Gustur frá Hóli

 

A– og B– flokkur?

 

Í  umræðu um hrossarækt – síðast í 4. tbl. Eiðfaxa 2010 – skýtur reglulega upp kolli vanhugsuð krafa um að dæma ekki öll kynbótahross eftir sama kerfi, heldur skipta þeim  í tvo flokka, klárhross og alhliðahross – og sleppa óburðugri skeiðeinkunn klárhrossanna, þannig að tryggt sé að þau fái að blakta þrátt fyrir þá hreyfihömlun að geta ekki skeiðað. Ef orðið yrði við þessari kröfu, myndu tiltölulega einhæf hross raða sér í efstu sæti sýninganna, og sópa enn frekar að sér athyglinni. En hangir ekki fleira á spýtunni?

Það verður að bíða betri tíma að kryfja þetta mál til mergjar. Raunar er það kannski þarflaust, því niðurstaða slíkrar tilhögunar blasir við: Skipulegt undanhald skeiðsins – undirstöðu tölts og gangmýktar. Þannig glatast eða gerist ótrygg  sérstaða íslenska hestsins á heimsvísu að búa yfir fimm gangtegundum í senn. Flóttinn yrði svo rekinn af skammsýnum gróðapungum, sem gera vilja út á hverfula lýðhylli og gefa langt nef opinberri og margþættri ræktunarstefnu sem miðar að því að tryggja  fegurð, hreysti og fjölhæfni íslenska hestsins um aldur og ævi.

Hvað má þá til varnar verða vorum sóma? Hvaða vopn hafa þeir í höndum sem standa vilja vörð um fjölhæfni, gangmýkt og eðlisgæði íslenskra hrossa og þau erfðaverðmæti sem okkur hefur verið trúað fyrir?

Trúlegt er að skrif þessa blekbónda hér bíti ekki frekar en ryðbreddur og heykvíslar sem söguhetjur í Gerplu Halldórs Laxness höfðu yfir að ráða, er til tíðinda dró um vopnaburð. Helst er því að treysta að stórgæðingar í röðum alhliða hesta séu það bitvopn sem dugir málstaðnum sem hér er á lofti haldið. Einn þessara verður nú leiddur fram á sjónarsviðið fyrir lesendur Eiðfaxa – Gustur frá Hóli.

 

Kattmjúkur og fimur

 

Kattmjúkur og fimur eru orð sem kannski eiga ekkert alltof vel við þegar lýst er hófahundi. Þau verða samt gjarnan fyrir valinu þegar Gust frá Hóli ber á góma. Undirritaður höfundur þessara lína er einn þeirra sem skefjalaust hafa hrifist af þessum eiginleikum, eins og þeir birtust á kynbótasýningunum á FM 1993 og LM 1994. Einnig er eftirminnileg framgangan á LM 2002, þegar Gustur var sýndur til heiðursverðlauna, orðinn nokkuð fullorðinn og ef til vill ekki í eiginlegri reið- eða sýningaþjálfun.

Hins verður líka að geta að þegar ég sá hann í stíu austur í Gunnarsholti vorið 2004 eða 5 – en þangað var hann kominn til að vera í sæðingum – leist mér ekki alls kostar á blikuna. Var þetta örverpi – í útliti eins og illa fóðrað tvæveturt tryppi – sá landsfrægi stóðhestur sem snert hafði strengi í hesthneigðum brjóstum og kallað fram kenndir sem aðeins er hægt að lýsa með ljóðrænni andakt í stíl Brodda Jóhannessonar og Ásgeirs frá Gottorp?

Ég verð að játa að nú tók ég að efast. Var hugsanlegt að undan þessu gerpi væri hægt að ala landsgæðinga í röðum?

Í umræðum um hrossarækt er gagnrýnin efahyggja allajafna hæfilegri en hömlulaus trúarbragðaofsi, og  enginn almennilegur maður vill ganga í þann flokk hestamanna sem þrífst á illspám, öfund og lygi. Reynslan hefur nú gefið sterkar vísbendingar um gildi Gusts frá Hóli fyrir hrossarækt landsmanna – og öll verðum vér að lúta því sem stendur á einum stað hjá sjálfum Þórbergi: ”Mannorð mitt verður að víkja fyrir sannleikanum.”

 

Baklandið

 

Gustur er fæddur á Hóli 2 í Eyjafjarðarsveit, í eigu hjónanna á Hóli, Ragnars Ingólfssonar frá Akureyri og Elísabetar Skarphéðinsdóttur frá Gili í Skagafirði. Í ritinu Hestar og menn frá 1994 er viðtal og vönduð úttekt á tilurð, uppeldi og tamningu Gusts. Þessari grein hér er fremur ætlað að vera eins konar ræktunarlegt uppgjör eða úttekt. Því er lítt staldrað við framantalin atriði hér, en með ánægju vísað til þessa viðtals í þeirri von að lesendur kynni sér.

Þótt Gustur sé fæddur í Eyjafirði, og eigi að formóður hina fornfrægu Hólshúsa-Brúnku, verður vart sagt að hann sé af eyfirsku bergi brotinn. Þetta sjá lesendur glöggt, er þeir skoða ættartré Gusts, sem hér fylgir. Þar eru meira áberandi skagfirsk hross og borgfirsk. Hann er þó lítillega skyldur þeim eyfirsku hrossum undan og út af Svipi 385 frá Akureyri, sem best stóðu sig á landsvísu á 7unda og 8unda áratugnum. Það helgast af sameiginlegum hornfirskum rótum, sem víðar gætir en margan grunar, og betur kemur fram síðar í þessu lesmáli.

Ekki verður þó um það deilt að hann prýði fríðan flokk eyfirskra landsmótssigurvegara í einstaklingsflokkum, og standi þar jafnvel fremstur meðal jafningja, ef horft er til aðaleinkunna.

Þegar vöngum er velt yfir kynbótagripum, er óhjákvæmilegt að skyggnast um í bakættum þeirra. Í handriti að starfssögu Þorkels Bjarnasonar, sem var hrossaræktarráðunautur BÍ á árunum 1961 – 1996, kennir margra grasa. Á það grasafjall ætla ég nú að bregða mér og vita hversu fengsæll ég verð. Hér fara á eftir nokkrar tilvitnanir í handritið, tíndar af ættartré Gusts frá Hóli. Fyrst er vitnað í umfjöllun Þorkels um Björn Jónsson frá Mýrarlóni, kæran samstarfsmann og meðdómara:

”………………………….. Á Landsmótinu ´58 lék hann þó á mig því ég tók hann alvarlega. Á sýningunni var grá hryssa frá Grund í Eyjafirði, sem Geir á Vilmundarstöðum átti, kölluð Þoka, áður kappreiðameri og undan Hólshúsa-Brúnku. Við stóðum saman að skoða flotann, sem leið framhjá. “Ja, sjáðu bara” segir Björn, þegar sú gráa fór fyrir, aðdáunarfullur í bragði. Ég tók þetta sem vísbendingu, þarna væri eftir einhverju að slægjast. Við fyrsta tækifæri hafði ég merakaup við Geir, sem var auðsótt. Geir hafði líka haldið gröðum tveimur gráum folum undan Þoku, annar var ættbókarfærður, kallaður Valur en hinn var Gráni, faðir Hrímnis 585 frá Vilmundarstöðum. Þoka var þá orðin nokkuð fullorðin, bráðrösk klárhryssa, sem mátti skæla úr töltspor, nokkuð létt til hlaupa, en engin gæðingamóðir. Faðir Þoku var ……… Léttfeti 276 á Hvassafelli í Eyjafirði sem var notaður til kynbóta hjá Eggert Jónssyni í Kirkjubæ í tvö ár. ……………………………”

 

”Blesi 694 frá Gili var í eigu systkinanna á Kimbastöðum. Hann var undan óþekktum hrossum og var orðinn fullorðinn þegar hér var komið sögu. Blesi hlaut 2. verðlaun og þessa umsögn.

„Afkvæmi Blesa eru fremur samstæð að útliti, vel reist en ekki fíngerð. Þau eru sæmileg að ganghæfni, en of lággeng. Mjög geðgóð og auðtamin, reynast traust og eiguleg hross, en ekki aðgerðamikil.”

…………………………………….Þótt Blesi færi enga frægðarför á vit okkar kynbótadómara, er hann á bak við heiðursverðlaunahrossin Gust frá Hóli og Gnótt frá Brautarholti, eins og betur kemur fram.”

 

Um Hörð 591 frá Kolkuósi er skrifað langt mál í starfssögu Þorkels, og er sumt af því krassandi lesning.

”Þegar Hörður mætti nú til afkvæmasýningar á Hólum (1966) voru að vísu orðnir aðrir eigendur að honum en viðhorfin höfðu ekkert breyst, þau höfðu fylgt skilmerkilega með í kaupunum. Það átti bara að mæla Hörð á aðra stiku en önnur hross, það var krafan. Þegar því var ekki hlýtt var það talið annarlegt  sjónarmið og túlkað sem kerfisbundin andstaða gegn hestinum. Ég hafði mikið álit á Herði sem reiðhesti ………………………… Þetta álit var rækilega staðfest á landbúnaðarsýningunni 1968, þar sem hann stóð efstur einstakra stóðhesta. Ég taldi hann í rauninni bera af sem reiðhest og getuhest. Í fyrstu gerði ég mér ekki fyllilega glögga grein fyrir veikleikum hans, hvað þá að ég hafi látið hann gjalda þeirra. …………………………..

 

…………………………… Elding frá Kýrholti (8,44)…………… var gullmeri, það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi, og mér er minnisstætt hvað Pétur Sigfússon í Álftagerði sat hana fallega og vel búinn.

 

Abba 5449 frá Gili (8,05 – 7,95: 8,00) var undan Sindra 889 frá Álftagerði. Móðirin var Mósa frá Gili, dóttir Blesa 694 frá Gili, sem afkvæmasýndur hafði verið á Einarsstöðum 1969. Sindri og Blesi voru vissulega stóðhestar sem fátt afrekuðu, og að minnsta kosti var Sindri ekki í miklu áliti hjá mér á sínum tíma, þrátt fyrir óvenjulega ættgöfgi. Það stendur þó ekki í vegi fyrir því að þeir eru afar eins þeirra stóðhesta sem hæst ber um þessar mundir, Gusts frá Hóli. Gustur er nefnilega sonur hennar Öbbu frá Gili, sem hér er til umræðu. Abba var reist og falleg, en aðeins gróf. Hún var efnileg reiðhryssa.

 

Hrímnir 585 (8,20 – 8,37: 8,29) frá Vilmundarstöðum var bráðsnotur og fór fallega undir, ljúfur,  þjáll og ganggóður, en ekki afrekshestur á neinu sviði. Hrímnir var kattsmár, þótt ekkert bæri nú á því þegar á bak var komið, hann kom svo vel upp. Hann var undan Stjörnu frá Hvítárvöllum, sem eigandinn Geir á Vilmundarstöðum kallaði Aradís, af því hún var undan Skugga frá Bjarnanesi. Þetta var aðferð Geirs til að hnýta í Skuggahrossin, hann lagði sig fram um það. Það fór í taugarnar á Geir hve Ari Guðmundsson, formaður hrossaræktarsambandsins, hélt upp á Skugga, og gilti einu þótt besta hryssan hans væri undan honum – Stjarna var nefnilega alveg rakin gæðingamóðir. …………………………

 

Gáski 920 frá Hofsstöðum (8,10 – 8,53: 8,32) var undan Hrímni 585 frá Vilmundarstöðum og Freyju 3204 frá Hofsstöðum. Ættir Hrímnis hafa nokkuð verið raktar, en Freyja mun hafa verið afkomandi hrossa sem bárust suður frá Keflavík í Hegranesi – eins og Drusla Dagbjarts múrara. Höskuldur á Hofsstöðum sagði mér að það væri alveg hvínandi vekurð í þessum merum og ég hef hlerað það víðar að þetta væru alveg raktar rýmishryssur. Gáski var óvenjulegur foli og stóð sig úrvalsvel þarna, og alltaf síðan, þótt ekki kæmi hann aftur í kynbótadóm. Þetta er óvenju há hæfileikaeinkunn hjá svona ungum hesti, og kannski ekki alveg í samræmi við eðlislæga varkárni mína að gefa svona hátt fola sem ég var að sjá í fyrsta skipti. Það var mér því til mikillar gleði að fylgjast með því hvað hann stóð vel við dóminn síðar, og mæltist alls staðar vel fyrir sem reiðhestur. Gáski var reistur og hlutfallaréttur með mjúkt bak og jafna lend. Hann var útskeifur á framfótum. Reiðhestskostir voru óvenju jafnir og miklir.

 

Gáski 920 frá Hofsstöðum hlaut nú heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Gáski var sýndur fyrst á LM 1978 á Þingvöllum, ákaflega prúðmannlega eins og Gísla Höskuldssonar var von og vísa. Gísla einkenndi alltaf þessi hófstilling og yfirvegun, bæði reiðmennskuna og alla framkomu við okkur dómara. Honum hefur sjálfsagt stundum fundist við okkur, en slíkt bar hann aldrei á torg eða hækkaði við okkur róminn, tók öllu sem að höndum bar. Hann var allra manna ólíklegastur til að rægja okkur eða bera illa söguna. Það sem Gísli vildi segja, sagði hann með hrossinu sem hann var að sýna, og þurfti ekki frekari eftirmála eða útskýringar. Þegar horft er yfir sviðið svona eftirá er Gísli í mínum huga algjör andstæða þeirra manna sem mest bar á og höfðu sumir í frammi háttsemi sem reyndi á þolrifin.

Haraldur á Hrafnkelsstöðum lagði mikið kapp á það, þegar hann var formaður, að  Hrs. Suðurlands eignaðist Gáska, og keypti hann af Gísla. Það voru allir sammála um það sem höfðu Gáska undir höndum að hér færi einhver almesti gæðingur samtímans, og það skynjaði hvert mannsbarn, sem sá honum riðið. Til þess gáfust mörg tækifæri, því honum var oft flaggað á viðhafnarsýningum, t.d. með afkvæmum sínum. Vegur Gáska sem kynbótahests var hins vegar ekki beinn og breiður, og má jafnvel taka svo til orða að væri á köflum þyrnum stráður. Hann var þó mikið notaður og nokkuð víða um land. Almenningsálitið var honum þungt í skauti um skeið, einkum var fundið að skapgerð afkvæmanna. Á þessu móti ruddi hann því af sér svo um munaði. Viljinn, gangurinn og fótaburðurinn í honum sjálfum og mörgum afkvæmanna vakti geysiathygli og tryggði þessa útkomu. Í afkvæmahópnum voru Haukur frá Hrafnagili og Kraki frá Helgastöðum, sem slógu auðvitað alveg í gegn.

 

 

Gustur frá Hóli (8,13 – 9,01: 8,57) varð efstur í flokki sex vetra og eldri stóðhesta. Gustur var enginn glæsihestur, þótt hann stigaðist furðanlega fyrir byggingu, hvorki stór né föngulegur, og fínleikann vantaði í frambygginguna. En því meiri reiðhestur var hann, og þau fyrirheit sem hann hafði gefið fimm vetra árið áður lét hann nú í té með eftirminnilegum hætti. Við höfðum strax um vorið í forskoðun gefið honum þessar tölur, og hæst bar einkunn hans fyrir vilja, 10,0. Geðslagið mátti ekki fara hærra en 8,5, samkvæmt þeim reglum sem við höfðum sett okkur. Hesturinn var greinilega yfirburða vel lyntur, spann sig upp og niður á töltinu eins og teygjuband, eftir ósýnilegum bendingum knapans. Það varð töluverð umræða um þetta í dómnefndinni, sem að þessu sinni var skipuð okkur Víkingi Gunnarssyni og Jóni Finni Hanssyni. Urðum við sammála um að hesturinn væri svo þjáll og fús með þessum miklu gangtilþrifum og viljaákefð, að eðlilegt væri að gefa honum bara fullt hús, hreina tíu. Ég man ekki eftir því að þessi ráðstöfun hafi nokkurn tíma verið gagnrýnd eða fundið að henni, enda stóð hann vel við sitt á landsmótinu. Þessir ótvíræðu ganghæfileikar og mikli vilji hafa nú skilað Gusti heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi (LM 2002), því hann hefur reynst firnasterkur að miðla þessum gæðum til afkvæma sinna. Og það má segja um afkvæmin eins og föðurinn að þau stigist furðanlega fyrir byggingu, og veldur þar mestu um að fætur eru óvenju réttir og í heild fremur góðir.”

 

Svart á hvítu

 

Gustur frá Hóli hlaut sinn hæsta einstaklingsdóm árið 1994, og varð sigurvegari í elsta flokki stóðhesta á LM 1994 á Gaddstaðaflötum. Þar hlaut hann þessar einkunnir.

Fyrir byggingu: 7,5–8–8-8-8-9-8,5: 8,13.

Fyrir hæfileika: 9-8,5-9-9-10-8,5-8,5: 9,01.

Aðaleinkunn: 8,57

Hann var fyrst afkvæmasýndur á LM 2000 í Reykjavík og hlaut þá 1. verðlaun.

Heiðursverðlaun fyrir afkvæmi hlaut hann strax á næsta landsmóti, LM 2002 á Vindheimamelum. Þar fylgdu honum – eins og fara gerir – tólf gæðingshross, mörg grá að lit. Sjálfur dansaði hann í broddi fylkingar, aldrei sprækari eða léttstígari. Heiðursverðlaun eru mikill afrakstur, og verða ekki dregin í efa. Til þeirra þarf mikið að vinna og fáum stóðhestseigendum held ég að endist örendi til að handstýra þeirri siglingu af  heimahlaði til farsællar lendingar, eins og dæmin sanna að gera má til að ná  1. verðlauna mörkunum.

Dómsorð:

Afkvæmi Gusts eru tæplega meðalhross að stærð. Þau eru gróf á höfuð en svipgóð. Hálsinn er stuttur en mjúkur og vel settur. Þau eru hlutfallarétt. Fótagerð er í tæpu meðallagi en réttleiki frábær. Prúðleiki á fax og tagl er slakur. Afkvæmin eru skrokkmjúk og hreingeng. Töltið er lyftingargott, brokkið rúmt og skeiðið hreint. Þau eru þjál í lund og ásækin í vilja.

Gustur gefur fim og þjál ganghross, hann hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið.

 

Bergmál að austan

 

Bergur Jónsson frá Ketilsstöðum hefur fjölþætta reynslu af afkvæmum Gusts frá Hóli. Því var eftirfarandi viðtal tekið við manninn og fléttað inn í lesmálið.

 

„Ég sá Gust frá Hóli fyrst á FM 1993 á Vindheimamelum . Það er eins og við manninn mælt að hann algerlega heillaði mig, þessi hestur – og fyrst og fremst fyrir mýkt og fimi. Það var búið að tala um það lengi að Hrossaræktarsamband Austurlands keypti hest. Ég var þá í stjórn sambandsins og kem strax með uppástungu um að kaupa Gust. Hesturinn var falur og það verður úr að við höfum áhuga á að kaupa þriðjunginn í hestinum  á móti Eyfirðingum/Þingeyingum og Vestlendingum. Svo er farið að kynna þetta mál í heimahéraði, og það verða til tvær fylkingar alveg á augabragði – með og á móti kaupunum á Gusti frá Hóli. Kaupin voru  naumlega samþykkt á félagsfundi, en þeir sem harðastir voru á móti undu ekki úrslitunum og sögðu sig úr samtökunum.  Þau viðhorf breyttust ekki fyrr en hesturinn fór að sanna sig í gegnum afkvæmin.  Einn ræktanda veit ég um úr þessum harðasta andstöðuhópi, sem á einungis þrjú 1. verðlauna hross – og þau eru öll undan Gusti.

 

Ég barðist eins og grenjandi ljón fyrir því að kaupa hestinn, og helstu rök mín í málinu – í viðbót  við það sem áður er nefnt – voru þau að við hefðum svo góða reynslu af þessu blóði á Héraði. Gustur átti Hrafn 802 frá Holtsmúla fyrir langafa í móðurætt og Hrímnir 585 frá Vilmundarstöðum var afi hans í föðurætt. Báðir þessir hestar höfðu verið notaðir á Héraði, og skilið eftir sig djúp spor. Hrímnir blandaðist raunar alveg gríðarlega vel. Undan og út af honum  komu þessi mjúku, fimu og flinku hross. Sera frá Eyjólfsstöðum og Muni frá Ketilsstöðum voru bæði undan Hrímnisdætrum, svo ég nefni hross sem allir muna eftir.

Þessi rök notaði ég grimmt fyrir mínum málstað, og dugði vel á það fólk sem var kannski svona beggja blands í afstöðunni til kaupanna.

Ég var nú stundum umsjónarmaður með girðingunni þarna fyrir austan. Ég man það að einu sinni kom hann hálfþunnur í seinna gangmál, og við ákváðum að hygla honum og gefa fóðurbæti. Ég tók það að mér að gefa honum fóðurbæti á hverjum degi. Það var mjög skemmtilegt, að kynnast vel karakternum. Hann hafði alveg sérstaklega skemmtilegan karakter. Ég var ekki búinn að koma oft á sama bílnum, þegar hann var farinn að koma hlaupandi og þiggja veitingarnar. Þegar að því kom að smala girðinguna, fór ég  ríðandi inn í girðinguna með beislið í hendinni, fór af baki og beislaði klárinn og reið svo með hann heim eins og ekkert væri. Ekki til í því að hann leitaði á eða amaðist við reiðhestinum mínum á nokkurn hátt. Það er ábyggilega leitun að graðhesti sem er svona ljúfur og elskulegur.

Mér er mjög minnisstætt þegar Ragnar Ingólfsson var að sýna Gust á LM 1994 Á Hellu. Þegar snúa átti við í brautinni, hægði hann svona niður á töltinu og sneri bara við á hægu mjúku tölti. Þetta var einstakt og skar sig úr í samanburðinum.

Eins og áður segir fékk Gustur 10,0 fyrir vilja á héraðssýningu eða forskoðun fyrir Landsmótið. Þorkell sagði mér það – þegar hann var að styðja mig í því að kaupa hestinn – að tían hafi dottið á Gust í verðlaunaafhendingunni, þegar Ragnar fór sýningasprettinn með bikarinn í hendinni!

Mér finnst þessi mikla mýkt ganga alveg í gegn í afkvæmum Gusts. Þau eru líka flugrúm og gangtegundirnar vel aðskildar. Mörg þeirra sem ég hef kynnst  eru merkileg fyrir það, að þótt þau séu bullandi alhliða hross, þá er ekki alltaf létt að ná skeiðinu. Ég er búinn að lenda í hrossum undan klárnum, sem eru þannig þegar á að fara að kenna þeim að skeiða, og maður hleypir og ætlar að fara að taka þau niður, að þá þau koma niður á flugabrokk. Þessu hefur maður náttúrulega kynnst í fullorðnum rýmishestum, en þessu kynnist maður ekki oft í fimm vetra tryppum.

Gustsafkvæmin temjast vel, viljug og létt í lund. Þau verða fljótt góð, og það er auðvitað lykilatriði fyrir okkur sem erum að rækta og temja hross. Flest byrja bara á því að brokka, og það þarf að hafa svolítið fyrir því að gangsetja þau. Það þarf að sækja töltið – eins og í klárhrossum, þótt þau reynist síðan fljúgandi alhliða. Um tíma geta sum þeirra  svo algerlega misst jafnvægið, og farið í víxl og binding, eiginlega algerlega gangleysu. Ef knapinn missir ekki þolinmæðina, smáfer landið svo að rísa, og fyrr en varir er kannski allt komið í topplag! Eitt af þeim tryppum sem þessi lýsing á vel við, sýndi ég 4ra vetra í mjög góðan dóm. Eftir allt sem á undan var gengið má kalla það undur að upplifa sýninguna sjálfa:  Það var eins og að sitja á mótorhjóli, sem sprautaðist eftir brautinni fram og til baka – slíkur var krafturinn og viljinn. Hér var kominn Geysir frá Sigtúni.

Ég er þeirrar skoðunar að menn séu stundum að gera of miklar kröfur til Gustsafkvæma með reisingu og höfuðburð. Hálsbyggingin á þeim mörgum er þannig að þau geta verið svo klúr fram og kjálkaþykk og alls ekki nógu vel klipin í kverk.  Ég held að menn séu að ætla þeim um of í höfuðburði. Þannig er auðvitað hætta á að fá þau á móti sér.

Þau hross undan Gusti sem eru vel gerð fram eru mjög góð í beisli, það segi ég hiklaust. Tjörvi minn er einn af þessum sem er erfiður fram í kverkina, og ég lenti í basli með hann. Hann var mikið reistur og viljugur og ég fékk hann alltof mikið í hendina. Ég vil ekkert síður skrifa það á mig en Gust, ég ætlaði honum einfaldlega of mikið, of ungum.

Það verður seint sagt um Gust að hann sé mikill hagaljómi.  Ég tel mig þó muna það rétt að ég hafi aðeins teymt eitt hross undan honum í byggingardóm sem ekki fékk  meira en 8 fyrir byggingu. Það er raunar fyrrnefndur Tjörvi. Þetta er kannski stórmerkilegt , en helgast raunar af skýranlegum þáttum, því fótaeinkunnir eru yfirleitt góðar hjá Gustsafkvæmum, og raunar má segja að þau skeri sig úr fyrir réttleikann, þar er Gustur með allra sterkustu hestum.

Gustur hefur gengið í gegnum það sama og flest allir stóðhestar. Þótt byrinn hafi oft blásið með honum, þekktist hitt líka. Það þurfti nú ekki alltaf að vera á tánum að komast undir hann með hryssur sínar. 1998 héldum  við feðgar undir hann sex hryssum, en þá var hann bara í hálftómri girðingu. Það ár kom fyrsta afkvæmi hans í dóm, hin 4ra vetra gamla Þoka frá Akureyri  sem  menn muna frá Landsmótinu á Melgerðismelum. Árið eftir kom svo Snilld frá Ketilsstöðum, og varð hæst dæmda 4ra vetra hryssan það árið. Svo fóru tryppin að koma hvert af öðru, og snarjókst nú aðsóknin. Brátt þurfti að setja á kvóta, og svo langt gekk það að ég var útilokaður eitt árið!

Eins og víða hefur komið fram entist Gustur illa sem stóðhestur, og hann er nú hættur að fylja. Fyrir þremur árum fór ég með tvær hryssur undir hann samt sem áður, og það var ekki að spyrja að því að hólfið var fullt hjá honum, 25-30 hryssur. Af þeim fyljaði hann aðeins þrjár – og ég átti tvær þeirra. Ég sagði við vonsvikna félagana – þá sem á sínum tíma  höfðu lagst gegn kaupunum á hestinum eins og fyrr sagði – að þarna væru æðri máttarvöld að verki: Guð sæi um sína!

Gustur frá Hóli er að vissu leyti tímamótahestur í hrossarækt, á því finnst mér ekki leika vafi.  Ég hefði raunar viljað sjá fleiri vinsæla syni hans. Klettur frá Hvammi virðist hafa náð mestri hylli. Hann hefur þetta yfirburðarými á brokki, en töltið er kannski ekki eins einkennandi fyrir Gustsafkvæmi og æskilegt hefði verið fyrir merkisbera.

Kannski er sagan að endurtaka sig. Er það ekki líkt með langfeðgunum Hrímni frá Vilmundarstöðum, Gáska frá Hofsstöðum og Gusti  frá Hóli að fáir arftakar eru beint í sjónmáli að leiðarlokum? Gáski var orðinn fullorðinn þegar Gustur kom fram, og það virðist ekki margt benda til þess að synir Gusts berjist um hylli ræktenda. Gáski og Gustur hafa þó báðir hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og tryggt framtíðaráhrif sín í hrossarækt landsmanna.“

Hér lýkur viðtalinu við Berg Jónsson.

 

Dómur sögunnar

 

Undir þessu síðustu orð Bergs Jónssonar er auðvelt að taka og af sannfæringu. Síðasta  sannindamerki þess sá greinarhöfundur um “landsmótshelgina” á Vindheimamelum á dögunum, þegar tveir Flugumýrarhestar, hvor undan sínum Gustssyninum, hömpuðu gullverðlaunum í 4ra og 6 vetra flokki – hinn yngri glæst gæðingsefni, sá eldri fullmótaður og gammvakur gæðingur í besta flokki. Hvorugur þessara hesta er tilkominn fyrir tilviljun: Flugumýrarbóndinn Páll Bjarki Pálsson hafði haft langafann Gáska til reiðar á sínum tíma og sú reynsla ræður því að þar á bæ er markvisst sótt í Gáskablóð.

Það er því aðeins til að fylgja margboðuðum varfærnissjónarmiðum sem minnt er á að aðeins sagan fellir endanlegan dóm um kynbótagildi og heildaráhrif undaneldishrossa. Þar koma engir brekkudómar við sögu, hvorki til lofs né lasts. Vísindalegir útreikningar á kynbótamati horfinna góðhesta verða þá gufaðir upp í blámóðu fjarskans.  Illgirnis- og öfundarraddir munu hljóðnaðar, sömuleiðis gagnrýnislaus erfðahylling. Sjálfskipaðir snillingar og besserwisserar hafa snúið sér að öðrum og meira aðkallandi verkefnum. Sanngjörn niðurstaða verður ekki umflúin.

Ég hef tröllatrú á því að einnig sú niðurstaða, dómur sögunnar, muni verða Gusti frá Hóli í vil, hvar sem hann lendir í röð þeirra jöfra sem mest og best áhrif hafa haft á þeirri öld sem liðin er síðan hafið var skipulegt starf að kynbótum íslenska hestsins.

 

 

 

Með fjaðraþyt og söng

 

Undirritaður lauk við ritun þessarar greinar norður í Skagafirði í þeirri sælu viku sem ætluð hafði verið til að halda Landsmót 2010 á Vindheimamelum. Nægur tími gafst til skrafs og skrifta. Það er ekki að orðlengja það að  einn daginn var lokið við greinina og punkturinn settur aftan við. Við Magga mín ákváðum að fara á bæjaflakk. Forvitni rak okkur heim á afvegi og bakása, sem  ekki blasa við af rennisléttu malbikinu. Og  hvaða sjón haldið þið, lesendur góðir, að  blasi við okkur, þegar við förum að sjá heim að Dýrfinnustöðum í Akrahreppi? Fannhvítur hestur dansaði yfir grund á öllum listagangi undir lítilli telpuhnátu –   tölt og brokk, fet og stökk – og svo var hleypt á skeið. Kliðmýkt í hverju spori, taglburðurinn óræk sönnun og vitnisburður um það sem orðað hefur verið í þessum skrifum og mestu skiptir í fari reiðhests: Fimi og mýkt. Var þetta par af holdi og blóði? Var okkur kannski að dreyma? Eða vorum við –  þegar allt kom til alls – komin á landsmótið?

 

Skyldu myndirnar af Gusti frá Hóli (22 vetra) og Ingunni Ingólfsdóttur (10 ára) koma til skila einhverju af því sem hér er reynt að koma orðum að? Ef svo er, er líka búið að svara spurningunni sem vakin var í upphafi lesmálsins. Það gerðu þau Gustur og Ingunn Ingólfsdóttir – sem hló að mér og hleypti hestinum á skeið.

 

 

Bjarni Þorkelsson

%d bloggers like this: