13. júlí 2013
Í nýlegri yfirlýsingu frá Fagráði í hrossarækt er fátt um svör við spurningum okkar félaga, og lítt brugðist við eða afstaða tekin til fjölþættra athugasemda, eins og þó er óskað eftir. Því fögnum við þó, að málið skuli sett í ákveðinn farveg og að tekin skuli af tvímæli um að heildarendurskoðun kynbótastarfsins fari fram í kjölfar þeirra atvika sem orðið hafa.
Tekið skal undir það sjónarmið Fagráðs í hrossarækt að kynbótastarfið byggi á „traustum grunni og vönduðu skipulagi fyrri forsvarsmanna í hrossaræktar starfinu“ – svo notuð sé stafrétt útgáfa Fagráðs. Vonandi er það sameiginlegur skilningur hrossaræktenda og Fagráðs, að sé þessi arfleifð í hættu, þá stafi það ekki af ósanngjarnri gagnrýni eða ástæðulausum árásum utanaðkomandi aðila eða þiggjenda þeirrar þjónustu sem veitt er – heldur innanmeini á borð við það sem opinberast hefur. Þessi skilningur á aðsteðjandi vanda er lykillinn að því að takast megi að breiða yfir það sem orðið hefur. Það er líka lykillinn að því sem er enn meira um vert: Að áleiðis snúist í því stóra nauðsynjamáli að bæta og samhæfa dómana almennt, bæta vinnulag og andrúmsloft við kynbótadóma, skerpa skilning á þjónustuhlutverki ráðunauta og kynbótadómara, skilgreina betur hlutverk dómnefndarformanns o.s. frv. Óhætt er að segja að ákvarðanir um skipan dómnefnda það sem eftir lifir sumars, muni gefa til kynna hvort hugur fylgir máli um þann umbóta- og sáttaanda sem örlar á í yfirlýsingu Fagráðs – og kunni jafnvel að ráða úrslitum um það hversu vel tekst að framkalla þann sáttatón, sem nú er lífsnauðsynlegur búgreininni.
Vonir má nú binda við að þessi leið verði vörðuð á boðuðu málþingi – „í samráði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri“ – og í grasrótar- og félagsstarfi á vegum Félags hrossabænda, sem getið er um í yfirlýsingu Fagráðs. Af okkar hálfu er lýst yfir fullum vilja til þess að koma þar að umræðum og tillögugerð í þeim jákvæða anda sem heppilegastur er til þess að árangur náist.
Ekki er hægt að ljúka þessum skrifum án þess að minnast á stórt ágreiningsatriði sem við hnutum um í yfirlýsingu Fagráðs, og byggist vonandi á misskilningi eða ónákvæmni af þess hálfu: Þótt ekkert í afsagnarbréfi dómarans fyrrverandi gefi til kynna að afsögn hans sé tímabundin, virðist Fagráð samt sem áður kjósa að skilja afsögnina þannig að hún gildi aðeins „þetta árið“. Sættir Fagráð sig við það að umræddur dómari snúi aftur til starfa þegar honum sýnist og hann ákveður sjálfur?

Með kveðju, Bjarni Þorkelsson, Páll Bragi Hólmarsson, Vilhjálmur Þórarinsson, Már Ólafsson.

%d bloggers like this: