Tókum þátt í A-flokki og skeiði á lokaspretti Andvara um helgina. Von Þóroddsdóttir var fyrsta hross í braut í A-flokki á laugardagsmorgun kl. 8. Hún átti mjög góða sýningu hjá Bjarna og fékk 8,38 í einkunn. Það var svo ákveðin spenna allan daginn, raunar alveg fram á síðasta hest, hvort það dygði í B-úrslit.

Og það varð nú raunin, en litlu mátti muna. 8.-9. sætið var niðurstaðan. Í úrslitunum var hún á góðri leið með að tryggja sér annað sætið, þegar hún sprakk upp af annars frábærum skeiðspretti – sem þegar var orðinn óþarflega langur. Camilla og Hylling tóku því annað sætið, öryggið uppmálað . Sigurvegarinn varð Máttur frá Leirubakka, ákaflega jafnvígur og góður klár (graðhestur) hjá Sigga Matt. Hann klifraði síðan alveg upp i annað sæti í úrslitum daginn eftir. Annað Þóroddsbarn var í þessum B-úrslitum, Rómur frá Gíslholti (8,44), líka sex vetra (eins og Von). Þau eru bæði mjög efnileg keppnishross, sem ég trúi að eigi eftir að láta að sér kveða á þessum vettvangi. Sömu sögu er að segja af bróður þeirra, Grunni frá Grund (8,24), sem kynnti sig vel í forkeppninni, þótt skeiðið tækist nú ekki sem skyldi . Það er ástæða til þess að vekja athygli á því að dómararnir voru ótrúlega oft samstíga að þessu sinni, þótt stundum slægi út í fyrir þeim, einkum út af skeiði (fjórtaktur o.s.frv.). Þennan hóp mætti eflaust þjálfa til ennþá meiri afreka, ég hef fulla trú á því. Gunnur gamla fór á 15,3 í 150 m hjá Þorkeli. Vera fór á 8,2 í 100 m hjá Camillu, en náðist ekki niður í 150 m. Hrund var öll í mínus að þessu sinni. Hún var langfyrst út úr básnum í seinni spretti, rann niður, en vildi svo ekki meir og sprakk á limminu. BÞ

%d bloggers like this: