Í gærkvöldi fór fram í Flúðareiðhöll keppni í fimmgangi í Uppsveitadeild. Það varð úr þessu dágóð skemmtun, eins og ævinlega – þrátt fyrir ærið misjafnan hestakost: Á þessum tímum klárhestadýrkunar, er nefnilega ekki sjálfgefið að takist að finna nægilega marga fjölhæfa og góða keppnishesta í fimmgangi fyrir alla þessa knapa í uppsveitadeildinni – og voru þó sumir á lánshestum.
Eitt af því sem er til fyrirmyndar í framkvæmd keppninnar í uppsveitadeild eru þularstörfin. Þau annast Hulda G. Geirsdóttir, skýr og skorinorð svo af ber – enda landskunn útvarpskona og hestaíþróttadómari í ofanálag, öllum hnútum kunnug, eins og vera ber.

Bjarni Bjarnason var á Hnokka frá Þóroddsstöðum, rétt eins og í fjórgangnum um daginn. Bjarni og Hnokki urðu efstir eftir forkeppnina, hlutu 6,23 í einkunn, en næstir urðu Þórarinn Ragnarsson og Sæmundur frá Vesturkoti með 6,20, í þriðja sæti Guðmann Unnsteinsson og Askja frá Kílhrauni með 6,13. Upp úr B-úrslitum hafði komið Sólon Morthens og Vörður frá Árbæ, hátt dæmdur 1. verðlauna stóðhestur, og hafði í B-úrsitunum hlotið hærri einkunn en nokkurt þeirra hrossa sem hér hafa verið nefnd, uþb. 6,40. Mjótt var þó munum, og ljóst að hart yrði barist um efstu sætin – og krafan um sanngjarna dómgæslu ofarlega í huga allra viðstaddra.
Til að gera langa sögu stutta þá urðum við Þóroddsstaðafólk afar stolt af okkar manni og hesti. Bjarni endaði í þriðja sæti með einkunnina 6,55, í öðru sæti varð Sólon Morthens með 6,69 og sigurvegarinn varð heimamaðurinn Guðmann Unnsteinsson í Langholtskoti með 6,83.
Þrír dómarar dæmdu keppnina. Hnokki fékk þessar meðaleinkunnir í úrslitunum: Hjá 1. dómara: 6,14 – hjá 2. dómara 6,71 – hjá 3. dómara 7,0.
Í umfjöllun fjölmiðla um keppnina hefur hvergi verið – og því er það gert hér – vakin athygli á þessum vægast sagt athyglisverða stórmun á einkunnum fyrsta dómara (6,14) og hinna tveggja (mt. einkunna þeirra var 6,86) – sem gerði út um það að Hnokki blandaði sér í toppbaráttuna, eins og vert hefði verið.
Það breytir þó ekki því að sigurvegararnir voru verðugir keppinautar og óska ég þeim til hamingju með árangurinn. BÞ.

%d bloggers like this: