Góðir skeiðhestar hafa löngum verið líf og yndi Laugarvatns/Þóroddsstaðafólks, allt frá því að Bjarni Bjarnason skólastjóri var á dögum. Hann átti landsmótssigurvegara í 250 m skeiði 1958 og ´62, Skuggasynina Trausta frá Hofsstöðum og Gust frá Hæli. Knapi var Skúli Kristjónsson í Svignaskarði.
Þriðji Skuggasonurinn í eigu Bjarna, Blakkur frá Gullberastöðum, varð efstur alhliða gæðinga og sigurvegari í 250 m skeiði á FM 1961 á Gaddstaðaflötum. Bjarni sat Blakk sjálfur í gæðingakeppninni – þá 71 árs – en Þorkell sonur hans í skeiðinu.

Annar Bjarni Bjarnason er eigandi og knapi Heru frá Þóroddsstöðum, landsmótssigurvegara síðust tveggja landsmóta (2014 og ´16). Á þessum mótum settu þau Íslands- og heimsmet (21,76 og 21,41 sek.). Þriðja metið settu þau á Íslandsmóti á milli landsmóta (21,75 sek.)

Nöfn afreksvekringanna frá Laugarvatni og Þóroddsstöðum eru orðin mörg. Ógleymanlegt með öllu er samspil manns og hests, þegar best tekst til – og þannig hafa orðið til kennileiti í fjölskyldusögunni. Sumt af því er ég að rifja upp þessa dagana – og þótt það verði mest skúffuskrif, langar mig að sýna Fjasbókarvinum þetta, hvað sem meira verður.

Um Þorkel Þorkelsson og Sindra frá Laugarvatni, einhvern alflinkasta skeiðhest og gæðing fyrri tíma. Sindri var sonur Silfurtopps frá Reykjadal og Fjaðrar frá Tungufelli, annarrar ættmóður Laugarvatns- og Þóroddsstaðahrossa. Sindri varð annar í A-flokki gæðinga á FM 1972 og sömuleiðis á LM 1974 – auðvitað riðinn af eiganda sínum Þ.Þ., sem þá var 15 og 17 ára:

Hátt var markið sífellt sett
er Sindra Þorkell lagði
(ég segi frá því satt og rétt)
með snöggu, léttu bragði.

%d bloggers like this: