Dómnefnd kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum var ákaflega vel mönnuð þessa vikuna (10.-14. júní), og þá er ekki að sökum að spyrja: Fólk er meira og minna sátt við útkomuna, skilur hana og virðir – jafnvel þótt ekki gangi allir gengisdraumar eftir. Og hvernig var þá dómnefndin mönnuð?: Víkingur var formaður, sýndist mér, Ágúst Sigurðsson og Halla Eygló. Með slíka meginstólpa sem Víking og Ágúst í forsæti þarf ekki að spyrja að því. Reynsla þeirra og næmi – fluglæsi á eðlisgæði sýningahrossanna og virðing fyrir búfjárræktarsjónarmiðum – gerði það að verkum að hér var allt „eðlilegt“.

Og það sýndist mér nú einnig vera upp á teningnum í fyrri vikunni á Gaddstaðaflötum. Undirritaður fylgdist þó aðeins með einu „holli“, sem vissulega er fulllítið til að draga af víðtæka ályktun. Þar var Skagfirðingurinn Eyþór Einarsson formaður dómnefndar, meðdómendur Steinunn Anna Halldórsdóttir – líka skagfirsk – og Halla Eygló. Hver veit nema einmitt Eyþór sé hægt og bítandi að vinna sig í það álit sem til þarf að gegna formennsku í kynbótadómnefnd? Mér sýnist margt benda til þess nú – enda er maðurinn gegnvandaður, gagnmenntaður búfjárræktarmaður, alinn upp á hestbaki, kunnugur öllum hestgerðum af eigin raun, þ.m.t. afrekshrossum. Að mínu mati hin kórrétta blanda, uppskrift að góðum kynbótadómara.

Allt önnur mynd blasti við á Selfossi um daginn, en þar sá ég dálítið til vinnubragða annarrar dómnefndarinnar. Formaðurinn var raunar af þeirri góðu gerð sem ég lýsti áðan, sjálfur Jón Vilmundarson, einn virtasti búfjár- og kynbótadómari sem við höfum átt, a.m.k. hef ég löngum litið svo á. Hann virtist þó borinn ofurliði af meðdómendum sínum, Magnúsi Lárussyni og Elsu Albertsdóttur, og kom það raunar glöggt fram í beinni útsendingu úr dómpalli, sem frægt er orðið.

Öll nálgun síðarnefnda dómnefnarfólksins virtist vera með andsnúnu hugarfari og neikvæðum formerkjum, og sumt vítavert eins og fram hefur komið. Áherslan á dagsform, íþrótta- og keppnishugsun, virðist einkenna dómnefndarfólk af þessu tagi – það er eins og fremur sé beðið eftir tækifærum til þess að rífa niður einkunnir, en að leyfa sér að meta að verðleikum auðsýnd eðlisgæði, hvað þá að hrífast þá með! Ýmsar hugmyndir sem ræddar hafa verið og lagt er upp með í Fagráði – t.d. að dæma gangtegund eftir þeirri ferð sem best heppnast – þeim virðist varpað fyrir róða í dómnefndum þegar sjónarmið þessa fólks ráða ferðinni. Það getur ekki verið gaman fyrir Jón Vilmundarson að sitja undir þessari niðurrifsstarfsemi, og satt að segja er ég alveg gáttaður á því að hann skuli láta bjóða sér það, hafandi yfir að ráða svo þróttmikilli bassarödd sem dæmin sanna þegar henni er loksins beitt – og heyrist víst aðeins þegar brestur í söng!

Ég sá 5 hross dæmd á þessum örlagamorgni á Selfossi um daginn. Fjögur þeirra hlutu allt of lága dóma, jafnvel algjöra niðurrifsdóma, en eitt sanngjarnan dóm: Stáladóttirin Ugla frá Flagveltu. Hin voru Gáll frá Dalbæ (u. Adam frá Ásmundarstöðum), Þula frá Völlum (u. Glóðari frá Reykjavík), Lifun frá Ásbrú (u. Þóroddi frá Þóroddsstöðum) og Snæsól frá Austurkoti (u. Kjarna frá Þjóðólfshaga).
Gáll hlaut að mínu mati alls staðar hálfum lægra en hann átti skilið í hæfileikum: 7,58 að meðaltali.
Hann var sýndur aftur á Miðfossum í síðustu viku, í annarri viku frá Selfossýningunni. Þar hlaut hann 46 stiga hækkun f. hæfileika (8,04), og er nú sá prýðisgóði 1. verðlaunahestur sem hann á skilið.
Lifun frá Ásbrú hlaut fyrir hæfileika 7,64 á Selfosssýningunni. Örfáar af þeim tölum eru skiljanlegar, þar sem sýningin tókst ekki sem skyldi að öllu leyti. Aðrar einkunnir voru jarðlægar, eins og berlega kom í ljós á Gaddsstaðaflötum í síðustu viku. Þar hækkaði Lifun um 56 stig fyrir hæfileika (8,20), og prýðir nú loks þann flokk úrvalstryppa, sem hún átti skilið þegar í fyrra (komst ekki á Landsmót 2012).
Snæsól hækkaði um ca. 20 stig í yfirliti, og uppskar þá nokkuð af því sem hún átti skilið strax í upphafi, þ.e. í dómnum sjálfum.
Þula frá Völlum var ekki sýnd aftur að sinni. Hún er glæsilega geng klárhryssa, sem fékk mjög ósanngjarna útreið í hæfileikadómi. Eigandinn er nú ráðvilltur, og veit ekki hvað gera skal.
Skyldu búfjárræktardómararnir á Selfossi hafa farið nærri um eðlisgæði þessara nafngreindu hrossa? Kannski þeir líti ekki einu sinni svo á að það sé þeirra hlutverk?

Mörg önnur dæmi segja líka sögu og þessi, og væri verðugt verkefni fyrir Fagráð að gera úttekt og samanburð á öllum hrossum sem endursýnd voru eftir Selfosssýninguna miklu, þar sem litlir karlar (óeiginleg merking og getur átt við bæði kyn) réðu ferð. Ég get þó ekki stillt mig um að nefna Villing frá Breiðholti í Flóa: Hann hlaut á Selfosssýningunni 8,17 f. byggingu, 7,88 f. hæfileika, og 8,0 í aðaleinkunn. Á Gaddstaðaflötum tveimur vikum síðar var Villingur orðinn sá stórgæðingur sem verðskuldaði 9 stiga hækkun fyrir byggingu, og 70 stiga hækkun fyrir hæfileika, segi og skrifa: 8,26 – 8,58: 8,46. Í stað dágóðs stóðhests með lágmarkseinkunn til 1. verðlauna, var hér kominn verðugur kandidat til heimsmeistaratignar í flokki 5 vetra stóðhesta í Berlín í sumar – hvað sem um það verður.

Hvað skyldu þessir endurdómar og aukaferðir á Miðfossa, Hellu – og út og suður – vera búnir að kosta íslenska hrossaræktendur í gegnum tíðina? Hvað skyldu niðurrifsmenn í hópi kynbótadómara vera búnir að valda miklum skaða, beinum og óbeinum, einstaklingum og greininni sjálfri? Hvenær rekur að því að ráðamenn sjái þær einföldu lausnir sem margoft hefur verið bent á, nú síðast í opnu bréfi til Fagráðs, dags. 15. júní 2013?
Bjarni Þorkelsson.

%d bloggers like this: