Kletturinn fallinn.
Látinn er í hárri elli Sveinn Guðmundsson á Sauðárkróki. Sveinn var einn þeirra manna sem fremstir fóru í því að finna íslenska hestinum nýtt og verðugt hlutverk í þjóðlífinu um miðja síðustu öld, þegar ýmsum virtist að dagar hans væru taldir. Bílaöldin var gengin í garð og vélvæðing sveitanna í algleymingi. Þarfasti þjónninn, sem í þúsund ár hafði gegnt aðalhlutverki á sviði atvinnu og samgangna, virtist dæmdur til eigra um hagana, engum til gagns eða gleði. Ævintýrið um hinn sagnafáa vin, var það búið?
Gagn og gleði, það er einmitt það. Allar aldir frá landnámi hafði íslenski hesturinn, þarfasti þjónninn, ekki bara verið landsmönnum til gagns – kynslóð eftir kynslóð – heldur einnig ómældrar gleði. Og það var eftir þessum gleðinótum sem spilaður var af fingrum fram hófadansinn sem stiginn hefur verið allar götur síðan. Með geiglausu þori lögðu Sveinn Guðmundsson og aðrir fullhugar af stað í morgunljómann til að ryðja brautina fyrir nýju hlutverki íslenska hestsins, aðalhlutverki í mikilli leiksýningu, nýju ævintýri. Sú sýning stendur nú sem hæst, og að þessu sinni sér ekki fyrir endann á henni. Nokkur bið kann því að verða á, að klappaðir verði upp aðalleikararnir.
Þótt hér sé sagt frá þátttöku Sveins í sameinuðu átaki til heilla fyrir land og þjóð, var þó ef til vill nær skaplyndi hans að fara eigin leiðir. Þær leiðir lágu um víðáttur og einstigi hestamennsku og hrossaræktar, og á þeim lendum fór hann jafnan fyrir. Á engan er hallað, þótt fullyrt sé að þar hafi enginn haft tærnar sem hann hafði hælana – um áratugaskeið. Ótrúlega hátt hlutfall sýndra og skráðra hrossa á Íslandi eiga nú ættir að rekja til Sveinshrossa. Að minnsta kosti 5 stóðhestar úr ræktun hans hafa hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og flestir hinna heiðursverðlaunahestanna eiga til þeirra ættir að rekja.
Hér er við hæfi að gefa lesendum isibless.is nokkra mynd af áherslum Sveins Guðmundssonar. Þau varnaðarorð eru ef til vill þörf lesning okkur öllum sem lifum og hrærumst í hrossaræktarmenningunni. Í bókinni „Glymja járn við jörðu“ (útg.1998) lítur Sveinn yfir farinn veg – og reyndar fram á veginn jafnframt. Verður hér vitnað í formála bókarinnar, skrifaðan af honum sjálfum. Fyrri tilvitnunin lýtur að mönnum, hin seinni að hrossum.
„Ég verð þó að játa að mér finnst stundum að þessir ungu menn í dómarastörfunum, sem tóku við góðu búi, líti fremur á okkur, þessa gömlu og máske eitthvað reyndari, sem einhvers konar nátttröll sem dagað hafi uppi en samstarfsmenn í því vandasama og mikilvæga starfi sem hrossaræktin er. Fari svo, sem mér sýnist jafnvel stefna í, að á milli ráðunauta og ræktenda myndist óbrúanleg gjá, yrði það mikið slys með ófyrirséðum afleiðingum. Það hlýtur að vera grundvallaratriði í eðlilegri þróun til framfara í ræktuninni að þeir tveir ábyrgðarmenn hennar, ráðunauturinn og ræktandinn, skilji hvor annan og tali sama tungumál. Þegar annar telur sig standa svo miklu ofar hinum að hann telur þekkingu sinni ekki samboðið að ræða við hann, segir honum að hann sé flón eða eitthvað þaðan af verra, eru þessi mál komin í hættulegan farveg sem allt ræktunarstarf hlýtur að bera skaða af.“
„Í dag sýnist mér athyglin beinast mest að orkumiklum tölturum með óhemjulegan fótaburð, sem minnir á útlend tölthestakyn þar sem keppnishestar eru þjálfaðir með hvers kyns hjálpartækjum og tólum. Að mér hefur um skeið læðst óljós grunur um að þessi tískusveifla sé að leita sér fótfestu inni í ræktunarstefnu íslenska reiðhestsins. Eigi þessi grunur við rök að styðjast, og sé hinn fjörglaði og hreyfingamjúki gæðingur á undanhaldi fyrir þessari nýju ímynd, þykir mér uggvænlega horfa, og til þess vil ég ekki hugsa.“
Íslenskir hestamenn lúta nú höfði í þökk og virðingu við hinn látna höfðingja Svein Guðmundsson – og það gera raunar hestamenn um víða veröld, hestamenn sem láta gamminn geysa á afkomendum Síðu frá Sauðárkróki, hinnar hálsgrönnu og svipmiklu morgungyðju íslenskrar hrossaræktar.
Bjarni Þorkelsson.