Veisla í farangrinum?

Að sigla fleyi, sofa í meyjarfaðmi
ýtar segja yndið mest
og að teygja vakran hest.

Ég gat ekki stillt mig um að gera hér að upphafsorðum þá höfundlausu heimslystarvísu, sem dr. Þorvaldur Árnason notaði til að slá botninn í merkilegt erindi sitt um „gangráðinn“ í íslenskum hrossum á málstofu í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri 27. nóvember 2012 – og tók fyrir sitt leyti hressilega undir með skáldinu um fyrst- og síðastnefnda yndið, en kvaðst vera búinn að gleyma því sem síst skyldi og líka er nefnt í vísunni: Að sofa í meyjarfaðmi!.
Ég er ekki maður til þess að gera grein fyrir erindi Þorvaldar um þessa erfðavísindalegu uppgötvun um skeiðgenið eða gangráðinn, sem af snilld er svo nefndur uppá íslensku. Hinu vildi ég gjarnan halda til haga að Þorvaldur hóf erindi sitt á því að undirstrika að við Íslendingar ættum ómetanlega erfða- og menningarauðlind í fjölhæfa , alhliða gæðingnum – fimm gangtegundir í einum og sama gripnum – og að ekkert mætti aðhafast sem veikt gæti þá sérstöðu eða sett í nokkra hættu.

Og nú er ég sumsé búinn að gera grein fyrir því – í öfugri röð – hvernig Þorvaldur hóf sitt mál og hvernig hann lauk því. Ætla mætti að þessar umbúðir séu ekki valdar af handahófi, og að í þær megi sækja nokkra leiðbeiningu um það hvernig með varninginn skuli fara. Kannski væri rétt að skrifa BROTHÆTT utan á pakkann? Nei, ég segi svona.

Ég verð að viðurkenna það: Við vissar aðstæður verð ég eins og gamall Fergusontraktor með bilaðan startara – eða kannski bara ónýtan rafgeymi. Svoleiðis hef ég lúrt að hlöðubaki um alllanga hríð og verið hálffeginn því að vera ekki dreginn í gang til þess að taka þátt í brokkgengri og lágreistri umræðu um meinta aðför að klárhestum og svokallað „ræktunartakmark Fagráðs“.

Þessi umræða hefur raunar farið um víðan völl, sennilega fast að því í tvö ár. Fyrir henni stóðu lengi nafnlausir bloggarar og skillitlir menn sem láta sér hvaðeina um munn fara á kaffistofum og ölknæpum – en líka vel meinandi og orðhvatir áhugamenn sem sjást þó lítt fyrir og skeyta hvorki um rök né rætur. Þessi umræða hefur að sumu leyti verið rekin áfram af fjölmiðlum, hóað og sigað og hvatt til þess að glefsað sé í hæla.

Ekkert af þessu hefur sumsé ýtt við mér neitt að ráði, þótt efnið sé hjartfólgið og eflaust sé mér líka ætlaður sá tónn sem Fagráðsmönnum hefur verið sendur vegna sinnar samfélagsþjónustu.
En þegar virtir hrossaræktendur stíga fram og gera þennan málflutning að sínum – hrossaræktendur sem eru margverðlaunaðir fyrir ræktun fagurskapaðra gæðinga, flestra alhliða gengra og flugvakurra, í fullu samræmi við „ræktunartakmark Fagráðs“, svo gripið sé til tilvitnunar, sem beitt hefur verið í háðungarskyni, þótt auðvitað sé að Fagráð á sér ekkert ræktunartakmark annað en það sem stuðst hefur verið við opinberlega í hálfa öld – þá fer að verða mál til komið að athuga hvort gamli Ferguson geti ekki orðið að einhverju gagni. Þótt ekki sé til annars en að minna á, í hverju breytingin fólst sem óróanum veldur, breyting sem fullgild rök lágu til þess að gera og erfitt var að standa á móti á málefnaforsendum, hvað sem sérstökum áhuga einstakra Fagráðsmanna leið: Að auka og gera gildandi vægi fets, einnar af fimm gangtegundum íslenska hestsins, og sannað er að hefur arfgengi á við aðrar gangtegundir.
Ætlaðan hliðarávinning má svo kalla hestvænni og átakaminni sýningar, og tækifæri til að dæma vilja og geðslag af meira öryggi. Um þetta snerist málið. Það heyrist aldrei nefnt í umræðunni nú og virðist löngu gleymt, á meðan hamrað er á því að verið sé að níðast á klárhestum. Að það hafi verið tilgangur Fagráðs í hrossarækt er auðvitað fjarri öllum sanni. Í góðu samræmi við ræktunarmarkmiðin og þá fullvissu að skeið sé undirstöðugangtegund og gegni lykilhlutverki til að tryggja raungæði tölts, var svo ákveðið að færa 1% af vægi vilja og geðslags yfir á skeið – ekki til að níðast á klárhestum, heldur til að tryggja framgang ræktunartakmarksins, eins og áður sagði.
Það er svo önnur saga að þátttökulágmörk á Landsmótum hafa hækkað – og að baki þeirri ákvörðun eru líka málefnasjónarmið, vel að merkja, þótt ekki verði rakin hér. Vissulega hafa þau lágmörk takmarkað þátttöku klárhrossa á kynbótasýningum landsmóta við úrvalshross, en ekki komið í veg fyrir að þau stæðu jafnvel efst í sínum flokkum, og gildir þar einu hvort talað er um einstaklings- eða afkvæmasýningar. Fura frá Hellu og Sleipnisbikarhafinn Álfur frá Selfossi eru góð dæmi um þetta, og minna má á blússandi gengi afkvæmahestanna Þrists frá Feti (heiðursverðlaun á LM 2012), Kráks frá Blesastöðum og Eldjárns frá Tjaldhólum. Allt eru þetta hrein klárhross samkvæmt eigin kynbótadómi.
Það má svo sem rifja það upp að ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið á dómsskalanum í tímans rás, hafa komið sér misjafnlega vel fyrir ákveðnar hestgerðir, en verið gerðar eftir sem áður – af málefnalegum ástæðum og hvað sem líður stundarhagsmunum. Þetta gildir auðvitað um allar áherslu- og vægisbreytingar, sem gerðar hafa verið, ævinlega að tillögu og fyrir áeggjan dr. Þorvaldar Árnasonar, sem var primus motor nútíma vinnubragða við kynbætur á íslensku búfé og höfundur BLUPP-kerfis, sem hefur verið tekið upp í öllum höfuðgreinum íslenskrar búfjárræktar, eftir því sem ég best veit.
Skulu nú til fróðleiks rifjaðar upp nokkrar helstu áherslu- og vægisbreytingar síðustu áratuga:

1979 voru byggingareinkunnir sundurliðaðar.
1986 var vægi tölts aukið verulega, úr 10/60 í 20/70 af hæfileikaeinkunn (16,7 % í 28,6 %). Tölt hafði til þess tíma sama margfeldi og skeið, en ekki var hreyft við vægi þess.
1990 var hækkað vægi á einkunn fyrir háls og herðar, fótagerð og hófa, en lækkað að sama skapi fyrir bak og lend og réttleika.
Á hæfileikavængnum var hækkað vægi fyrir eiginleikann fegurð í reið og lækkað fyrir geðslag.
1999 – eða var það 2000? – var svo hlutfalli byggingar og hæfileika í aðaleinkunn breytt úr 50/50 í 40/60.
2010 voru svo gerðar þær breytingar á vægi fets, sem hér voru raktar – og aðrar smávægilegar.

Eins og sjá má af ofanrituðu eru menn ekkert að rjúka til og hræra í dómskalanum í tíma og ótíma, enda var sú staðfesta grundvöllur þess að hægt var að beita vísindalegum aðferðum og meta arfgengi dæmdra eiginleika. Þá hafa menn ætlað sér rúman tíma til þess að meta ræktunarleg áhrif vægisbreytinga, oftast a.m.k. 10 ár. Tómt mál er að tala um að nú sé hægt að meta ræktunarleg áhrif vægisbreytinga sem gerðar voru fyrir tveimur árum, eins og krafist hefur verið.

Nú þegar uppgötvunin um gangráðinn liggur fyrir, er óhjákvæmilegt að hún sé mátuð við allar þær hugmyndir sem menn hafa haft um hrossarækt. Þar er allt undir: Opinbera ræktunarstefnan, gagnrýni á hana, misróttækar tillögur um nýjar leiðir, ólíkar áherslur einstakra ræktenda og krafan um það að komast áfram innan kerfisins hvað sem tautar og raular.

Í fljótu bragði mætti segja sem svo að uppgötvun gangráðsins eða skeiðgensins og fyrstu viðbrögð við henni, geri allt ótryggt – loft, jörð og vatn – og raunar alla þá frumkrafta sem hingað til hafa knúið áfram hrossaræktarvélina. Víst er að margir veigra sér við því að leggja orð í belg, og segja má að fyrst og fremst hafi vaknað spurningar, sem menn bíða eftir að fá svarað, áður en lengra er haldið. Spurningar eru t.d. þessar, sérstaklega í ljósi þess hvernig fyrstu viðbrögð hljóma:

1. Hefur þessi vísindalega uppgötvun um gangráðinn sýnt fram á að við höfum farið rangt að til þessa, tafið og afvegaleitt þróun sem annars væri komin mun lengra?
2. Er meira en hálfrar aldar gamalt ræktunartakmark í uppnámi?
3. Er eitthvað sem bendir til þess að við ættum að snarbeygja af leið, í ljósi þessarar nýju vitneskju?
4. Hvaða hugmyndir höfðu erfðafræðingar um skeiðerfðir, áður en í ljós kom að þær réðust af einum erfðavísi?
5. Er mögulegt að aðrir erfðaþættir en þessi eini erfðavísir ráði einhverju um raunverulega skeiðgetu hrossa, þegar öllu er á botninn hvolft?

Ég tek það fram að ég ætla ekki að svara þessum spurningum, hvorki hér og nú né nokkru sinni – býst ég við.
Ég hef í gegnum tíðina sett ýmsa fyrirvara við kerfið, dómana, mönnun dómnefnda og framkvæmd kynbótasýninga. Ég hef og lagt ýmislegt til málanna, síðast núna um daginn á aðalfundi Félags hrossabænda. Þar benti ég, að gefnu tilefni, enn og aftur á ýmsar leiðir til að létta álagi af kynbótahrossum og breyta fyrirkomulagi kynbótadóma á Landsmótum og viðraði þann möguleika að leggja alveg niður yfirlitssýningar. Undir þetta síðastnefnda hefur verið tekið, jafnvel hraustlegar en ég átti von á, fyrst á nefndarfundi á Aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands sl. vor og síðast á Hrossaræktarráðstefnu 2012 af góðum félaga, þungavigtarmanni í hrossarækt.

Ég get alveg viðurkennt það að oft finnst mér okkar ágætu forystumenn vera aðeins of ánægðir með sínar reiknikúnstir , tölfræði og meðaltöl á meðaltöl ofan. Jafnframt eru þeir kannski stundum nokkuð fljóthuga að draga víðtækar ályktanir af niðurstöðum sem byggja að margra mati á umdeilanlegum forsendum.
Svo ég taki dæmi: Þessi kerfistrú leiðir til eilífðartogstreitu á milli markmiða um hámarksteygni í einkunnagjöf og almennrar fjöldaþátttöku í kynbótasýningum. Þessi þversögn kallar á síaukið forval, og útkomunni má líkja við Sísífosarraunir: Sísífos var karlinn í grísku goðafræðinni, sem hafði það eilífðarhlutverk að rogast alltaf með sama steininn upp á brekkubrún. Óðara en það tókst, valt steinninn svo niður á jafnsléttu. Þannig upp aftur og aftur, til eilífðarnóns. Sífellt valdari hópur kemur til sýninga, en kerfið heimtar að notaðar séu lágu tölurnar eftir sem áður – og þær hrekja frá, brennt barn forðast eldinn. Þannig upp aftur og aftur …………….
Þarna á milli þarf að finna jafnvægislínu. Að dansa á þeirri línu er mörgum kerfiskarli ansi erfitt. Sífellt betri hross eru fyrir bragðið mulin niður í skítinn, til stórskaða fyrir hrossabændur.
Ég nefni líka hér það sem sagt hefur verið um hlutfallsstöðu okkar Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum, sem rækta íslenska hestinn, að við séum bersýnilega að tapa forystunni. Þetta er sagt ofaní háværa umræðu um að dómarnir erlendis séu alls ekki sambærilegir við íslenska dóma – og altént verður það ekki hrakið að skilyrði eru þar önnur, að minnsta kosti um menntunarhæfi dómara.

Það er ekki alltaf auðvelt að stilla sér upp í hlutverki gagnrýnandans. Samt sem áður vill það nú verða ofaná, kannski alltof oft. Það má þó enginn skilja mig þannig að mér finnist ekki oft vel að verki staðið.
Þannig væri ekki nema sanngjarnt og verðugt að tala svolítið fallega um stöðuna í íslenskri hrossarækt. Hér verður ekki gripið til neinnar skrúðmælgi, en sé horft á heildarmyndina, þarf enginn að fara í grafgötur með það að allt potast þetta í rétta átt hjá okkur. Engin léleg hross sjást orðið á sýningum og hópurinn sem kalla má úrvalsgóðan stækkar nokkuð ört. Eðli málsins samkvæmt er framförin þó hægust meðal topphrossanna, og mælist þar í hænufetum fremur en stórum stökkum – og hefur alltaf gert. Glöggt sáust dæmi þess þegar gamlir sigurvegarar komu fram í skrautsýningum síðustu landsmóta – og stóðust vel samanburðinn.
Að þessu sögðu – og nú er að vita hvernig mér tekst að dansa á jafnvægislínunni, eins og sjálfsagt er að reyna, sanngirnislínu á milli gagnrýni og gullhamra:

Við erum svo heppin, hrossaræktarfólk á Íslandi, að eiga nú eins og lengst af, hámenntaða doktora, fræðimenn, skólamenn og ráðunauta í forystusveit – sem hafa vel að merkja líka þann bakgrunn sem við gerum kröfu um: Uppaldir og sjóaðir í alhliða hestamennsku, hafa kynnst öllum þáttum hennar, kunna skil á allri notkun íslenska hestsins af eigin reynslu og þýðingu hans fyrir Íslendinga frá vöggu til grafar, allar kynslóðir frá landnámi til þessa dags. Það er vissulega ekki lítil krafa sem við gerum til þessara manna. En kemur það á óvart? Nei, það ætti sannarlega ekki að koma á óvart: Þetta eru menn sem treyst er fyrir fjöreggi.

Og það eru einmitt menn af þessu tagi sem við ætlumst til að leiði umræðuna um þessar lykilspurningar sem ég spurði áðan, lykilmenn á borð við doktorana Þorvald Árnason og Ágúst Sigurðsson og hrossaræktarráðunautinn Guðlaug Antonsson. Og þótt ég tæki svona til orða hér að framan um ómælda virðingu okkar hrossabænda fyrir hámenntuðum smala- og hestastrákum og flinkum skeiðreiðarmönnum, eins og þeim sem hér voru nefndir, þá er það nú ekki okkar stíll að fara neitt niður á hnén gagnvart þeim. Og það veit ég líka að verður ekki gert í Fagráði, þar sem málin verða væntanlega til lykta leidd. Þar er valinn maður í hverju rúmi , t.d. búfjárræktarmenn í fremstu röð, tamningamenn, sýningamenn og góðbændur – og kannski tími til kominn að halda því á lofti.

En þótt sjálfsagt sé að umræðan sé leidd af okkar helstu forystumönnum og Fagráði í hrossarækt, er einmitt núna tími til kominn að draga í gang gamla og gangvissa Fergusona að hlöðubaki, til hvers sem það kann að leiða og hvað sem ágengt verður. Út í þá taktföstu dieselsálma verður ekki farið hér, enda er það í fullu samræmi við veruleikann sjálfan að þessar hugleiðingar og lykilspurningar liggi bara í loftinu um hríð.
Bjarni Þorkelsson.

%d bloggers like this: