Félagsfundur Hrs. Suðurlands var haldinn á miðvikudagskvöld (23. okt. ) í Hliðskjálf á Selfossi. Aðalefni fundarins var nýútkomin skýrsla markaðsnefndar samtakanna, sem ætlað var að gera tillögur um aðalverkefni ársins hjá Hrossaræktarsamtökunum: Markaðsmál í víðasta skilningi. Auðvitað bar önnur mál á góma, eins og fram mun koma í þessum skrifum.

Nefndin hefur unnið gott starf, og hugmynd og útfærsla félagsstjórnarinnar á fyrirkomulagi allrar þessarar vinnu er til fyrirmyndar. Ef til vill mætti þó segja að fundarmenn hefðu átt að vera öllu fróðari um innihald skýrslunnar fyrirfram, til að geta lagt meira af mörkum við hópavinnuna sem nú fór í hönd. Kannski hefði mátt setja skýrsluna á netið með ögn meiri fyrirvara – og auglýsa betur fyrirkomulag fundarins.
Í skýrslunni eru samantekin fjölþætt úrlausnarefni, og tillögur um hvernig leysa skuli. Ekki er litið svo á að skýrslan sé fullbúin eða endanlega frágengin, enda var hún á milli tannanna á fundarmönnum hálft kvöldið. Hana skyldi vega og meta, raða uppástungum í forgangsröð, flíka nýjum hugmyndum, skerpa orðalag og skýra, efast jafnvel um framsetningu og grundvallarhugmyndir – að minnsta kosti í bili. Að mati undirritaðs pistlahöfundar er skýrslan vel unnin og yfirgripsmikil, og verður áreiðanlega ennþá betri þegar tekið hefur verið tillit til tillagna og athugasemda um viðbætur og endurskoðun á örfáum atriðum – þótt ekki sé nema vegna hins fornkveðna að betur sjái augu en auga.
Óvinsamlegar raddir hafa heyrst um að í skýrslunni sé fátt nýtt. Hér verður það látið liggja milli hluta, en bent á að hér er að minnsta kosti margt nýtilegt. Og, vel að merkja, er ekki nýjabrum á þessu hér?:
Að samanlögðu má segja að samhljómur hafi verið milli fundarmanna og skýrsluhöfunda um að taka skuli upp eftirtaldar áherslur við markaðssetningu íslenska hestsins og þá nýliðun og uppeldisstefnu í hestamennsku sem greininni er lífsnauðsynleg:
Endurvekja leik og gleði og það yndi sem eigi er vitað annað betra í samskiptum manns og hests – en horfa ekki svo stíft til sýninga og keppni sem tíðkast hefur, með tilheyrandi alvörugefni og stríðu hugarfari. Minnt var á þá einstöku möguleika sem hestamennska hefur til að stuðla að samveru og samábyrgð kynslóðanna, ekki bara tveggja heldur þriggja eða fjögurra kynslóða.
Kannski er líka nýjabrum að vaxandi undiröldu – og hennar gætti vissulega á fundinum – um að endurmeta ætti almennt gæðamat á íslenska hestinum og hefja frekar til vegs þá hestgerð sem nú um stundir er nefnd í niðrandi tón: bara reiðhestur. Þetta „sæmdarheiti“ bera nú sjálfgengir og silkimjúkir töltarar, sem allir geta riðið.
Það er skemmst frá því að segja að einróma niðurstaða félagsfundarins var að taka skyldi þrjú atriði sérstaklega út úr skýrslunni og gera að þinghæfum tillögum á aðalfundi Félags hrossabænda, sem brátt verður haldinn. Var stjórn félagsins og öðrum aðalfundarfulltrúum, sem til þess voru kjörnir sl. vetur, falið að ganga í það verk.
Þessi mál eru:
1. Að stofnuð verði Markaðsstofa sem byggi á víðtæku klasasamstarfi hagsmunaðila í íslenskri hestamennsku
2. Að þróað verði – og tengt við Veraldarfeng Bændasamtakanna – sölukerfi fyrir íslenska hestinn, svolítið í ætt við það sem tíðkað er við bílasölu: Gagnagrunnur sem hægt er að fletta uppá í tölvu
3. Að komið verði á allsherjar upplýsingasíðu um íslenska hestinn, þarfasta þjóninn, félaga og vin – með áherslu á sögu hans og not í fortíð og nútíð, sérstöðu hans meðal hestakynja (litir, fjölhæfni, vinnugleði, heilbrigði og hreysti, hreinleiki með tilliti til sjúkdóma, óþarfi bólusetninga, hreinræktun landnámskynja). Allt grunnefni á einum stað, ef til vill á forsíðu Veraldarfengs?
Fjórða málið sem hlaut formlega afgreiðslu á fundinum laut að starfsumhverfi hrossabænda. Samþykkt var að fela stjórninni og aðalfundarfulltrúum að rekast í því að efldur verði á ný trúverðugleiki við kynbótadóma og bætt verði samræmi við dómsstörf – á milli landa og sýninga. Stór þáttur í því yrði að knýja Fagráð og / eða yfirstjórn kynbótamála til þess að bregðast loks við þeirri uppákomu sem varð við dómsstörfin á Selfossi í vor og koma með tillögu um beinar aðgerðir sem barið gætu í brestina og lægt þær öldur sem risið hafa.
Í umræðum var minnt á að gera þyrfti skýran greinarmun á ræktunartakmarki og framkvæmd dómsstarfanna – að óþarft væri að efast um ræktunartakmarkið, þótt dómurum tækist ekki einatt að hitta á þær tölur sem samræmdust því best. Þá var varað við því að beina sjónum um of – eða eingöngu – að almennum aðgerðum og setningu hæfis- og siðareglna, þegar ljóst væri að aðalvandinn lægi í því að örfáir einstaklingar hefðu brotið allar brýr að baki sér og bakað þau vandræði sem við blasa.

Við lok fundarins sagði formaðurinn Sveinn Steinarsson frá því að hann hygðist gefa kost á sér við boðað formannskjör á aðalfundi Félags hrossabænda. Fundarmenn tóku þessari yfirlýsingu fagnandi, og lýsir það ef til vill best þeirri farsælu sex ára forystu sem Sveinn hefur veitt Hrossaræktarsamtökum Suðurlands – með áherslu á grasrótarstarf og að virkja stjórnarmenn sína til góðra verka.
Þótt ekkert sé í hendi um framgang framboðsmálsins, eins og formaðurinn minnti rækilega á, segi ég hér að lokum: Við slíka menn má binda vonir, er þeir ganga skrefi lengra.
Bjarni Þorkelsson, einn fundarmanna.

%d bloggers like this: