Á heimsleikunum í Berlín um síðustu helgi gerðu Konráð Valur Sveinsson og Þórdís frá Lækjarbotnum sér lítið fyrir og unnu til verðlauna í þremur greinum í ungmennaflokki.

Tvenn verðlaunanna voru gullverðlaun og heimsmeistaratign, nefnilega í 100 m skeiði (7,68) og 250 m skeiði (23,8). Þriðju verðlaunin voru bronsverðlaun í gæðingaskeiði, en þar skeiðaði Þórdís tímatökukaflann á besta tíma allra þátttökuhrossanna. Sýndist mér einboðið að hefði hún verið látin grípa stökkið í upphafi spretts og svo tekin niður á snöggu léttu bragði, hefði ekki verið að sökum að spyrja – knapinn hefði einfaldlega hampað þar þriðja gullinu. Fáir ef nokkrir íslensku landsliðsknapanna státa af öðrum eins árangri – nema gripið sé til útreiknaðs árangurs í samanlögðum greinum.
Þórdís er fyrsta Þóroddsafkvæmið sem lætur verulega að sér kveða í skeiðkappreiðum, en önnur hafa minnt á sig og munu gera þegar tímar líða.

Annars eru helstu tíðindi af þessu móti fáheyrðir yfirburðir Jóhanns Skúlasonar og Hnokka frá Fellskoti í töltkeppninni. Jóhann er auðvitað hættur að koma á óvart, en gaman er að sjá þennan frábærlega fallega hest frá nágrönnunum í Fellskoti slá svona algerlega í gegn. Vonandi ljúkast nú upp augu manna fyrir því hvað hestgerðin sjálf hefur gríðarlega mikið að segja, þegar stefnt er að hámarksárangri. Þetta hefði karli föður mínum líkað, það get ég sagt ykkur.

%d bloggers like this: