Nú stendur fyrir dyrum – þann 19. mars – reiðhallarsýning í Rangárhöllinni á Gaddstaðaflötum. Þar er fyrirhuguð sýning á nokkrum afkvæmum Þórodds. Á þriðjudaginn vorum við þar á æfingu og sáum Grunn frá Grund og Von frá Þóroddsstöðum stimpla sig rækilega inn í þá sýningu, og nú var komið að því að húsvitja út í Árnessýslu.

Við Daníel Jónsson ókum fyrst að Grænhól og hittum Gunnar bónda og tamningafólkið. Bylgja Gauksdóttir sýndi okkur svo Arnodd frá Auðsholtshjáleigu. Það var ljóst strax úr fyrstu sporum að hér fór einstakur gæðingur, afar líkur föður sínum. Hann er listavel taminn, gegnmjúkur, hágengur, skrefagreiður og tandurhreinn á öllum gangi.
Næst var ferðinni heitið að Hólum í Stokkseyrarhreppi, þar er í tamningu hjá Steindóri bónda grá hryssa, Þórey frá Fróni. Hún er viðburðagóð að verða, aðeins á fimmta vetri.
Að lokum renndum við upp að Langholti til Erlings og Viðju. Erlingur sýndi okkur Hvessi frá Ásbrú. Hvessir fer síbatnandi, og ekkert þyngdist brúnin á Daníel þegar hann þáði boð Erlings að ríða honum heim.
Þessi ungu hross eiga margt sameiginlegt og standa í rauninni öll vel undir framangreindri lýsingu á Arnoddi, þótt vissulega sé hann lengst kominn.
Stefán Pálsson hringdi og sagði gott af tveimur hryssum sínum, Þóroddsdætrum, sem nú eru tamdar af Brynjari Stefánssyni. Einnig hringdi Magnús Matthíasson og sagði efnilega og laglega rauðblesótta glófexta Þóroddsdóttur sína á fimmta vetri. Stefni að frekari húsvitjunum á næstunni.
Já, ég verð að segja eins og stundum áður: Það var hálfgaman að því.

%d bloggers like this: