Það var fallegur dagur á Laugarvatni þegar gæðingakeppni Hestamannafélagsins Trausta var haldin á nýja vellinum við Stóragil eystra. Veðrið var eins og best verður á kosið og mótsstaðurinn sjálfur er engum öðrum líkur hér á landi, hvar hann kúrir undir háum brúnum Laugardalsfjalla, umvafinn birkiskógi og víðikjarri á alla vegu. Margt er enn ógert á mótssvæðinu hjá okkur Traustamönnum: Að lengja skeiðbrautina, stækka bílastæðin, ryðja merkur, bæta upphitunaraðstöðu og setja upp gerði og rétt. Allt hefur þetta sinn tíma þegar fjárráð eru takmörkuð, en vonir standa til að margt af þessu verði komið í kring strax á næsta ári.
Dagurinn varð líka stór hjá okkur Þóroddsstaðafólki – sigur í öllum greinum, má segja. Goði vann A-flokkinn (8,32) og var valinn hestur mótsins, Elding vann B-flokkinn (8,23). Knapi á báðum þessum sigurvegurum var Bjarni Bjarnason, sem var svo valinn knapi mótsins. Camilla Petra vann opnu töltkeppnina á Dreyra sínum frá Hjaltastöðum (7,50 í forkeppni).
Þá varð Guðmundur Birkir í öðru sæti í töltkeppninni á Þóroddsdótturinni Rjóð frá Saltvík, sem hreppti líka 2. sætið í A-flokki – enda tilvonandi 1. verðlauna meri, eins og raun er á um sex ættliði formæðra hennar: Una, Snurða, Dáð, Sjöfn, Slaufa, Fjöður.
Gaman er að geta þess að 12 af 15 hrossum sem unnu sér þátttökurétt í úrslitum eru meira og minna ættuð frá Þóroddsstöðum eða Laugarvatni, flest raunar útaf Hlökk – og Goði sigurvegari A-flokks, hestur mótsins og fallegasti hestur á Íslandi (9,02 í kynbótadómi) er einmitt sonur hennar, eins og alþjóð veit.