Sóttum á þriðjudaginn þrjá graðfola upp í Efstadal. Fáfnir er 3ja vetra glæsifoli undan Aroni og Klukku. Hann var aðeins fortaminn í vor, og verður nú brátt járnaður og látið reyna á hvort hann lofi ekki fremur góðu, eins og okkur hefur fundist. Funi er tveggja vetra, undan Þresti frá Hvammi og Hæru, Gustsdóttur frá Hóli og Hlakkar. Það er þegar farið að venja Funa við, þótt ungur sé – hann er stór og þroskaður og ansi hreint fallegur.
Þriðji folinn sem sóttur var er frá Snæbirni bónda, og verður nú frumtaminn hér, þó orðinn nokkuð bandvanur. Það er Krákssonur og Náðar, Núma- og Drottningardóttur frá Laugarvatni. Þetta er prúður foli og lipur í gangi að sjá.
Bjarni er nú að frumtemja dágóðan hóp af heimatryppum: 4 3ja vetra unghryssur og 6 fjögurra vetra fola. Allt fer það vel af stað, dauðþægt og meðfærilegt.
Hins vegar kom á óvart, að Bjarni fann að úlftennur voru í helmingi þessara tryppa! Hann er farinn að gaumgæfa það áður en hann setur beislið upp í, og eins og sjá má af þessu hlutfalli er full ástæða til þess. Sveinn dýralæknir kom og gerði að þessu, svo nú ætti öllu að vera óhætt.
Bjarni er þessa daga að skila þremur tryppum úr tamningu: Jarpri hryssu gangtregri sem kom hér í liðkun og endurhæfingu, rauðum fola undan Axel frá Lindarbæ og brúnskjóttum sonarsyni Galdurs okkar. Þessir tveir síðastnefndu koma ofan úr Laugardal. Allt hefur þetta gengið samkvæmt áætlun, enda aldrei slegið slöku við.