Sörli 653 frá Sauðárkróki

Óvægin leiðbeining?
Það er rétt sem oftlega er á lofti haldið: Í tíð allra ráðunauta hafa staðið deilur um hrossadóma. Hvort hægt er að afgreiða alla umræðu og ádeilu með þessari viðbáru, er svo önnur saga og verður ekki gerð skil hér. Mig minnir að Sigurður Jónsson frá Brún segi á einum stað í bók sinni Einn á ferð og oftast ríðandi að lengst af Íslandssögunnar hafi gegnt störfum landsráðunauta í búfjárrækt plágur, harðindi og fellisvetur sem fáu þyrmdu, og sá örlagatími á vorin sem kallaður hefur verið milli heys og grasa. Í því ljósi má segja að seinni tíma ráðunautar hafi farið mjúkum höndum um búpening landsmanna – eða hvað?

Sá hrossræktandi sem lengst af gustaði um gagnvart leiðbeiningaþjónustunni og gjarna reisti rönd við lítt hagfelldu áliti ráðunauta, var sá sem mestrar velgengni naut þegar öllu var á botninn hvolft. Þetta sést vel ef skoðuð er hálfrar aldar saga – allt frá 1950 að hófst skipulegt mótahald á vegum LH og Búnaðarfélags Íslands, seinna Bændasamtakanna. Þótt lítt verði við þá sögu dvalið að þessu sinni, væri ómaksins vert að rifja upp tildrög þess að búlausir áhugamenn snerust til sóknar fyrir þarfasta þjóninn, sem virtist ætla að daga uppi sem nátttröll þegar vélmenning hófst hér fyrir alvöru um miðja 20. öld. Hestar skreyttu öll framtíðarlönd þessara manna. Hestlaus tilvera – hvaða líf var það? Í samvinnu við ráðunaut Búnaðarfélagsins hrundu þeir úr vör því fari sem nú siglir beggja skauta byr. Í kjölsoginu liggja rætur nútíma hestamennsku á Íslandi – með öllu sem fylgir og fylgja ber: Tómstundagamni, íþrótt, ferðaþjónustu og ferðamennsku, búskap og ótal afleiddum störfum.

Hver er þá sá maður sem ég var að beina athyglinni að, en er ekki enn farinn að nefna nafn hans – og er, þegar allt er skoðað, einn þeirra manna sem fyrr var áminnst og lögðu mest af mörkum í baráttunni fyrir endurnýjuðu hlutverki íslenska hestsins? Jú, þið farið nærri um það lesendur góðir. Hér er kominn Sveinn Guðmundsson á Sauðárkróki, sá maður sem ber ægishjálm yfir alla hrossaræktendur á fyrrgreindu tímaskeiði. Ræturnar að hrossarækt Sveins veit ég að eru öllum áhugamönnum kunnar, og voru meðal annars raktar í grein minni “Sauðárkrókshrossin – átök ræktanda og ráðunautar” í stóðhestablaði Eiðfaxa 2009, lausblaðaútgáfu. Þar er hægt að lesa um Síðu og Ragnars-Brúnku, formæðurnar að öllu ræktunarstarfi Sveins, móður og ömmu þess hests sem ritstjóri Eiðfaxa hefur nú falið mér að beina sjónum að: Sörla 653 frá Sauðárkróki. En það er líka forvitnilegt að lýsa lengra aftur í tímann.

……..hátt settur og klipinn í kverk
Ég ætla ekki að þreyta lesendur á því að endurtaka margt af því sem ritað er í fyrrnefndri grein um Sauðárkrókshrossin, en vitna þó í þessa umsögn Þorkels Bjarnasonar um Síðu frá Sauðárkróki, móður Sörla:

”Ég get hins vegar ekki stillt mig um það núna að segja ofurlítið frá því þegar ég sá Síðu í fyrsta sinn, þá nemandi Gunnars Bjarnasonar á Hvanneyri og í slagtogi við hann á hrossasýningum eins og fyrri daginn. Við komum í Mælifellsrétt að dæma hross. Enn eimdi eftir af aðferðum Theódórs að dæma hryssurnar bara undir sjálfum sér, þeim var ekkert riðið þarna. Þarna var Sveinn ungur maður með Síðu og hálsbyggingin var engu lík, langur, fínn og grannur háls, hátt settur og klipinn í kverk. Þetta var algjört met, og þótt Ragnars-Brúnka móðir hennar og Hrafnkatla dóttir hennar minntu mjög á hana að þessu leyti, þá hafði Síða vinninginn, ég fer ekki ofan af því. Höfuðið var mjög þokkalegt, og svo var hún afar prúð með þessu, ennistoppur, fax og tagl. Þessu hélt hún svo alla tíð, þótt gömul væri orðin. En ég sá strax að hún var ekki nærri eins falleg að aftan, lendin illa fyllt áslend og fæturnir með þessu sérkennilega kýrfætta lagi. Það varð svo ýktara með árunum, ég man hvernig það var þegar ég sá hana í síðasta sinn, með folaldi heima hjá Sveini. Þá voru hæklarnir alveg komnir saman, og það var ósköp að sjá það – en hálsinn var samur og fyrr.”

”Síða 2794 frá Sauðárkróki var efst afkvæmahryssanna á LM 1974 á Vindheimamelum. Hér fylgdu henni nokkuð sömu hrossin og gert höfðu á FM 1972. Núna fannst mér ekki ástæða til þess að spara stóru orðin og umsögnin um afkvæmin var svona:
Afkvæmi Síðu 2794 hafa hlotið mjög góða dóma sem kynbótahross. Hafa fimm þeirra náð fyrstu verðlaunum og er það einsdæmi og talar sínu máli um það hvílík úrvals kynbótahryssa Síða er. Kostirnir eru fríðleiki , fjör, ganghæfni og lundgæði, en byggingu er stundum áfátt, þótt þar vegi margháttuð fegurð lýtin upp. Síða má óefað teljast besta kynbótahryssa, sem undir dóm hefur komið á síðari árum. Hlýtur 1. heiðursverðlaun.
Á þessu vildi ég hnykkja, þótt enn væru ekki orðnar til þær reglur sem síðar giltu um heiðursverðlaun afkvæmahrossa – enda hafið yfir allan vafa að Síða skipar sér þar á bekk með fremstu kynbótahryssum allra tíma – er nokkur goðgá að segja að hún sé þeirra allra fremst, að minnsta kosti þeirra hryssna sem við höfum aðstöðu til að meta í sögulegu ljósi? Yfirleitt öll Sveinshross eru komin út af henni og þar með gríðarstórt hlutfall allra ræktunarhrossa í landinu, slík hefur útbreiðslan orðið.”

Af átta dæmdum afkvæmum Síðu hlutu fimm 1. verðlaun. Meðaleinkunn þessara fimm er 8,29, og aðeins örfáar hryssur hafa náð svo góðum árangri til þessa dags. Hæst dæmdu afkvæmi Síðu eru Hrafnkatla (8,54), Hrafntinna (8,37), Hrafnhetta (8,31), Sörli (8,24) og Hervör (8,01). Þrjú afkvæmanna hafa hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Afkomendafjöldinn er orðinn slíkur, að engu er við að jafna, svo mjög að einungis lítill hundraðshluti virkra ræktunarhrossa á Íslandi á EKKI ættir til Síðu að rekja. Slíkar tölulegar staðreyndir hefur tekið saman Ágúst Sigurðsson, kynbótafræðingur, og kynnt á ráðstefnu um Sauðárkrókshrossin á útmánuðum 2009.

Skagfirðingur skír og hreinn?
Þeir Húnvetningar eru til sem þreytast ekki að minna á að helsta stolt Skagfirðinga, Sörli frá Sauðárkróki og Álftagerðisbræður, séu ættaðir og upprunnir úr Húnaþingi. Það er erfitt að sverja fyrir þetta, það vita þeir sem til þekkja. En hvað er það sem fær Svein á Sauðárkróki, sannfærðan um yfirburði skagfirskra hrossa, til þess að halda sínum öndvegismerum undir Feng 457 frá Eiríksstöðum í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu? Þegar skyggnst er um í föðurætt Sörla, má sjá að nokkuð er um þekkt og ættbókarfærð hross. Við það má bæta að orðspor húnvetnskra hrossa á borð við Eldjárnsstaða-Blesa – sem að auki er sagður úr frændgarði forfeðra Fengs – hefur áreiðanlega lifað góðu lífi í Skagafirði á fyrri helmingi 20. aldar, þegar Sveinn (f. 1922) var að alast upp. Reynsla Sveins af afkvæmum Fengs og það sem hann sá til þeirra, hefur hugnast honum vel, einkum hið hreina og ásetugóða tölt, sem var einkenni þeirra. Og snemma hefur trúlega verið farið að mótast með Sveini skýr mynd af hans draumahrossi, fjörviljugu, sporglöðu og skeiðfráu mýktardýri. Í formála að bók Árna Gunnarssonar, Glymja járn við jörðu (útg. 1998), ritar Sveinn eigin hendi:
”Í dag sýnist mér athyglin beinast mest að orkumiklum tölturum með óhemjulegan fótaburð, sem minnir á útlend tölthestakyn þar sem keppnishestar eru þjálfaðir með hvers kyns hjálpartækjum og tólum. Að mér hefur um skeið læðst óljós grunur um að þessi tískusveifla sé að leita sér fótfestu inni í ræktunarstefnu íslenska reiðhestsins. Eigi þessi grunur við rök að styðjast, og sé hinn fjörglaði og hreyfingamjúki gæðingur á undanhaldi fyrir þessari nýju ímynd, þykir mér uggvænlega horfa, og til þess vil ég ekki hugsa.”

Þessi orð eru allrar athygli verð, og sýna vel þá ræktunarlegu samleið sem Sveinn – þegar öllu var á botninn hvolft – átti með þeim sem þá mótuðu stefnuna og veittu forystuna. Eins og fram mun koma í þessum skrifum, hefur þó verið mikið gert úr ágreiningi og jafnvel illdeilum, og víst er sú saga þyrnum stráð.

Horfnir góðhestar
Hárekur 105 frá Geitaskarði í Langadal stendur ábúðarfullur á bakvið í föðurætt Sörla, grár fyrir járnum. Hann var fæddur 1921, alhúnvetnskur og minnir á forna frægð Geitaskarðshrossa – sem nú er markvisst stefnt að því að endurheimta. Geitaskarðshross áttu raunar – rétt eins og Vallaneshrossin – ættir að rekja að bæjunum Heiði og Veðramóti, sem eru samtýnis í þeirri harðbýlu sveit Gönguskörðum í Skagafirði. Í Ættbók og sögu I segir svo frá Háreki: ”…….viljugur og góðlyndur klárhestur með tölti. Afkvæmi hans voru stórvaxin, samstæð og svipfríð, vel sköpuð og jafnvaxin, ágæt brúkunarhross, þó ekki taugasterk (fælin). Hann gaf einnig nokkra gæðinga…………”

Þokki 134 frá Brún, ”Mjög kynsæll kynbótahestur” (Ættbók og saga I). Um Þokka segir ræktandinn, Sigurður Jónsson frá Brún: ”……….Fáum mun haldast það uppi að lifa að öllu leyti eftir lyst sinni og þótt mér þætti Þokki góður og vildi gjarnan sitja að honum sjálfur, tókst mér ekki að eiga og varðveita samkvæmt lögum óvanaðan hest svo mörgum árum skipti. Þótti mér þá réttara að selja hann til undaneldis, en vana hann og hafa hann síðan sjálfur að leikfangi, vissi mig auk heldur ekki verðskulda neitt leikfang. Seldi ég hann því suður í Mýrdal fimm vetra gamlan haustið 1932. Saga hans þar er mér lítt kunn að öðru en því, sem öllum var birt, um verðlaun hans fyrir afkvæmi og eigin útlit. En ekki tóku Mýrdælingar mér svo í þau skipti, sem ég þangað kom, sem þeir ættu á mér sviksölu að hefna.”(Stafnsættirnar, bls. 76-7)

Ægir 178 frá Brandsstöðum var ”viljagóður og fjölhæfur reiðhestur. Hann gaf fríð og vel sköpuð hross með góða reiðhestshæfileika.” (Ættbók og saga I)

Þorkell Bjarnason segir svo frá í starfssögu sinni:
”Fengur 457 frá Eiríksstöðum var alveg sómaklár, bara nokkuð fallegur. Þetta var brúkunarhestur, Guðmundur sagði mér það að hann væri heima við allt árið, alltaf á járnum. Hann fór á honum í smalamennskur og fjallferðir, hann var brúkaður í allt og var enginn sparihestur. Hann var þægur og fyrirhafnarlítill, hver sem er gat riðið honum. Þannig kom hann okkur fyrir sjónir þegar hann kom á mótin. Það var gott að ríða honum, hann var þjáll og þægur, mátulega viljugur. Á þessum árum voru til mjög góðir geltir hestar undan honum, sem þeir áttu Guðmundur á Eiríksstöðum og Björn á Gili. Þeir voru eins og klárinn, alveg drifahvítir, og vöktu athygli fyrir það. Þetta voru ágætir hestar og sumir alveg grimmgóðir, fallegir jafnvel eins og hann Vinur frá Eiríksstöðum, sem bar nú alveg af þeim. Þessir klárar settu Feng á háan stall, þetta voru hestar sem völdust til að fara á landsmót fyrir sín félög, voru þar áberandi og komust í úrslit Að minnsta kosti var það svo með Vin, sem varð í fimmta sæti alhliða gæðinga á LM 1962. Þetta tryggði Fengi náttúrulega góða stöðu, og hefur sjálfsagt vakið athygli Sveins á Sauðárkróki, enda var hann nú með Vin fyrir Guðmund í gæðingakeppninni. Sveinn sagði einhvern tíma við mig að hann hefði verið svo ánægður með töltið og fótaburðinn í þessum hrossum, enda voru þau afar hreingeng, það var einkenni á þeim. Sveinn fór með sínar merar undir Feng, fyrst Ragnarsbrúnku og síðan Síðu, en seinna Fjöður og fleiri hryssur. Það er nú fyrst og fremst þetta sem tryggir stöðu Fengs í hrossaræktinni í dag, að Sveinn skyldi nota hann og fá Sörla 653 undan Síðu, og Flugu undan Ragnarsbrúnku. Sveinn var náttúrulega skrefi á undan flestum öðrum strax á þessum árum og það var auðvitað bara happ og aukagæfa fyrir Feng að Sveinn skyldi leiða merarnar sínar undir hann. Það var svo sem ekkert sjálfgefið með svona eitilharðan Skagfirðing og í sjálfu sér Svaðastaðamann á þessum árum. En það hefur komið fram hjá Sveini að hann var í rauninni mjög gagnrýninn á þá stóhesta sem í boði voru af Svaðastaðakyni og taldi sig ábyggilega þurfa að leita út fyrir til þess að ná árangri.
………………………. en ég tel víst að þessir góðu Sauðárkrókshófar sem nú eru umtalaðir séu alls ekki frá Fengi komnir. Fengur á hins vegar dálítið í þessum Sauðárkrókshaus, sem oft er talað um nú um stundir. Hann gaf dálítið af grófum hausum, og Sörli hafði einn slíkan. Það var þó ekki versta gerðin af Sauðárkrókshaus, hann kom nú til í næsta lið, með Blossa syni Sörla. Ég kem kannski betur að því seinna.
Fótagerð þessara hrossa, Fengs og afkvæma hans var svona í meðallagi að minnsta kosti, ekki ljótir um kjúkurnar eða snollaðir. Hann entist sjálfur ákaflega vel eins og fram hefur komið.”

Áður en lengra er haldið er gott að minna á það að undan Fengsbörnunum Flugu og Sörla frá Sauðárkróki er hinn harðskyldleikaræktaði Gustur frá Sauðárkróki, Höfða-Gustur. Undan honum er Krafla og frá henni er orðinn mikill ættbogi. Sömu sögu er að segja af sonardóttur Gusts, Sunnu frá Akranesi. Þessar frænkur eru óumdeildar gæðingamæður. Alsystir Gusts var svo Hrefna frá Sauðárkróki, móðir Gnóttar. Undan Gnótt er Galsi frá Sauðárkróki. Og auðvitað eru þessi hross öll út af Sörla jafnframt. Það gildir raunar um alla stóðhesta sem fæddir eru Sveini. Samkvæmt athugun Ágústs Sigurðssonar eru þeir allir út af Sörla (Glymja járn við jörðu, bls. 225). Hvorki fleiri né færri en fimm Sveinshestar hafa hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi – og hversu margir í viðbót skyldu eiga ættir til Sörla að rekja? Í starfssögu Þorkels segir svo:
„Galsi er fimmti heiðursverðlaunahesturinn úr búi Sveins Guðmundssonar og þeirra feðga og á margan hátt dæmigerður, en alls eru heiðursverðlaunahestar nú orðnir tuttugu og tveir (2004), eins og áður segir. Fjórir til viðbótar eru undan Sauðárkrókshestum, og enn eiga fjórir ættir að rekja til Sveinshrossa. Samtals eru þetta 13 hestar af 22 sem hlotið hafa æðstu viðurkenningu. Þessi samanburður segir meira en mörg orð um þá þýðingu sem starf Sveins hefur haft og mun hafa um ófyrirséða framtíð. Óbilandi elja og kjarkur, hrein og ómenguð lund og blossandi skapfuni hafa knúið þá eilífðarvél. Eins og títt er um gott eldsneyti er þessi blanda óhæf til drykkjar. Það kom sér vel að ég var ekkert fyrir það að geifla á göróttum drykkjum…………..“ (Úr starfssögu Þ.Bj.)

Undan Fengi var til önnur Fluga (3349) og var frá Eiríksstöðum. Hún var móðir Fannars, eins sigursælasta skeiðhests allra tíma og fyrrum Íslandsmethafa. Fannar var ekki ólíkur Náttfara frá Ytra-Dalsgerði í skeiðlagi og afköstum, sporalaginn og flugvakur.

Sokki 332 frá Ytra – Vallholti var undan litföróttum hesti í Ytra – Vallholti, viðurkenndum skörungstöltara sem seldur var til Ólafsfjarðar og lifði þar til hárrar elli, einn af örfáum 150 cm. hestum þeirra tíma. Það hefur sagt mér Ólafsfirðingurinn Brynjar Vilmundarson útvegsbóndi. Sokki vakti mikla athygli, fallega toppskjóttur, sokkóttur og afskaplega hálsgóður, hálsinn langur og fínlegur og skínandi vel reistur. En þessi mynd dapraðist mikið þegar nær var komið, því fæturnir voru svo grannir og ótraustlegir, frekar kjúkulangir og sinaskil lítil. Það voru miklar andstæður í þessum hesti, því auk þess að vera hálslangur þá var hann háfættur og skrokkléttur, hlutfallaréttur og sívalvaxinn, alveg glæsilegur hestur. Hann tölti ágætlega, en ekki man ég til þess að hann væri mikill ferð- eða rýmishestur, vekurðin ekki til. Þetta var klárhestsímynd, eiginlega framúrstefnuhestur að vissu leyti. Hann fékk ekki mikinn hljómgrunn, sást ekki meira á sýningum og lenti svo á milli tannanna á fólki. Sigurður í Krossanesi bar hann alltaf fyrir brjósti, sá hestinn held ég alltaf í rósrauðum bjarma, enda var honum málið skylt. Hann tamdi hann og sá ljósu punktana í honum og var ekkert að setja út á það lakara, vildi bara gleyma því held ég. Sigurður mun hafa verið að þjálfa Sokka er honum varð þessi staka á munni:
Eru fjögur undir mér
eistu dável sprottin.
Af öllu hjarta þakka ég þér
þessa sköpun, drottinn.
Sokki smáhvarf, var umdeildur og hálfpartinn kveðinn niður í sínu heimahéraði og aldrei notaður utan þess svo ég viti til. Þrátt fyrir það markaði hann djúp spor í ræktuninni, því undan honum var Síða frá Sauðárkróki, einn af hornsteinunum í ræktunarstarfi Sveins Guðmundssonar.” (Úr starfssögu Þ.Bj.)

Ný vonarstjarna
”Sörli 653 frá Sauðárkróki (8,10) var byggingardæmdur aðeins tveggja vetra á LM 1966 á Hólum í Hjaltadal. Hann hlaut umsögn sem ég gat nú ekki að öllu leyti skrifað uppá seinna: Fínlegur, fríður og reistur foli, full lendstuttur. Lítils háttar vindingur í vinstri afturfæti. Þetta var alveg glæsifoli hann Sörli, geysilega reistur, og mér finnst nú að ég hafi tekið hann fullmjúkum tökum að kalla hann fríðan! Þetta var fyrsta sýningin hans Sörla en ekki sú síðasta. Af honum er merk saga, sigurganga sem verður rakin í þessum skrifum eftir því sem tilefni gefast.” (Úr starfssögu Þ.Bj.)

FM 1969. ”Í flokki 4ra og fimm vetra stóðhesta varð efstur Sörli 653 frá Sauðárkróki (8,20 – 8,28: 8,24). Ég var afar hrifinn af Sörla, hann var alltaf svo glæsilegur, þótt hann væri ekki af þessari fínbyggðu gerð, sem mér leist allra best á. Reisingin var hins vegar svo afbragðsgóð og framgangan öll. Ég taldi auðvitað skyldu mína að segja bæði kost og löst á honum, eins og öðrum hestum. Þetta var lagt út á versta veg og enn í dag er maður að sjá því haldið á lofti að Sveinn hafi mætt stöðugum andróðri með Sörla, kerfið hafi verið honum óvelviljað. Þetta er eins fjarri lagi og hugsast getur. Hitt er satt að gagnrýnislaust fór hann ekki í gegnum nálaraugu dómkerfisins, frekar en aðrir hestar. Umsögn dómnefndar um Sörla að þessu sinni hljóðaði svona: “Háreistur, glæsilegur viljahestur, með allan gang rúman. Háar og tilþrifamiklar hreyfingar.” Svona stóð Sörli sig nú alltaf, hann kom aftur í einstaklingsdóm á LM 1970 á Þingvöllum. Þorsteinn Jónsson var ævinlega með hann. Það gekk frekar illa að sýna brokkið í honum, hann var það viljugur. Svo var hann líka grófur á brokkinu, og tapaði oft taktinum þess vegna held ég, það var svo mikill munur á þessu. Það var ekki fyrr en seinna sem maður sá almennilega til hans á brokki, enda var hreinlega ekki lagt uppúr því á þessum árum. Ég var það gamaldags að ég gekk ekki stíft eftir því að menn sýndu brokk, ég taldi brokkið svo sem ekkert vörumerki reiðhesta. Við þessu verð ég bara að gangast. Það verður að koma fram hér um Sörla að þótt hann væri tvímælalaust fjölhæfur ganghestur, þá var hann aldrei neinn gammavekringur, bara svona rúmlega gutlvakur. Þorsteini vissi alveg hvað hann gat og lagði ekki meira að honum en það að hann skilaði sprettunum heilum. Seinna sá maður öðrum takast þetta miður, þá átti að leggja hann einhverja rosaspretti sem hann réð bara ekki við, stytti sig og hljóp upp. Systur hans báru alveg af honum hvað þetta varðaði, einkum Hrafnhetta, sem var firn vökur.” (Úr starfssögu Þ.Bj.)

Jór í traðir ólmur óð
Fyrsti afkvæmahópurinn undan Sörla sem athygli vakti, kom fram á FM 1973 á Iðavöllum. Gefum nú Þorkeli orðið:
”Kolbakur 826 frá Egilsstöðum (8,00 – 7,70: 7,85) var efstur af 4ra vetra folunum á FM 1973. Hann var undan Sörla 653 frá Sauðárkróki og Lukku Péturs á Egilsstöðum, sem var undan Voðmúlastaða-Lýsingi 409 og Hæru frá Fornustekkum. Hérna var komið nýtt blóð. Sörli hafði verið notaður á Héraði 1968 og nú voru afkvæmi hans komin á kreik, aðeins 4ra vetra gömul. Þau létu mjög að sér kveða, einokuðu verðlaunasætin í 4ra vetra flokkunum. Ragnar Hinriksson hafði verið að temja og þjálfa á Héraði um vorið og sumarið og sýndi flest þessara tryppa.
Segja má að öll tryppin undan Sörla hafi verið efnileg reiðhross, en þeim var nokkuð áfátt í byggingu. Einkum var það hálsbyggingin sem var of stutt og djúp. Ég kom á bak mörgum Sörlaafkvæmum á þessum árum og segja má að það hafi valdið mér sárum vonbrigðum hvað það var lítið fyrir framan mann þegar á bak var komið. Reisingin var þó meir en nóg að sjá, og víst er að þetta sterka sameiginlega einkenni þeirra sáu ekki áhorfendur í brekkunni, og þessu hefði ég aldrei gert mér grein fyrir ef ég hefði ekki alltaf ásett mér að koma á bak sem allra flestum hrossum. Harðast fannst mér að ekki skyldi fást í gegnum Sörla hinn marglofaði granni og fíni háls, sem prýddi móður hans, Síðu 2794.
Kolbakur var um margt töluvert fallegur hestur, fínlegur og vel byggður. Hann var enginn groddi, þótt hann hefði vel getað verið það með Sörla, Lýsing og Fornustekkjahross í bakgrunni. Kolbakur var ekki að öllu leyti dæll í skapi, rúmur á brokki og tölti og fótaburður góður. Hann var skörungur að orku og vilja og ég leit svo á að hér væri á ferð efnilegur stóðhestur. Á Landmótinu á Vindheimamelum 1974, árið eftir, fylgdi hann föður sínum í afkvæmadómi. Kolbakur var svo seldur suður á land. Guðni í Skarði keypti hann og notaði um árabil á hryssur sínar.
Þessi kornungu Sörlabörn voru mjög áberandi á þessu móti og áttu flest eitt einkenni sameiginlega: Góðan vilja. (Úr starfssögu Þ.Bj.)

Heilir hildar til – heilir hildi frá
Á LM 1978 á Þingvöllum, síðasta landsmótinu í Skógarhólum, voru í fyrsta sinn verðlaunuð hross eftir nýjum reglum um afkvæmasýningar. Þetta hafði um árabil verið heldur laust í böndum, einkunnalágmörk og fjöldi sýndra afkvæma nokkuð á reiki. Nú varð til í fyrsta sinn sérstakur heiðursverðlaunaflokkur. Til þess að hljóta heiðursverðlaun skyldu stóðhestar eiga tólf dæmd afkvæmi með meðaleinkunn upp á 8,10 að minnsta kosti. Hryssur urðu að eiga fjögur afkvæmi og meðaleinkunn þeirra allra einnig upp á 8,10.

„Fyrsti stóðhesturinn til að hljóta þessi heiðursverðlaun var Sörli 653 frá Sauðárkróki. Allt frá því að Sörli kom fram fyrst tveggja vetra á LM 1966 á Hólum hafði hann hlotið betra brautargengi en nokkur annar hestur fyrr og síðar. Almenningur hreifst af honum og hann var notaður víða um land og undir hann leiddar margar af albestu hryssunum. Sem einstaklingur hafði hann staðið efstur á þeim sýningum sem hann kom á, þannig að við dómarar létum ekki okkar eftir liggja í eftirlæti við hann. Samt var það nú svo að það myndaðist einhvers konar samúðarfylgi við hann, það var reynt að koma því inn að hann ætti undir högg að sækja og væri ekki metinn að verðleikum af mér og meðdómurum mínum. Ég held að þetta helgist kannski af þeirri starfsreglu minni að segja kost og löst á öllum gripum. Ég var auðvitað ekki tilbúinn til þess að taka Sörla í guðatölu, fremur en ég hafði gert við Hörð frá Kolkuósi – en til þess var ætlast með þá báða. Af því að ég vogaði mér að efast um að þeir væru yfir allt hafnir, varð til einhver einkennilegur pirringur, en einnig hugsanavilla og rammasta þversögn. Því var komið á kreik að þessir hestar nytu ekki sannmælis og sigrar þeirra túlkaðir sem vísbending um hvað kerfið væri steinrunnið og dómararnir úti á þekju. Þetta sjónarmið kemur glöggt fram í bók Árna Gunnarssonar um Svein Guðmundsson, Glymja járn við jörðu. En það er einmitt þetta sama kerfi sem veitti Sörla heiðursverðlaun fyrstum hesta – og þessa umsögn:
„…………Afkvæmi Sörla hafa mörg sameiginleg einkenni og er kynfesta hans mikil. Stærðin er ágæt, ……….Í útliti eru afkvæmin höfuðstór með heldur illa borin eyru, hálsinn stuttur en mjög vel reistur, bakið beint og bolurinn víður, lendarbygging full kröpp, ávöl. Fætur eru ekki teljandi snúnir, nema nástæðir um hækla. Hófar eru sterkir með djúpa botna. Lundin er kjarkleg og ákveðin, hrossin eru fljót að skilja manninn og temjast auðveldlega. Viljinn kemur líka óvenju fljótt og verður oftast mikill, og er þetta tvennt höfuðkostir erfðanna, þ.e. þægðin og viljinn og ómetanlegt í reiðhestaræktinni. Sörli gefur alhliða ganghross, gangur allur hreinn og oftast rúmur, víxl þekkist ekki. Fótalyfting er falleg, þótt stundum óprýði sveiflur á framfótum, eins og á hestinum. Í afkvæmahópnum finnast að vonum hross, sem ekki hafa fallega byggingu, en sjaldgæft mun að hæfileikar bregðist. Fyrir 12 bestu afkvæmin, sem dæmd hafa verið eftir dómstiga kynbótahrossa, fær Sörli 8,11 stig. Hann er gæðingafaðir og hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.” (Úr starfssögu Þ.Bj.)

”Mesti gæðingur í röðum stóðhesta.”
Í afkvæmahópi Sörla voru nú þeir hestar sem hvað mesta athygli vöktu á mótinu, hvor á sínu sviði: Náttfari frá Ytra-Dalsgerði, sem hlaut hæstu meðaleinkunn kynbótahrossanna og meteinkunn fyrir hæfileika, og glæsitöltarinn Hlynur frá Bringu, sem varð Íslandsmeistari í tölti, einnig með meteinkunn.
Undan Sörla komu í fyllingu tímans 42 1. verðlauna hross. Það var miklu fleira en dæmi voru til um fram til þessa. Svipur 385 frá Akureyri hafði átt 28 slík, Nökkvi 260 frá Hólmi 24 og Hörður 591 frá Kolkuósi 20, og höfðu þessir þrír haft yfirburði að þessu leyti.
Eftirminnilegasta kynbótahrossið undan Sörla og það lang hæst dæmda er að sjálfsögðu Náttfari frá Ytra-Dalsgerði (8,54), en samtals urðu 1. verðlauna stóðhestar undan Sörla átta talsins. Minnisstæðar og hátt dæmdar hryssur eru Lyfting frá Flugumýri (8,32), Hæra frá Litla-Garði (8,23) og Drottning frá Sauðárkróki (8,20) og mörg hross önnur sá maður sem voru flinkari og fimari en klárinn sjálfur. Meðal annarra Sörlabarna í hópi sigursælla gæðinga, vekringa og stórhlaupara á landmælikvarða eru Þorri og Gjálp frá Höskuldsstöðum, Hlynur frá Bringu, Tinna frá Flúðum, Snarfari frá Skagaströnd og Áki frá Laugarvatni. Sum þessara hrossa entust dæmalaust vel, ævinlega í fremstu röð.
Skömmu eftir þessa upphefð Sörla keypti Sigurbjörn á Stóra-Hofi hann. Þar var geysilegt hryssuval, svo Sörla var ekki í kot vísað á efri árum. Náttfari sonur hans var þarna fyrir, og saman mynduðu þeir feðgar merginn í Stóra-Hofsræktuninni að ég hygg. Afkvæmi þeirra feðga voru á margan hátt ólíkrar gerðar, eins og raunar hestarnir sjálfir (Albert Jónsson, október 2010). Því mætti kannski gera betri skil síðar, því víst er að margt forvitnilegt mætti draga fram í dagsljósið af þeirri reynslu sem fékkst á Stórahofi af afkvæmum nokkurra þekktra stóðhesta.
Auðvitað er Náttfari sá hestur sem efst trónir af öllum Sörlaafkvæmum, hestur sem setti ný viðmið strax þegar hann kom fram 4ra vetra gamall á LM 1974 á Vindheimamelum, og setti svo einkunnamet á LM 1978. Náttfari fékk 9,08 fyrir hæfileika – og umsögn Þorkels Bjarnasonar, sem hvorki hefur verið notuð fyrr né síðar: ”Mesti gæðingur í röðum stóðhesta.” Undirritaður höfundur þessarar greinar átti því láni að fagna að koma á bak Náttfara eitt sinn að vetrarlagi heima á Stórahofi. Þar fékkst skemmtileg staðfesting á því sem augað hafði gælt við á tveimur landsmótum, og fest var rækilega í minni skeiðfíkils með áráttuhegðun. Stinnt sporið, fús vilji og skörp gangskil ögruðu og hvöttu til þess að halda áfram á hinni mörkuðu braut. Og mér var ekki bannað að hleypa!

Fundvís frumherji
Ég spjallaði við Guðmund Gíslason, sem fyrr bjó á Torfastöðum í Biskupstungum (1967-1983). Guðmundur var á sínum búskaparárum frumkvöðull í hrossabúskap. Hann var ákaflega fundvís á efnileg mertryppi, keypti þau víða að en flest þefaði hann þó uppi á nágrannabæjum. Áður hafði aðeins útgerðar- og peningamaðurinn Eggert Jónsson leikið slíkan leik, er hann stofnaði og rak Kirkjubæjarbúið (stofnað 1944). Guðmundur kynntist Sörla vel og hafði með hann að gera, eins og margt fleira af hrossum Sveins Guðmundssonar. Sonur Guðmundar, Eiríkur heitinn tamningamaður, tamdi og sýndi Sveinshross um árabil.

”Fyrst vissi ég af Sörla þegar hann var á öðrum vetri. Við vorum nokkrir ungir og bjartsýnir menn, undir forystu Tómasar Antonssonar sem þá bjó í Borgarholti í Biskupstungum, sem datt í hug að kaupa stóðhestsefni. Það var eitthvað farið að kallsa það við Svein, en ekkert varð nú úr því. En áhuginn á folanum var nú alltaf fyrir hendi, og ég fylgdist auðvitað grannt með gengi hans í dómum og sýningum, þegar að því kom. Hann stóð alltaf efstur þar sem hann kom fram, og stóð því vel undir væntingunum. Ég sóttist eftir því að fá hann leigðan, og það varð úr að hann var fenginn hingað suður á seinna gangmáli 1975. Við Sigurður á Bjarnastöðum fórum norður Kjöl á jeppa og kerru og sóttum þá feðgana, Sörla og Hrafnkel minn frá Ólafsvöllum, sem ég hafði leigt í hólf þarna í Skagafirðinum. Það má hafa það til marks um það hversu geðgóðir þessir hestar voru, að við settum þá saman í millgerðarlausa kerruna, og gekk ferðalagið suður Kjöl vandræða- og hljóðalaust fyrir sig. Sörli var svo í merum heima á Torfastöðum það sem eftir lifði sumars, og fyljaði mjög vel þótt hryssurnar væru nokkuð margar. Hrafnkell var hins vegar járnaður og farið með hann í B- flokkinn í Hrísholti, sem hann gerði sér lítið fyrir og sigraði – 4ra vetra gamall!
Sörli var svo hjá mér næstu tvo vetur, en þriðja veturinn gekk hann við opið fram á vetur í Hrepphólum hjá Stefáni bónda – eftir að hafa verið notaður þar um sumarið. Í Hrunamannahreppi komu undan honum góð hross, til dæmis Tinna frá Flúðum og Vinur frá Kotlaugum.
Nú, Sörli var svo járnaður fyrir norðan. Sveinn keppti á honum í firmakeppni um vorið við góðan orðstír. Næst á dagskrá var svo landsmótið í Skógarhólum 1978. Þar var hann sýndur til heiðursverðlauna, eftir nýjum reglum sem þá giltu. Reglan var sú að dæmd afkvæmi urðu að vera að minnsta kosti tólf. Af einhverjum ástæðum vantaði tólfta hestinn í afkvæmadóminn. Svoleiðis stóð á að ég átti ágætan hest undan Sörla, sem var þarna úti í hrossagirðingu, og nú þurfti að hafa hraðar hendur. Sveinn segir við mig: Taktu bara Sörla og ríddu eftir klárnum. Ég vatt mér á bak, smalaði girðinguna á heiðursverðlaunastóðhesti mótsins – raunar þeim fyrsta sem þá viðurkenningu hlaut – og fann klárinn minn. Ég reið honum svo fyrir dómarana og þar með var allt klappað og klárt fyrir heiðursverðlaunin! Í dómsorðunum lagði Þorkell mikið upp úr viljanum og þægðinni í Sörla og afkvæmum hans, og undir það kvitta þessar sögur rækilega, eins og raunar öll reynsla mín af þessum hrossum.
Sjálfum tókst mér ekki að koma mér upp góðri hryssu undan Sörla. Ég átti hins vegar stóðhestinn Hrafnkel, eins og fram hefur komið, ákaflega auðveldan, sjálfgerðan og mjúkan töltara. Blossa 800 eignaðist ég líka, keypti hann þegar ákveðið var að gelda hann og átti sem reiðhest í mörg ár, en ákvað að fella hann 16 vetra gamlan þegar ég flutti frá Torfastöðum Ég gat ekki hugsað mér að taka hann með til Reykjavíkur. Brokkið var besti gangurinn í Blossa, mjúkt ásetu og greitt. Storm ól ég upp og kynntist vel. Hann var undan systkinunum Sörla og Hrafnkötlu. Hann var nú mestur þeirra hesta sem ég kynntist undan Sörla, sjóðandi viljahestur og frábær reiðhestur. Þorkell kom að skoða hann hjá mér, það hefur sennilega verið snemma vors 1982. Til stóð að afkvæmasýna Hrafnkötlu og Hrafnhettu, en Sveinn var harður á því að að láta ekki Storm fylgja móður sinni nema hann fengi 1. verðlaun. Þorkell var að koma frá Stóra-Hofi, þar sem hann var í svipuðum erindum vegna Blæs, sonar Hrafnhettu. Hann var hálf eyðilagður yfir því að geta ekki viðurkennt Blæ að fullu, fótagerðin stóð í vegi fyrir því. Honum þótti hins vegar mikið til kosta hans koma, taldi hann jafnvel ennþá betri en Storm. Hann var líka stærri og hálslengri, meiri gripur eins og Þorkell sagði stundum. Til að gera langa sögu stutta, þá voru folarnir geltir þarna um vorið.
Það hefur auðvitað margoft komið fram að Sörli var ekki fimastur og flinkastur allra hesta. Hann hafði hins vegar fágætan myndarskap og útgeislun. Sörli hafði stórar hreyfingar, steig nokkuð þungt til jarðar, brokkið gróft. Ég var ekkert að leggja hann, reyndi það helst ekki nema á ís, þá skreið hann vel. Ég reið einu sinni beinustu leið frá Torfastöðum að Bræðratungu, það voru öll vötn á ís. Ég hafði þrjá til reiðar. Og þá fékk ég góðan sprett hjá Sörla. Það var gaman þá, það get ég sagt þér Bjarni.
Það var ríkt í Þorkeli að ýta ekki svo mjög undir tískuhesta, enda var enginn þeirra gallalaus. Hann bar mikla ábyrgð og vildi þess vegna vekja athygli á því sem betur mátti fara. Ég held að það hafi nú verið sterkasti þátturinn í þeirri spennu sem skapaðist út af Sörla, það var alls ekki andróður í sjálfu sér, heldur fagleg ábyrgðarkennd. Sörli var annar tískuhesturinn sem ég man eftir, hinn var Hörður frá Kolkuósi. Alls staðar þar sem Sörli var notaður komu fram hestar sem tekið var eftir. Auðvitað tryggði það framhaldið, eftirspurnina og vinsældirnar. Á Héraði skildi hann eftir sig spor: Kolbakur frá Egilsstöðum, Elísa frá Stóra-Sandfelli, Kolbrún frá Jaðri, öll fædd 1969. Á Suðurlandi Hrafnkell frá Ólafsvöllum, Blængur Gamla-Hrauni, Litla-Svört Óla Péturs, Dimma Jóns á Helgastöðum og áður áminnst Tinna frá Flúðum og Vinur frá Kotlaugum. Gjálp var fædd 1971 norður á Höskuldsstöðum í Eyjafirði, þar varð líka til 1974 snillingurinn Þorri frá Höskuldsstöðum, sem tók þátt í 4 landsmótum að mig minnir, og komst alltaf í úrslit. 1972 fæddust Sörli frá Stykkishólmi, Leiknir í Svignaskarði og Högni á Sauðárkróki. Ör frá Hellulandi f. 1971 (undan henni var Gola frá Brekkum), Höfða-Gustur fæddist 1973. Náttfari og Hlynur frá Bringu undirstrikuðu svo allt saman á LM 1978 á Þingvöllum, báðir fæddir 1970. Í kjölfarið kom undan Sörla skriða af góðum hrossum á Stóra-Hofi. Svona má nú segja að gengi hans hafi staðið alla tíð. Harka frá Úlfsstöðum og Hending frá Víðidal í Skagafirði eru úr síðustu árgöngunum undan honum, fæddar 1990. Þær eru enn að eiga folöld, sjálfsagt síðustu gæðingamæðurnar undan Sörla sjálfum.
Það er gaman að velta fyrir sér ræktunlegri samlegð þeirra Sörla gamla og Hrafns frá Holtsmúla, sem var nokkrum árum yngri en Sörli, og fylgdi í kjölfarið sem tískuhestur og meginstólpi. Margt úr þeirri blöndu heppnaðist afar vel, enda má til sanns vegar færa að þessir höfðingjar hafi – jafnframt því að leggja saman sterka þætti – á sinn hátt bætt hvorn annan upp.”
Hér lýkur Guðmundur Gíslason máli sínu.

Kalt mat
Það gildir um Sörla eins og alla góða stóðhesta sem við höfum átt, að þeir eru ekki algóðir. Um það verður ekki deilt. Hins vegar má deila um það hvernig réttast er að meta heildaráhrif þeirra á hrossastofninn þegar frá líður. Ég sagði hér að framan að kynbótamatið gilti fyrir líðandi stund, og eldri hrossin láta undan síga hægt og bítandi, eins og eðlilegt má teljast á framfaravegi. En hvaða aðferð höfum við til þess að meta gildi fallinna höfðingja? Það kvað vera tiltölulega einfalt að reikna út og meta hlutfall erfðaefnis þeirra í hrossastofninum. Eins og fram hefur komið í gögnum sem Ágúst Sigurðsson hefur lagt fram, er Sörli þar geysisterkur. Meðaltöl og hundraðshluti kynbótafræðinnar verða í sjálfu sér ekki dregin í efa Kannski er nóg fyrir okkur að vita þau?
Tölur á blaði segja þó tæplega alla söguna. Eftir sem áður dvelur hugurinn við afkastahross sem borið hefur fyrir augu, fjörgapa og yndisgjafa sem ganga undir nöfnum og númerum. Það er staðreynd sem ei verður hrakin að undaneldishrossin eru gjarnan valin úr þessum tiltekna hópi nafngreindra og nafnkunnra eðalhrossa. Þau auka kyn sitt og sjá um meginframvinduna í hrossaræktinni. Má benda á það í framhjáhlaupi að í þessari flokkun gæti verið falinn lykill að því að bregðast við síauknu forvali? Gáum betur að því við tækifæri.
Hlutdeild Sörla 653 frá Sauðárkróki og ættgeng ítök meðal þessara eftirminnilegri og betri hrossa er mikil og góð, ekki síður en fyrr var nefnt um erfðahlutfall í hrossastofninum öllum. Vitneskjan um Sörlabörnin sem nefnd hafa verið í þessu greinarkorni yljar kynslóðinni sem hana geymir meðan lifir. Minning gamla höfðingjans og þessara títtnefndu afkvæma er vert að halda á lofti og flytja til þeirra sem yngri eru og verða að láta sér duga afspurnina.

Bjarni Þorkelsson.

%d bloggers like this: