Það var áhrifamikil og falleg stund á LM 2011, þegar eiganda hæst dæmdu hryssu landsmótsins voru afhent einhver glæsilegastu verðlaun allra tíma, Þorkelsskjöldurinn.
Hann er gefinn til minningar um Þorkel Bjarnason á Laugarvatni, sem gegndi stöðu hrossaræktarráðunautar um 35 ára skeið (1961-1996). Skjöldinn afhenti alnafni Þorkels og sonarsonur, Þorkell Bjarnason á Þóroddsstöðum, en við honum tóku eigendur hæst dæmdu hryssunnar, Þóru frá Prestsbæ, sem setin var af Þórarni Eymundssyni.
Gefendur þessa verðlaunagrips eru Hrossaræktarsambönd og samtök um gervallt land, en gripinn fágæta smíðaði listakonan Sigga á Grund.
Greinargerð gefendanna var svohljóðandi:
„Þorkell Bjarnason
Þorkell á Laugarvatni starfaði fyrst sem dómnefndarformaður á Fjórðungsmótinu á Gaddstaðaflötum 1961. Hann var í kjölfarið ráðinn landsráðunautur í hrossarækt, og gegndi því starfi til ársloka 1996.
Þorkell var búfræðikandidat frá Hvanneyri og hafði þegar á þessum árum öðlast viðurkenningu sem góður hestamaður, enda uppalinn á hestbaki. Hann jók markvisst kynni sín af hestamönnum, ræktendum og hrossunum sjálfum, lagði raunar kapp á fundahöld og heimsóknir til hestamanna vítt og breitt um landið.
Þorkell var afar hestglöggur og stálminnugur á hross og hrossaættir. Með því sem að framan var talið, vakti það traust á dómgreind hans. Kynbótadómar og sýningar um allt land var þungamiðja starfsins, og í fyrstu var starfsaðstaðan gjörólík því sem nú tíðkast. Komið var á hvern bæ þar sem hrossa var von, og hrossin dæmd á afleggjurum og hentugum túnblettum.
Það kom snemma fram í áherslum Þorkels að hann lagði mikið upp úr fjölhæfni í gangi – hann leit á það sem erfðaauðlind sem skyldugt væri að varðveita, rétt eins og litafjölbreytni sem dæmin sanna að er nú mikils virði. Margir urðu til að andæfa þeirri áherslu sem Þorkell lagði á alhliðahesta og fljúgandi vekringa. En tíminn hefur reynst stefnu Þorkels hallkvæmur, því nú er almennt viðurkennt að töfrar töltsins, sem er aðall íslenska hestsins, eru verulega undir skeiðinu komnir.
Í byggingunni vildi Þorkell leggja áherslu á fótagerðina – sterka,rétta fætur og góða hófa – og svo hálsbygginguna. Lengri, grennri og reistari háls ásamt léttari og fegurri hestgerð, það var draumsýn Þorkels.
Þorkell leit svo á hrossakynið íslenska væri eitt kyn, sem bæri að kynbæta með því að leiða saman bestu einstaklingana, en varast skyldleikarækt. Til að ná framförum fór Þorkell smám saman að herða kröfurnar og þyngja dómana.
Það er ótvírætt til marks um áhrif Þorkels að tekist hefur að rækta bráðsnjalla vekringa sem hafa úrvals klárgang – flugvakra klárhesta. Það hafði lengi verið draumsýn Þorkels og má hiklaust telja einn merkasta árangur af starfi hans.
Í umfjöllun um störf Þorkels að málefnum hrossaræktarinnar, er óhjákvæmilegt að minnast á þrjú hugarfóstur og seinna fósturbörn hans. Fyrst nefni ég Stóðhestastöðina, sem rekin var í aldarfjórðung og markaði tímamót í uppeldi og umhirðu stóðhesta, tamningu og þjálfun.
Annað var afkvæmarannsóknir á stóðhestum, sem starfræktar voru um árabil til þess að fá sem allra fyrst vitneskju um gildi þeirra til framræktunar. Alls voru um 90 stóðhestar rannsakaðir á þennan hátt, allt þar til Blup – kynbótamatið tók yfir hlutverkið. Þriðja fósturbarnið sem hér verður nefnt er Stofnverndarsjóður, sem hafði þann tilgang – eins og nafnið bendir til – að tryggja forkaupsrétt hrossaræktarsambanda og lána þeim fé til kaupa á kynbótahrossum sem annars kynnu að vera seld úr landi. Þetta var Þorkeli hjartans mál, og sjóðurinn gegndi um árabil mjög mikilvægu hlutverki að þessu leyti. Stofnverndarsjóður er nú um stundir mjög öflugur og gegnir lykilhlutverki í stuðningi við rannsóknar- og þróunarstarf í hrossarækt, nú síðast fyrsta doktorsverkefnið við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.
Þorkell Bjarnason gegndi starfi hrossaræktarráðunautar í 35 ár eða lengur en nokkur annar.
Áhrif hans og framtíðarsýn eru alls staðar sjáanleg í hrossaræktinni, nú þegar 50 ár eru brátt liðin frá því að Þorkell hóf störf sem landsráðunautur í hrossarækt. Góð hryssa er undirstaða í starfi hvers ræktanda og það er sannarlega vel við hæfi og í réttum anda að eigandi hæst dæmdu hryssu á landsmóti hljóti verðlaun kennd við Þorkel Bjarnason.“