi á Icy-cup í Svíþjóð, eink. 6,10
l) Fáfnir IS 2008188804 hlaut 8,54 í forkeppni A-flokks á Stórmóti Geysis
m) Dagsbrún IS 2009288811 varð efst í A-flokki í gæðingakeppni Hmf. Trausta á Þorkelsvelli í júlí.
n) Elding IS 2005288815 varð efst (að samanlögðu) á vetrarmótum Loga/Trausta, og komst svo í úrslit í töltmóti Loga/Smára/Trausta í apríl.
Bjarni Bjarnason varð stigahæsti knapinn í Uppsveitadeild og lið hans, Arionbankaliðið, annað stigahæsta liðið.
Undir hans stjórn unnu Þóroddsstaðahrossin langflest afrekin, sem hér eru talin. Bjarni er nú tilnefndur í flokki skeiðknapa ársins 2015, annað árið í röð.

Folöldin og veturgömlu tryppin á Þóroddsstöðum eru undan eftirtöldum hestum: Þóroddi frá Þóroddsstöðum, Lord frá Vatnsleysu, Nóa frá Stórahofi, Organista frá Horni, Lexus frá Vatnsleysu, Króki frá Ytradalsgerði, Gikki frá Þóroddsstöðum (3v. u. Sæ Bakkakoti) og Stála frá Kjarri.
Í sumar fóru flestar hryssurnar undir Trausta frá Þóroddsstöðum, en líka er von á folöldum undan Aðli frá Nýjabæ og Forseta frá Vorsabæ.
3ja og 4ra vetra tryppi, sem frumtamin hafa verið, eru undan Þóroddi, Grími frá Neðra-Seli, Gaumi frá Auðsholtshjáleigu, Ás frá Ármóti, Kvisti frá Skagaströnd, Sæ frá Bakkakoti, Arði frá Brautarholti, Þresti frá Hvammi, Hróki frá Efstadal, Hvessi frá Ásbrú, Verði frá Árbæ, Ísadór frá Efra-Langholti, Kráki frá Blesastöðum.