Í gærkvöldi fór fram lokakeppni í Uppsveitadeild. Keppt var í tölti og flugskeiði.

Bjarni Bjarnason og Hnokki frá Þóroddsstöðum (u. Aroni Strandarhöfði og Dömu Þóroddsstöðum) stóðu sig vel í töltinu, urðu í þriðja sæti eftir harða keppni við sterka úrslitahesta. Hnokki keppti í fjórgangi og fimmgangi fyrr í vetur, og hefur nú undirstrikað fjölhæfni sína rækilega – óvíst raunar að það fari margir hestar í förin hans hvað það varðar, og er hann þó kornungur, einungis á sjöunda vetri.
Það er gaman að segja frá því að hrossin sem voru fyrir ofan Hnokka í röðinni að þessu sinni, eru bæði undan Þyrni frá Þóroddsstöðum: Þytur frá Efstadal og Þyrnirós frá Reykjavík (Minniborg). Þannig að segja má að það hafi verið þríheilagt fyrir Þóroddsstaðaræktunina að þessu sinni.

Í skeiðinu varð Bjarni sjötti á Blikku, vildi ekki fara með Heru að þessu sinni. Við erum ekki alveg vissir um að það henti vel að vera ítrekað með hana í þessu reiðhallarskeiði, svona upp á framhaldið að gera – hennar greinar eru 250 m skeið og 100 m flugskeið.
Sigurvegari í flugskeiðinu að þessu sinni var Finnur Jóhannesson frá Brekku í Biskupstungum, ungur og bráðefnilegur knapi og vel ríðandi á Tinnu frá Glæsibæ.

Bjarni varð í 2. – 3. sæti í stigakeppni knapa (21 stig), þar varð Þórarinn Ragnarsson hlutskarpastur. Og liðið hans Bjarna, BROS-liðið frá Hmf. Trausta, stóð sig vel og náði 2. sæti í liðakeppninni. Félagar hans voru Guðjón S. Sigurðsson og Halldór Þorbjörnsson, en Birgir Leó Ólafsson og Hildur Hallgrímsdóttir til vara (tóku bæði þátt í einni grein). Allir Traustaknaparnir náðu í stig að þessu sinni, og segja má að þetta sé allt á uppleið – kannski ekki langt að bíða þess að titlar komi í hús!

Flúðahöllin var þéttsetin og þarna var rækilega undirstrikað að Uppsveitadeildin á fullt erindi og er öllum aðstandendum sínum til sóma. Hugmyndin er gengin upp!

%d bloggers like this: