Sá í gærkvöldi á Hestafréttum forvitnilegt viðtal við Bjarna Jónasson, tamningamann í Skagafirði. Bjarni er með báða fætur á jörðu, enda sveitamaður að vestan, sjálfsagt alinn upp við alla brúkun á hrossum – en jafnframt nú orðið með starfsemi og hrossasölu í Sviss, meðfram sínu bústangi heima á Narfastöðum.
Það er skemmst frá því að segja að viðtalið við Bjarna er allrar athygli vert, ekki síst fyrir þá sem stunda hrossarækt, en ef til vill einnig þá sem leggja mat á þá starfsemi, skilja sauðina frá höfrunum. Ég ætla ekki hér að rekja viðtalið við Bjarna, aðeins að hugleiða út frá því – og taka um leið undir margt af því sem þar kemur fram.
Það virðist vera eilífðarspurning og álitamál hvernig meta skuli vilja, geðslag og ganglag kynbótahrossa. Hinn mjúki, þjáli vilji, þægð og hlýðni, hreingengi og ganglagni í besta skilningi þess orðs, vilji kornungra tryppa til að leggja sig fram á öllum gangi – eru þessir eiginleikar metnir að verðleikum af ræktunarmönnum og kynbótadómurum? Eða brekkunni, sem sumir segja að öllu ráði? Að minnsta kosti heyrast þær raddir að á landsmótin sé stefnt fullt af hrossum sem eigi þangað ekkert erindi, þau fangi ekki athygli mótsgesta, þau vanti fas og útgeislun (tískuorð um lítt skilgreindan eiginleika og ef til vill lægra arfgengi en margan grunar).
Ef spurningunni sem hér er varpað fram, er svarað neitandi, skulum við sumsé fara varlega í að skella skuldinni eingöngu á kynbótadómarana, þótt sjálfsagt sé að gera kröfu til þeirra um stefnufestu og trúnað við ræktunarmarkmiðin. Öll berum við hér nokkra ábyrgð, og vissulega er það eitt af helstu vandamálum okkar hestamanna hversu ósamstíga við erum og hve ólíkan skilning við höfum á ræktunarmálum – og gildir það um hvorttveggja, markmið og leiðir. Hér verða þó búfjárræktarsjónarmið að ráða ferðinni, reynsla kynslóðanna, ný og gömul vísindi.
Ég er hjartanlega sammála nafna mínum um að hinn trausti og góði reiðhestur sem nánast allir geti riðið sé það grundvallareliment sem öll hrossarækt eigi að byggja á. Með þennan hest er svo hægt að gera nánast hvað sem er, nota til hvers konar íþrótta- og gæðingakeppni, kappreiða, útreiða, ferða- og smalamennsku – allt eftir óskum, getu og færni knapans sem um tauminn heldur og þeim viðbótareiginleikum sem hrossin eru gædd. Það er kominn tími til að endurskoða þá neikvæðu afstöðu sem er lítt dulin í þessum algengu ummælum: „Þetta er bara reiðhestur“.