Það er ekki á hverjum degi sem boðað er til sérstaks fundar um málefni hestamennskunnar, utan hins hefðbundna ramma sem við eigum að venjast. Hér syðra standa Hrossaræktarsamtökin fyrir nokkrum fundum árlega sem eru opnir öllum félagsmönnum, og raunar öllum áhugamönnum að ég hygg: Þetta eru haustfundur, aðalfundur og hringferðarfundur hrossaræktarráðunautar og formanns Félags hrossabænda. Á landsvísu er amk. um að ræða hrossaræktarráðstefnuna, auk aðalfundar Félags hrossabænda. Á alla þessa fundi mæta jafnan amk. fyrrnefndir Fagráðsmenn, ráðunauturinn og formaðurinn – og oftast fleiri úr þeim ranni.
Á þessum fundum er tækifæri fyrir hinn almenna félagsmann að koma á framfæri hverju sem vera skal. Að sama skapi eru þeir kjörinn vettvangur fyrir forsvarsmenn Fagráðs að kynna til sögu og fá viðbrögð við hugmyndum um breytingar, sem Fagráð hyggst leggja til. Dæmi eru um það að mál af þessu tagi hafa fengið mjög rækilega og vel undirbúna umfjöllun á vettvangi Hrossaræktarsamtaka Suðurlands, umfjöllun sem fyrir bragðið hefur haft afgerandi áhrif á niðurstöðu Fagráðs.
Þegar þetta hringvallarmál, sem nú er efst á baugi, var kynnt á umræddum fundum í haust, fékk það yfirleitt allgóðar viðtökur, raunar mun betri en ég hafði þorað að vona, í ljósi þess sem fara gerir um róttækar tillögur í þessum litla heimi okkar hestamanna, þar sem vanahugsun og kreddufesta ráða allt of oft ferðinni. Það hef ég sjálfur margoft fengið staðfest, þegar ég hef reynt að opna á mér kjaftinn um málefni hestamanna.
Eins og fram kom í ræðu minni á hrossaræktarráðstefnunni í haust, bjóst ég raunar við að þetta mál yrði til umræðu einnig í hringferð þeirra Guðlaugs og Kristins, en af því að svo hagar nú til að aðeins eitt ár er nú á milli landsmóta, var það mat Fagráðs að ekki væri seinna vænna að taka þessa ákvörðun en á desemberfundinum. Vissulega hefði verið ákjósanlegt að hafa rýmri tíma til stefnu, en það var mat Fagráðs að breytinga væri þörf og að þær væru aðkallandi. Nánari útfærsla mætti hugsa sér að færi fram nú í vetur í samráði og samvinnu við þá sem málið varðar.
Hvert er annars hlutverk Fagráðs? Til hvers ætlast menn til af Fagráðsmönnum? Á Fagráð bara að standa vörð um status quo, óbreytt ástand? Ég segi fyrir mig að ekki tók ég að mér að sitja í Fagráði til þess einvörðungu, og gott er að vera hættur störfum þar, ef menn hallast að því framtíðarskipulagi.
Til hvaða félagslegu úrræða á að grípa, ef þessi duga ekki sem boðið er uppá? Af hverju búa menn um sig í skotgröfum, í stað þess að nýta þau tækifæri sem bjóðast til að hafa áhrif á málsmeðferðina? Hvar var þessi einbeitta mótstaða meðan málið var enn á hugmynda- og tillögustigi, til umfjöllunar og kynningar á fundum haustsins?
Ég tek auðvitað fulla meðábyrgð á ákvörðun Fagráðs um hringvallarreið á komandi Landsmóti, það var lýðræðisleg niðurstaða eftir umræður og skoðanaskipti í Fagráði, tekin með hliðsjón af ýmsu sem til hafði verið lagt. Þar vó sjálfsagt þyngst ágæt tillaga frá hrossaræktarráðunauti sjálfum, þar sem lagt var til að sleppa alveg yfirlitssýningunni, en gefa kynningu á hringvelli þeim mun meira vægi.
Það er annars verðugt að velta fyrir sér ýmsu um upphaf yfirlitssýninga. Ekki kann ég þá sögu til hlítar í sjálfu sér, en finnst nú svona hálft í hvoru að upphafið megi rekja til þess sem kallað var opinn dómur, þ.e. að heimilt var dómnefnd að hækka einkunnir jafnvel allt fram í kynningu og verðlaunaafhendingu. Þetta var eins konar aukageta meðfram annarri hefðbundinni framvindu, minnir mig helst, hefðbundinni framvindu þar sem megináherslan var á sýningagildið.
Síðar komst þetta á fastara form, og ég er sannfærður um að í fyrstu hefur það verið hugsunin að þetta væri, jafnvel fyrst og fremst, mjög áhorfsvæn kynning á hrossunum – og ráðunauturinn ekki endilega upptekinn af dómstörfunum, heldur hefði nauðsynlegt næði til þess að ræða jafnt almenna og einstaka hluti, sem hrossarækt varða – og fara jafnvel út um víðan völl .
Smám saman færðust yfirlitssýningarnar í það horf sem við þekkjum núna, og alltaf færast þær fjær uppruna sínum, fjær því að vera áhorfendavænar, fjær því að vera ógleymanleg skemmtun og yndisstund, m.a. af því að hrossunum er ekki endilega riðið á því sem þau gera best. Um það held ég að allir geti verið sammála. Þessi þróun hlýtur að vekja upp spurningar um það hvort við séum á réttri leið, og hvort upphaflegi megintilgangur slíkra sýninga sé ekki löngu gleymdur og fyrir borð borinn. Á þessu vil ég hnykkja og leggja á megináherslu.
Eins og einhverjir kunna að muna lagði ég í púkkið og kynnti á hrossaræktarráðstefnunni í haust hugmynd um sérstakan Landsmótsdóm. Það yrði nýtt og fullgilt dómstig, þar sem riðin yrði hefðbundin kynbótasýning. Forskoðunardómurinn yrði lagður til grundvallar, með heimild til þess að hækka og lækka einkunnir. Með þessum hætti má segja að dómurinn yrði jafnframt eins konar yfirlitssýning eða blanda af hvorutveggju. Hefðbundinni yfirlitssýningu yrði svo sleppt, og munar um minna þegar öll spjót standa á okkur vegna álags og áverka. Kynning færi svo fram á hringvelli, eins og tillaga Guðlaugs gerði ráð fyrir. Vönduð kynning og útlistun hafa of lengi legið í láginni, og fleiri tækifæri sem gæfust fyrir ráðunautinn til að tala beint við fólkið yrðu vel þegin. Þennan vettvang hefur vantað, þar sem höfðað yrði til hins breiða fjölda sem búið er að ofbjóða með því að að sitja dægrin löng yfir dómum og yfirlitssýningum, en gripi fegins hendi tækifæri af þeim toga sem hér var lýst.
Með þessu móti fengist þaulprófuð niðurstaða, heilsteyptar og áhorfendavænar sýningar, en sniðnir af helstu vankantar hefðbundinna yfirlitssýninga, hvort sem um er að ræða þaulreið á lakari gangtegundum eða umdeilda aðferð við einkunnasöfnun – það er að afgreiða sumt í dómnum sjálfum og geyma annað þangað til í yfirlitinu. Einmitt þannig hafa stundum náðst háir dómar, án þess að allir kostir séu sýndir í einni heilsteyptri sýningu.
Það má vel vera að að með þessari ákvörðun um yfirlitssýningu á hringvelli sé farið út fyrir ákveðinn þægindaramma að þessu leyti. Ég veit líka að það verður að sætta sig við ákveðnar takmarkanir af þessu fyrirkomulagi, miðað við þann að sumu leyti sjálftekna rétt sem margir knapar hafa tekið sér til þess að haga yfirlitssýningunni algjörlega eftir eigin höfði, með þaulnýtingu ferðafjölda í hverri einustu sýningu, hóflausri tímaeyðslu og þeirri óhæfu að fara ítrekað út fyrir hinn markaða ramma. Slíkt fyrirkomulag tel ég að sé ekki lengur í boði.
Það getur verið að erfitt verði að sýna fet, nema knapar geti komið sér saman um ákveðna tillitssemi hver við annan. Og það er viðbúið að knapar sem ætla sér að bæta þrjár til fimm gangtegundir muni lenda í vandræðum. Ótvírætt er að í þessari breytingu er fólgin mikil tillitssemi gagnvart áhorfendum, og vonandi líka tímasparnaður. Það er mitt mat að við höfum ekki hugað nægilega að einmitt þessum þáttum um hríð, og að þeir séu dýrmætari fyrir kynbótastarfið í víðasta skilningi en ætla mætti, dýrmætari en torsóttur slagur um kommur – sem hrossin eru svo kannski ekkert betur sett með, þegar upp er staðið, jafnvel þótt einkunnaröð þeirra sé skreytt með 9,5 og 10.
Það er tilgangur kynbótasýninga að sjá út raunbestu hrossin, þau sem helst ættu að auka kyn sitt og verða foreldrar næstu kynslóðar. Þetta ætti að vera óumdeilt, en það er eðlilegt að menn greini á um það hvaða leiðir á að fara að þessu marki. Mér finnst sjálfsagt að þróa þær aðferðir, og alls óvíst tel ég að þetta fyrirkomulag yfirlitssýninga sem nú er boðað, sé endilega framtíðarlausn. Miklu frekar sé ég það sem skref í áttina, tilraun til þess að nálgast hið allra besta fyrirkomulag – og eins og fram hefur komið hef ég mínar hugmyndir um það.
Hins vegar hef ég fulla trú á því að eðlisbestu hrossin njóti góðs af þessu, og að auðveldara verði viðfangs að flokka úr og verðlauna fimu og mjúku hrossin, sem ofan í kaupið eru fær um að sýna allar gangtegundir í sömu sýningunni. Og er þá ekki tilganginum náð? Fyrir hverju ætti Fagráð í hrossarækt fremur að beita sér?

Bjarni Þorkelsson.

%d bloggers like this: