Það var draumafæri í dag, og fer nú að færast fjör í leikinn.
Í bili tekur því þó ekki að minnast á yngstu tryppin, enda eru þau mest æfð innivið ennþá. Get ekki stillt mig um að minnast á tvær rauðar frænkur, Þóroddsdótturina Eldingu og Þyrnisdótturina Dís. Elding er að verða stórflott (þetta orð notaði afi minn Bjarni á Laugarvatni um Ljósbrá frá Hruna á LM 1966!), frjáls og fönguleg á töltinu, höfuð í lóð – brokkar svo og skeiðar af miklu öryggi. Dís er alltaf að batna, ég hef ekki séð hana tölta svo vel fyrr, algjörlega tárhreint og dillandi mjúkt.
Mínir klárar voru eftir vonum, að minnsta kosti fer vel um mig á þeim. Teymi að vanda með mér og hreyfði þannig samtals 9 í dag. Ég styrkist alltaf í bakinu og hef ekki verið betri um langa hríð – kannski ekki síðan ég greindist fyrst með brjósklos sumarið sem ég varð 16 ára – það eru um 40 ár síðan það var!
Snæbjörn í Efstadal kom við í dag og segir góðar fréttir af folum sínum, sem verið er að temja á Ingólfshvoli. Þeir eru undan og út af Von frá Laugarvatni, sem við seldum honum á sínum tíma. Einkum er vel látið af brúnblesóttum fola undan Hróðri frá Refsstöðum, sem ég veit að er fallegur. Langar til að skoða hann betur við tækifæri.