Sótti á miðvikudag, síðasta vetrardag, aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands á Heimalandi undir Eyjafjöllum, einn fimm fulltrúa Hrossaræktarsamtaka Suðurlands. Fleiri hestamenn voru svo þarna staddir sem fulltrúar sinna búnaðarfélaga, og slógust í hópinn þegar fundað var í nefndum.

Í Hrossaræktarnefndinni sátu þannig amk. 11 – 12 manns, þegar til kom. Rætt var um kostnað við kynbótasýningar og spurt hvort fyrir lægi hvað yfirlitssýningar kostuðu og hversu hátt hlutfall af heildarkostnaði við kynbótasýningar yrði til þeirra vegna. Þar sem þessar tölur liggja ekki fyrir, var ákveðið í nefndinni að fara fram á það við framkvæmdastjórann að upplýsingar um þetta yrðu teknar saman og kynntar.
Í nefndinni komu fram ákveðnar efasemdir um gildi yfirlitssýninga, og að mati undirritaðs áttu furðu margir nefndarmenn þessar efasemdir sameiginlega, raunar allir sem tjáðu sig um málið.
Þessi sameiginlegi skilningur birtist í nokkrum atriðum:
1. Yfirlitssýningar eru því marki brenndar að hægt er að nota þær til „einkunnasöfnunar“, þegar saman er lagður árangur upphaflega dómsins og yfirlitsins. Slíkt fyrirkomulag býður þeirri hættu heim að lakari hrossum sé gert jafn hátt undir höfði og þeim betri. Það dregur úr möguleikum dómkerfisins til að meta að verðleikum og hefja á stall eðlisbestu hrossin, þau sem geta sýnt alla kosti í einni og sömu sýningunni. Yfirlitssýningar auðvelda lakari hrossum að standa jafnfætis þeim bestu!
2. Að þurrka út heila yfirlitssýningu dregur stórlega úr álagi á sýningahrossin. Þetta atriði vegur geysilega þungt, þegar öll spjót standa á okkur vegna álags, ágripa og annarra áverka. Raunar er ekki stætt á öðru en að taka róttækt á því vandamáli, og hér er komin leið til þess.
3. Kostnaðarhliðin er hér talin í þriðja lagi, og þannig hygg ég að flestir nefndarmenn vildu raða málefnunum eftir mikilvægi þeirra. Í viðbót við áðurnefndan beinan kostnað – sem ekki liggur enn fyrir – myndu sparast ófáar vinnustundir, ferðalög og flutningar, sem til stofnast vegna yfirlitssýninganna. Í heild myndu hér sparast miklir fjármunir í búgreininni.

Fleiri atriði voru nefnd, sem hnigu í sömu átt. Allt er þetta ívitnað eftir minni, og sjálfsagt er nú tekið að fenna yfir sumt af því sem bar á góma. Vona þó að menn taki viljann fyrir verkið og ígrundi þetta mál í mikilli alvöru.
BÞ.

%d bloggers like this: