Ég vil byrja á því að þakka Landssambandi Hestamanna [svo í tilkynningu] fyrir að birta starfsreglur valnefndar um knapa ársins 2012.
Þetta er í raun afar forvitnilegt plagg, og nefndarmenn ekki öfundsverðir af því að vinna eftir því, satt að segja. Það er af ráðnum hug sem ég ætla ekki að gera innihald þess að umtalsefni, en þeim mun fastar – og í fullri vinsemd – skora ég á stjórn L.H. að plaggið verði endurskoðað hið fyrsta, með tilliti til málfars og innihalds – þótt ekki sé til annars en að nefndin fái skýrari skilaboð og fyrirmæli um hlutverk sitt.
En úr því ég er sestur við tölvuna:

Kynbætur og kynbótagildi er hugleikið flestum hestamönnum, eins og nærri má geta. Ýmsir vísna- og gleðimenn í þeirra hópi hafa orðið til þess að láta fjúka í hendingum, sem með góðum vilja má tengja þessum hugðarefnum. Ekki þarf fjörugt ímyndunarafl til þess láta þær eðliseigindir, sem kynbæturnar óneitanlega grundvallast á þegar öllu er á botninn hvolft, kallast á við ýmsar lífsnautna- og hestavísur, sem kviknað hafa til og frá. Og þótt þetta eigi alls ekki að verða neinn vísnaþáttur get ég ekki stillt mig um að nefna nokkur dæmi.

Siggi í Krossanesi orti svo er hann reið á hinum glæsta stóðhesti Sokka 332 frá Ytra-Vallholti.
Eru fjögur undir mér
eistu dável sprottin.
Af öllu hjarta þakka ég þér
þessa sköpun, Drottinn.

Erla skáldkona í Vopnafirði orti svo er Einar Sæmundssen eldri kom ríðandi á bæ hennar:
Hátt sá jarpi hausinn ber
hann er sporalaginn.
Enn er líflegt undir þér
eins og fyrri daginn.

Jón úr Vör orti þessa óborganlegu vísu:
Aldrei hef ég eignast fák
enginn vildi ljá mér hest.
Mátti sitja á mínum strák
meðan ég gat riðið best.

Það er ekki ætlun mín að taka neina efnislega afstöðu til tilnefninga um knapa ársins, enda hætt við því að mönnum fyndist hún nokkuð fyrirsjáanleg.
Það má líka segja að slík afstaða væri alls ekki við hæfi, þar sem ég hef rökstuddar efasemdir um að valið á kynbótaknapa ársins eigi rétt á sér, að minnsta kosti með þeim hætti sem viðgengist hefur. Að öllu samanlögðu finnst mér að þetta sé einhver óheppilegasta og heimskulegasta keppnisgrein, sem fundin hefur verið upp. Fyrir þessu eru ýmis rök:

1. Auðséð er að knapi sem legði upp úr slíkum vegtyllum, kynni að leggja mikið uppúr heimavali eða forvali – eins og þeir hrossaræktendur sem best passa uppá sína stóðhesta – og skekkja þannig niðurstöðurnar og gera þær enn síður samanburðarhæfar.
2. Það er deginum ljósara að enginn nær árangri á þessu sviði nema hafa góð hross í klofinu, og einmitt þess vegna er nánast ómögulegt að bera saman raunverulegan „árangur” einstakra knapa. Þótt af öðru tilefni væri, var gaman að heyra Sigurð í Þjóðólfshaga halda þessu sjónarmiði á lofti í sjónvarpsviðtali (4. feb. 2008), er sýnt var frá fyrsta keppniskvöldi vetrarins í Meistaradeild. Nákvæmlega sömu hugsun orðaði Einar Öder Magnússon, þá í sigurvímu eftir glæsta framgöngu í B-flokksúrslitum á LM 2012.
3. Það voru annarleg skammtímasjónarmið sem réðu því að farið var að reikna út og verðlauna kynbótaknapa ársins. Þetta er nú að mestu gleymt og yngri kynslóðir, sem muna ekki tímana tvenna, taka þessu óláni sem sjálfsögðum hlut.
4. Fagráð í hrossarækt og hrossaræktarráðunautur hafa nú endanlega sagt sig frá því að koma að þessu vali, og þannig lýst afstöðu sinni til málsins – enda sé engin lagastoð fyrir slíku hlutverki.
5. Orðið kynbótasýning er frá fornu fari hlaðið ýmsum jákvæðum gildum, sem engan veginn geta samrýmst þeirri hörðu keppnishugsun sem tröllríður nú samfélagi hestamanna – og er kannski að gera útaf við það, var ég að lesa í Eiðfaxa í gærkvöldi (Gunnar Steinn Pálsson). Það er engin tilviljun að þetta göfuga orð – kynbótasýning – varð ofaná þegar nefna skyldi dagskrárliði stórmóta frá upphafi – og átti alltaf að vera fullkomin andhverfa keppnisgreinanna, sem kinnroðalaust gangast við tilgangi sínum um leið og nefndar eru: Kappreiðar, gæðingakeppni, töltkeppni, íþróttakeppni.
6. Ef hægt er að sammælast um það að kynbótasýning sé ekki keppni, hvers vegna skyldi þá nokkrum manni detta í hug að etja knöpum kynbótahrossa út í keppnisforaðið?

Það er sannfæring mín og fjallgrimm vissa að farið hafi verið út á hálar brautir – og ofan í kaupið gleymst að skrúfa í skaflana – þegar farið var að bera fólk saman á þennan hátt, „taka saman” og beita tölfræðilegum aðferðum – og umfram allt að finna meðaltöl, sem undir samanbitnu fræðayfirbragði getur stundum orðið einhver óforskammaðasta fölsunaraðferð sem fyrirfinnst. Einkum á þetta við þegar bornir eru saman einstaklingar af holdi og blóði, einstaklingar sem munu eðli sínu samkvæmt aldrei kvikna til lífs í neinum Meðal-Jóni eða –Gunnu. Kannski það sé næsta skref að fá Þorvald Árnason til að reikna út Blupp fyrir knapana, með tilheyrandi leiðréttingum fyrir öllum mögulegum umhverfisáhrifum, aldri og ætterni?

Það er mat undirritaðs að illa hafi tekist til, er farið var að búa til keppnisgreinina knapi á kynbótahrossum. Kannski var það þó ekkert annað en við mátti búast í þessu offorsi knapa- og hetjudýrkunar, sem situr nú klofvega á hrygglengju samfélags hestamanna og ber ákaft fótastokkinn.

Bjarni Þorkelsson

%d bloggers like this: