Í síðustu færslu var þess getið að Þóroddsstaðahross, 6 talsins, væru á leið á LM 2016 á Hólum í Hjaltadal. Þau fóru enga erindisleysu, og verður nú gerð nánari grein fyrir því helsta.

Trausti frá Þóroddsstöðum stórhækkaði hæfileikaeinkunn sína og fékk nú 8,86 (b. 8,30 h. 8,86 ae. 8,64) og lenti í 2.- 3. sæti í flokki 5 v. stóðhesta. Hann hlaut 9,5 fyrir tölt og 9 fyrir skeið, 9 fyrir vilja og geðslag og 9 fyrir fegurð í reið. Trausti fékk líka 9 fyrir réttleika fóta. Gangmýkt, auðsveipni, gangöryggi og hrein gangskil eru aðalsmerki Trausta – með fótaburði, fasi og hvellvekurð sem að samanlögðu tryggja þessa glæsilegu útkomu.

Fjöður frá Þóroddsstöðum, 4ra vetra ungstirnið, hækkaði líka í hæfileikum, heldur betur; fékk nú 8,56 (b. 8,04 h. 8,56. ae. 8,35). Hún varð líka 2. í sínum flokki. Hæst ber þar 9 fyrir tölt og 9 fyrir skeið! – og 9 fyrir vilja og geðslag. Hún fékk raunar 9 fyrir fótagerð líka. Niðurlag umsagnarinnar um Trausta hér að ofan, gilda sannarlega um Fjöður líka, og undirstrika ef til vill ræktunaráherslur og keppikefli Þóroddsstaðaræktunarinnar betur en margt annað; það kann að vera leitun að öðrum eins tryppum, jafnhæfum og í algerum úrvalsflokki á tölti jafnt og skeiði. Brokkið verður ekkert síðra, með auknum styrk og þroska, sannið þið til.

Glúmur frá Þóroddsstöðum fór á góðum tíma í 250 m skeiði: 22,8.

Og þá er bara eftir að minnast lítillega á sjálft heimsmetið í 250 m skeiði hjá Heru og Bjarna Bjarnasyni: Þau fóru á 21,41 – lang besta tímanum á landsmótinu, lang besta tímanum sem náðst hefur á Íslandi og um víða veröld. Hvílíkur snilldarsprettur! Þau bættu eigið Íslandsmet (frá 2014) um 0,34 sek (var 21,75).

Þótt það sé engin goðgá að ímynda sér að hér megi enn bæta í, við bestu ytri aðstæður, sérstaklega með tilliti til hitastigs (það var minna en 10 stiga hiti) – er því ekki að leyna að hér hafa ræst stórir draumar.

%d bloggers like this: