Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands var haldinn í kvöld. Fremur fátt var mætt, þrátt fyrir mjög áhugavert erindi um sumarexemrannsóknir Keldnafólks, gang mála og stöðuna í dag.
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir hafði framsögu um efnið, en Vilhjálmur Svansson var þarna líka staddur til skrafs og ráðagerða ef svo má segja. Margt hefur áunnist og styttist óðum í að raunverulegur árangur líti dagsins ljós, þ.e. að hægt verði að búa til bóluefni sem lækni og fyrirbyggi sumarexem. Nú er staðan í peningamálunum hins vegar þannig, að vandséð er hvernig hægt er að halda þessu starfi gangandi. Ómögulegt er að hugsa sér að annað en að fleyta þessu yfir erfiða hjalla, að minnsta kosti leit aðalfundurinn svo á í kvöld: Samþykkt var að styrkja verkefnið um 6 milljónir króna, og sýna þannig fordæmi sem eftir yrði tekið. Er þetta auðvitað til marks um það hversu gríðarlegt hagsmunamál er hér á ferðinni, en einnig vitnar það um styrka fjármálastjórn undangenginna ára – og framsýni og skynsamlega forgangsröð þeirra sem forystu hafa haft í málefnum Hrs.Suðurlands um árabil.
Annars má geta þess til gamans að engin Flóamennska réði ríkjum á fundinum að þessu sinni, og í skeytum ætluðum fjarlægum systursamtökum heyrðist jafnvel orðbragð sem minnti á kveðskap Bólu-Hjálmars til sveitunga sinna í Akrahreppi:

Félagsbræður ei finnast þar
af frjálsum manngæðum lítið eiga,
eru þar flestir aumingjar
og illgjarnir þeir sem betur mega.

%d bloggers like this: