Tekið á gjöf

Sóttum í gær 16 tryppi að Hömrum, þeim þarf að fara að hygla. Í dag var svo farið í Mosfell og tínt á kerruna ýmislegt sem nokkuð er ætlað með í vetur, og við viljum alls ekki að gefi sig í þessum harðindum.

Þóroddsdæturnar Hrefna (undan Kolbrúnu), Vissa (undan Bliku) og Sparta (undan Spátu) voru teknar á hús, Klukkudæturnar Tinna (undan Glampa)og Dís (undan Þyrni). Sömuleiðis Lindi, fimm vetra foli undan Dögg og Axel frá Lindarbæ. Þá komu heim Hlekkur og Kóngur, þeir voru farnir að gefa sig og verða nú heyjaðir úti. Hesthúsið er nú nánast fullt, en sumu af því verður nú sleppt um áramótin til að rýmka til. Þá verður búið að temja nægilega í bili ungu tryppin okkar, sem sum hafa nú ekki einu sinni verið járnuð – svo og nokkur sem verður skilað úr tamningu. Hver eru svo þessi ungu tryppi okkar? Jú það eru 4ra vetra folar: Glaður og Stirnir, báðir undan Blæ frá Torfunesi, mæðurnar eru Gleði og Sif. Þetta eru þægir og töltgengir efnisfolar, Glampi Vatnsleysu-Glampason og Össu sömuleiðis. Glanni undan Þokka frá Kýrholti og Hörn, aðeins ófyrirsjáanlegri í fyrstunni, en reynist svo svipaðrar gerðar þegar til kemur. Glúmur undan Ófeigi frá Þorláksstöðum og skeiðdrottningunni Veru, jafnlyndur og þúfugæfur glæsifoli. Og rúsinan í þessum pylsuenda: Hnokki undan Dömu sjálfri og Aroni frá Strandarhöfði, tilvonandi stórmeistari á öllum gangi. Tvær hryssur eru ónefndar enn, þær eru aðeins þriggja vetra, eins og raunar tvær áður áminnstar, Hrefna og Vissa. Þessar heita Ör og Stilla, og eru undan Hvini frá Vorsabæ og Sif og Stála frá Kjarri og Áru. Efnilegar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Proudly powered by WordPress | Theme: Baskerville 2 by Anders Noren.

Up ↑

%d bloggers like this: