Lauk í dag við heyskapinn – 450 rúllur, allstórar, hefur hinn vaski vélamaður Hermann í Miðdalskoti nú bundið fyrir okkur Þóroddsstaðafólk. Allt er þetta úrvalshey, amk. á mælikvarða hestamanna! Það bilaði hjá mér sláttuvél, en það tafði lítið – góður granni sá til þess. Svona eiga sýslumenn að vera þótt ég hafi tekið svo til orða að heyskap væri lokið hér á bæ. Þegar sláttuvélin komst aftur í gagnið, fór mig skyndilega að langa til að nota hagstætt tíðarfar – og sló á Neðra-Apavatni þó nokkra hektara sem hafa ekki verið slegnir í áratugi! Auðvitað var þetta mosi og sina í bland, en rúllurnar urðu aðeins á annað hundraðið. Nærri 60 komu heim á Þórodd, hitt hirtu Ketilvallasystur fyrir að rúlla. Rúllurnar á Þórodd eru nú farnar að losa 500, sennilega eru hér til 525 rúllur ef fyrningar eru meðtaldar.
Það er annars umhugsunar- og frásagnarvert hve Ketilvallasystur eru bóngóðar og alltaf tilbúnar að hjálpa til, ekki aðeins næstu nágrönnum. Þær hafa árum saman komið á sauðburði, ef þörf er á fæðingarhjálp, orðalaust og undireins, önnur hvor eða báðar – og margt fleira mætti tína til.
Gerði eitt sinn þessa vísu af þessu tilefni, Hún hefur bara verið til heimabrúks til þessa, en ég læt hana nú flakka á heimasíðunni:
Ýmsir trúa á æðri mátt
og æpa: Jesús Kristur.
En kalli ég þá koma brátt
Ketilvallasystur.
BÞ.