Fórum í kvöld í Mosfellsbæinn á kappreiðar. Bjarni var að þessu sinni með „þrjár til reiðar“.
Vera hélt sínu striki og vann 150 m skeiðið, tíminn var 15,04. Hrund varð þriðja á 15,36, en á milli þeirra var sjálfur Óðinn frá Búðardal (knapi Sigurbjörn Bárðarson) á 15,12. Í fyrri spretti runnu þau alveg samhliða Óðinn og Hrund, Óðinn á 15,32 og Hrund á 15,36. Hera fór sína fyrstu spretti í 250 m skeiði. Fyrri sprettinn fór hún á 24,7, en þann seinni á 23,1. Það dugði í þriðja sætið.Sigurvegari varð Korði frá Kanastöðum (knapi Teitur Árnason) á 22,96. Annar varð Birtingur frá Selá (knapi Sigurður Matthíasson) á 23,01. Upp kom sterkur kvittur um að brautin hlyti að vera of löng, harðastur á því var Árni kvóti. Hann heimtaði að brautin yrði mæld, og viti menn! Hún reyndist 40 cm of löng. Hverju skyldi þá muna á tímanum? Bjarni fór svo með Hrund í 100 m skeiðið (á laugardag) – vildi ekki jaska Heru meira út að sinni. Hrund fór á 8,13. Það er nokkuð ljóst að hennar grein er 150 m skeið, þar er hún skæðust. Annars náðust ævintýralegir tímar í 100 metrunum: Ísabel frá Forsæti fór á 7,22 (knapi Ragnar Tómasson), en Hörður frá Reykjavík var skammt undan á 7,28 (knapi Daníel Ingi Smárason). Nú höfum við skráð í Hafnarfjörðinn, það byrjar strax á miðvikudaginn. Vonandi verður eins gott hljóð í mér þá!