Það er orðið æði langt síðan eitthvað var að frétta héðan, að því er virðist. Og það er best að byrja þá á stórfrétt, þótt ýmsum kunni að virðast að komi tamningum og hestamennsku lítt við. Það er sumsé verið að leggja hitaveitu heim að Þóroddsstöðum, og sér þannig fyrir endann á meira en tuttugu ára baráttu. Ég veit ekki hvort nokkur utanaðkomandi getur gert sér grein fyrir þýðingu þessa framtaks fyrir búsetuna hér á bæ – og þar með raunar framtíð áður áminnstrar starfsemi sem hér hefur verið rekin undanfarna áratugi. Gunnlaugur dýralæknir sagði við mig í gær, að hann teldi engum vorkunn að búa, ef byggi við hitaveitu – hitt væri auðvitað ekki vinnandi vegur. Að þessu sögðu taldi ég okkur nokkuð góð, að hafa þó baslast þetta hingað til, skjögrandi undir drápsklyfjum rafmagnsins.
En þá að allt öðru: Bjarni er nú búinn að frumtemja ein 16 eða 17 tryppi í haust, síðan um réttir. Af heimatryppum sleppti hann svo Hrefnu og Vissu Þóroddsdætrum, hyggst taka þær aftur eftir áramótin og kíkja betur í þær, þær virðast mjög efnilegar. Hin tryppin ætlar hann að temja nokkuð meir núna í haust, ég reikna svo með því að þau verði ekki inni í vetur. Það hefur gengið ævintýralega vel með þennan hóp, allt lambþægt, gangurinn laus og hreinn. Auk heimatryppa eru í þessu amk. fimm aðkomutryppi, sem líta vel út einnig. Graðhesturinn frá Efstadal er nú kominn á járn og lofar heldur góðu, sýnist mér. Hann er undan Númadótturinni Náð og Kráki frá Blesastöðum. Þá er hér fjallmyndarlegur Þyrnissonur frá Miðdalskoti, sem býður af sér mjög góðan þokka og verður ábyggilega mjög góður, ef hann fær verðuga brúkun.