Þótt hart væri undir fæti og reiðfærið því ekki uppá það allra besta, vorum við Ragnheiður sannfærð um það í dag að við værum vel ríðandi, hún á Ígli sínum og ég, gamlipabbi, á Vísi og teymdi skeiðdrottninguna Hrund.

Annars er það að frétta að Þorkell var hérna í nokkra daga fyrir og eftir jólin og járnaði drjúgt, auk þess að færa margt til betri vegar með sínum smiðshöndum – enda leikur allt í höndunum á honum, tré og járn. Bjarni er búinn að vera iðinn við kolann í allt haust og hefur tamið hátt á þriðja tug hrossa síðan í september, ýmist heimatryppi eða aðkomuhross. Hann er í smá fríi núna, fór til Lundúna með Freyju sinni og þau ætla að vera þar fram yfir áramót. Ég stefni á að skrifa helst nokkuð reglulega smáfréttir af framvindunni – við sjáum svo til hvernig til tekst.
Camilla ætlar að taka Veru og þjálfa hana í vetur suður í Keflavík og Þorkell ætlar einnegin að taka hest til þjálfunar. Kannski verður orðið ljóst hver verður fyrir valinu næst þegar ég sting niður penna (er ekki allt í lagi að halda sig við þetta orðfæri, þótt ég sé löngu farinn að hamra allt á tölvu?)

%d bloggers like this: