Af Þóroddsstaðahrossum er það að segja, að aðeins Vera gerði gilt hjá Bjarna á minningarmóti um Tómas Ragnarsson sem haldið var á Selfossi í dag.
Tíminn á Veru var 14,75, og þriðja sætið staðreynd. Gletta frá Bringu var fyrst á 14,53, knapi nú var Ragnar Tómasson. Annar varð Veigar frá Varmalæk (sagður á Hestafréttum frá Ólafsbergi!) á 14,59 (knapi Teitur Árnason). Gammur frá Svignaskarði varð fjórði á 14,9 (knapi Daníel Ingi Smárason), fimmti Óðinn frá Búðardal á 15,16 (knapi Sigurbjörn Bárðarson), sjötta Gjálp frá Ytra-Dalsgerði á sama tíma, 15,16 (knapi Guðmundur Björgvinsson). Raunar virtist vefjast fyrir kappreiðadómnefndinni að úrskurða um sætaskipanina í þessum síðustu verðlaunasætum. Allir gamlir kappreiðamenn vita hins vegar að tíminn sem fyrr náðist, er talinn „betri“ og á það að ráða úrslitum hvað röðina varðar – þ.e. ef ekki er hægt að raða eftir tímanum á hinum sprettinum, eða þeir jafngildir einnig (t.d. ógildir sprettir eins og nú var).
Í 250 m skeiði náðist feikna góður tími. Í fyrsta sæti varð Blængur frá Árbæjarhjáleigu á 22,02 (knapi Daníel Ingi Smárason), annar varð Flosi frá Keldudal á 22,38, þriðji Hörður frá Reykjavík á 22,89 (knapi Daníel Smárason), fjórði Andri frá Lynghaga á 23,31 (knapi Sigurbjörn Bárðarson), fimmta Númadóttirin Perla frá Skriðu á 23,42 (knapi Guðmundur Björgvinsson).
Í 100 m skeiði var höggvið nærri Íslandsmeti Drífu frá Hafsteinsstöðum (7,18). Besta tímanum náði Hörður frá Reykjavík á 7,20 (knapi Daníel I. Smárason). Önnur varð Ísabel frá Forsæti á 7,32 (knapi Ragnar Tómasson). Þriðji Blængur á 7,58, fjórði Korði frá Kanastöðum á 7,61 (knapi Teitur Árnason), fimmti Andri frá Lynghaga á 7,63.
Í þeirri umræðu um Íslandsmet sem fram fer þessa daga, langar mig að spyrja: Hvað er orðið um meintan mettíma Kolbeins frá Þóroddsstöðum, sem náðist á úrtöku fyrir HM 2007? Sá tími hljóðaði uppá uþb. 21, 7 sekúndur, ef ég man rétt. Ekki þyrfti að tefja mótahald með viðlíka hætti og þarna var gert, ef þessir hlutir lægju fyrir svart á hvítu hjá L.H. – og um það ætti sannarlega að vera hægt að gera kröfu.