Það hefur gengið glatt um helgina, þótt villtustu draumar hafi kannski ekki allir ræst.
Þóroddsstaðaræktunin hefur verið dálítið í sviðsljósinu, beint og óbeint ef svo má segja.

Föstudagskvöldið var síðasta keppniskvöld Meistaradeildar í hestaíþróttum. Lokagreinin var flugskeið, og þar var okkar maður meðal keppenda, Bjarni Bjarnason á Heru sinni. Það er skemmst frá því að segja að þau tóku annað sætið, og tíminn var 6,17 sek. Meðal keppenda voru allir helstu „vekringar“ landsins, menn og hestar. Liðið hans Bjarna, Auðsholtshjáleiga, var sigurvegari í liðakeppni skeiðsins, og hafnaði í öðru sæti í heildarstigakeppni deildarinnar.

Á laugardagskvöldið var töltkeppni þeirra „allra sterkustu“ á ísnum í Skautahöllinni. Þar urðu synir Þóroddsstaðahestanna Þyrnis og Þórodds í efstu sætum: Þytur frá Efstadal og Hrynur frá Hrísdal. Segja má að langþráður draumur sé ef til vill að rætast: Að eðaltölt sé í hávegum haft. Það er ýmislegt sem bendir til þess nú um stundir, það verð ég að segja. Skyldu nú öll vötn hníga til Dýrafjarðar?

Í dag, sunnudag, keppti svo Ragnheiður mín á Þóroddsdótturinni Eldingu á vetrarmóti Trausta og Loga uppi í Hrísholti. Þær hlutu annað sætið núna, en urðu efstar á fyrsta mótinu um daginn. Satt að segja stóðu þær sig fantavel, og gátu allt eins hafa landað sigri, að mínu mati. Altént hafa þær nú geysisterka stöðu þegar kemur að þriðja mótinu, og eru líklegar til þess að standa uppi sem samanlagðir sigurvegarar, ef allt gengur að óskum.

%d bloggers like this: