Gerist ekkert frásagnarvert á hrossabúi svona hversdags?
Kannski, kannski ekki. Þessa dagana er tamið og þjálfað, ekki vantar það. Bjarni er nú búinn að járna allar 4ra vetra merarnar sem hann fortamdi svolítið í fyrra eða gerði reiðfærar. Stefnt er að því að þær verði í sumar orðnar vel undirbúnar fyrir veturinn, og kannski farnar að sýna sig nóg til þess að meta hversu líklegar þær eru. 5 og 6 vetra tryppi eru mörg á járnum hjá þeim bræðrum. Ég fæ oft ágætar fréttir af tryppum sem Þorkell temur á Skúfslæk, og sé til hinna hjá Bjarna. Eldri hross eru ýmist þjálfuð af þeim bræðrum eða þeim gamla, sem er búinn að vera nokkuð seigur við að teyma að undanförnu. 6 eða 7 tryppi teymast nú á báðar hendur, sem ekkert kunnu að teymast í síðustu viku! Ég stefni að því að halda ótrauður áfram við verkefnið þegar gefur til útreiða frá heyskapnum – sem er ekki hafinn hér á bæ, en bráðliggur nú á að hefjist senn. Skyndilega eru öll tún kafloðin, eftir að fór loks að rigna í vikunni. Það er ótrúleg breyting á nokkrum dögum, líka á allri útjörð. Ég ætla ekki að láta eftir mér að sýta ástandið, en óneitanlega er það fremur ónotalegt að vera ekki búinn að ná nokkru strái og júlímánuður búinn. Árferðið er ólíkt – í fyrra var allur heyskapur búinn 28. júlí!