Lokakvöld Uppsveitadeildarinnar var í gær. Bjarni Bjarnason og Hnokki frá Þóroddsstöðum unnu töltið með glæsibrag (7,67), og sýndu þar með og sönnuðu að Hnokki er einstakur gæðingur og Bjarni einstakur þjálfari og tamningamaður.

Þeir sigruðu nefnilega í fimmgangi (7,29) líka og urðu í 2. sæti (hárfínt) í fjórgangi (7,00) í fyrstu keppninni í febrúar. Ég er ekki viss um að aðrir hestar lékju þetta eftir, satt að segja.
Bjarni varð líka stigahæsti knapi deildarinnar, og lið hans og Hestamannafélagsins Trausta varð í öðru sæti í liðakeppninni. Aðrir keppendur frá Trausta í töltkeppninni í gærkvöldi voru Guðjón Sigurliði á Lukku frá Bjarnastöðum, þau hlutu þriðja sætið og Ragnheiður Bjarnadóttir og Elding frá Laugarvatni, sem rétt misstu af úrslitasæti. Auk þessara þriggja var í Traustaliðinu Hildur Kristín Hallgrímsdóttir, hún keppti í fjórgangi.
Skeiðið var líka í gær, þar hlaut Bjarni annað sætið. Hann geymdi Heru heima, Íslandsmethafann og nýbakaðan sigurvegara í Meistaradeild, og mætti með nýjan skeiðhest, Glúm frá Þóroddsstöðum. Glúmur rann sprettfærið á 3 sekúndum sléttum. Sá byrjar vel!

%d bloggers like this: