Skemmtilegar fréttir af ungum og efnilegum Þóroddsstaðahrossum og afkvæmum Þórodds: Í sömu vikunni hafa nú orðið þau tíðindi að Þóroddssynir á sjötta vetri sigruðu fimmgangskeppni. Austri frá Flagbjarnarholti og Þórunn Hannesdóttir unnu fimmganginn í áhugamannadeild Spretts, og Prins frá Hellu og Ísleifur Jónasson gerðu sér lítið fyrir og unnu yfirburðasigur á Hófadyn Geysis í Rangárhöllinni með einkunnina 6,95 – í sinni fyrstu fimmgangskeppni.
Hnokki frá Þóroddsstöðum (7v. F. Aron M. Dama frá Þóroddsstöðum u. Nökkva V.- Geldingaholti og Glímu Laugarvatni) og Bjarni Bjarnason bættu svo rós í hnappagatið með stórglæsilegri sýningu og frammistöðu í fjórgangi í Uppsveitadeild í gærkvöldi – einkunn 7,00. Eins og margir munu vita er Hnokki þekktur alhliða gæðingur – flugvakur – og var í milliriðli í A-flokki á LM 2014. Til stendur að tefla honum fram í tölti og fimmgangi einnig, og má hafa það til marks um eðlisgæði hans, fjölhæfni og vandaða tamningu og þjálfun. Hnokki er heillandi á tölti og brokki, stekkur dável á langhliðum. Fetið er á mikilli framfarabraut. Hjá einum dómara hlaut hann fyrir það hæstu einkunn sem gefin var þetta kvöldið: 8,0. Augljóslega þyrfti þessi hestur að fá tækifæri meðal þeirra bestu í fimmgangskeppni og að því hlýtur að reka.