Sigur í Meistaradeild – Bjarni Bjarnason og Hera frá Þóroddsstöðum bættu skrautlegri fjöður í afrekshatt sinn í gærkvöldi, þegar þau báru sigurorð af keppinautum sínum í flugskeiði (hallarskeiði) Meistaradeildar í hestaíþróttum.

Tíminn var 5,97, sprettfærið sagt 75 metrar. Aðstæður voru allar hinar erfiðustu, blindbylur úti og atrennan ísi lögð.
Ég get ekki stillt mig um að nefna það líka að hryssan sem varð í 2. sæti, Irpa frá Borgarnesi (tíminn var 6,0 – knapinn Davíð Jónsson) er dótturdóttir Núma frá Þóroddsstöðum.

Skammt er um liðið síðan Bjarni og Hera urðu önnur í 150 m skeiði Meistaradeildar (14,84), á hárfínt lakari tíma en sigurvegarinn (Sigurbjörn B. og Fróði), sem komu úr öðrum riðli, svo þau lentu aldrei saman. Hera lenti aftur á móti í riðli með Tuma frá Borgarhóli, þeim mikla sigurvegara í 150 m skeiði, og fór tiltölulega létt með það, þótt Tumi yrði eilítið sneggri af stað – Hera át forskotið hreinlega upp, þegar hún var komin niður. Og það er vel af sér vikið á móti svona fljótum hesti á 150 metra sprettfæri. Semsagt, þetta veit á gott!

%d bloggers like this: