Það voru frábærar aðstæður til kappreiðahalds í dag á Kjóavöllum, molluhiti og hægur andvari. Tímarnir voru eftir því, sérstaklega í 150 m skeiðinu.
Fyrirkomulagið hjá Andvaramönnum var gamalkunnugt, tveir sprettir hvorn daginn. Hryssurnar okkar gerðu það gott strax í fyrsta og öðrum spretti á laugardaginn. Hera fór á 23,01 í 250 metrunum, en í 150 m skeiðinu fór Hrund á 14,95 og Vera á 14,45 – og var önnur eftir daginn. Óðinn hjá Didda fór á 14,13 í þessum fyrri spretti, undir gildandi Íslandsmeti. Og þótt Óðinn héldi forystunni á sunnudaginn, mátti nú engu muna að Vera velti honum úr sessi, þessum frábæra afrekshesti sem varla hefur tapað spretti í mörg herrans ár (minni þó á skeiðkeppni Meistaradeildar í vor). Og þótt Óðinn tapi vart spretti, þá hefur hann nú orðið að lúta í lægra haldi fyrir Veru í sumar, m.a. á Íslandsmótinu á Selfossi. En þá hafa þau sumsé ekki lent saman í riðli, og þannig reynt með sér til þrautar.
Og þá er að segja frá þessum magnaða spretti á sunnudaginn. Síðasti riðillinn í 150 m var kallaður fram. Þar voru þrjú hross, þau sem bestu tímana höfðu hlotið: Óðinn frá Búðardal, Vera frá Þóroddsstöðum, Veigar frá Varmalæk. Strax úr fyrstu sporum var ljóst að hér yrði ekkert gefið eftir. Hleypt var á fullt stökk. Óðinn og Vera virtust hnífjöfn af stað. Niðurtakan heppnaðist fullkomlega, og hrossin skeiðuðu samsíða allan völlinn. Veigar fylgdi þeim eins og skugginn, en átti enga möguleika í dag. Á marklínunni var Óðinn með hausinn á undan Veru, hvorki meira né minna. Það var í rauninni líkast því að betur stæði á spori hjá Óðni, svo mjóu munaði. Þetta sést vel á marklínumynd, sem Jónína tímavörður sendi okkur í kvöld. Hrossin hlupu bæði undir gildandi Íslandsmeti, Óðinn á 14,09 en Vera á 14,14. Veigar varð svo þriðji á 14,59.
Kappreiðar verða á Selfossi um næstu helgi, og nokkur óvissa um þátttökuna þar. Þá er nefnilega fjallferð í Grímsnesi, og ætlunin var að Bjarni færi fyrir Þóroddsstaði, eins og undanfarin ár. Við sjáum hvað setur. Ljóst er að allt getur gerst á kappreiðavellinum, og erfitt frá að hverfa nú þegar hæst hóar.