Þegar ég var beðinn  um að standa hér í dag og halda erindi um kosti og galla Sauðárkrókshrossa, sagði ég strax að mér óaði við titlinum og  veigraði mér við því að nálgast viðfangsefnið á þessum forsendum. Mér fyndist vandmeðfarið og jafnvel óviðeigandi  og yfirlætisfullt af mér sem hrossaræktanda að standa hér og segja kost og löst á lífsstarfi þess manns sem hefur farið fyrir okkur hinum að öllu leyti, allt frá því að sögur hófust af nútíma mótahaldi.

Og sem ég er nú að hugsa þetta mál allt saman, hvernig skuli með fara, þá kemur lausnin til mín á silfurfati:  Ég á nefnilega í fórum mínum meira en 300 blaðsíðna þéttskrifað handrit að starfssögu föður míns, Þorkels heitins Bjarnasonar hrossaræktarráðunautar. Að minnsta kosti  10 % af þessum texta fjallar um hross Sveins Guðmundssonar, svo ef einhverjum hefur fundist  Davíð Oddsson vera plássfrekur í  bók Ólafs Ragnars, Sögu af forseta, þá veit ég ekki hvað menn segja um þetta.

Þarna sá ég í hendi mér að lausn væri komin á öllum vanda, og ekkert mál væri að uppfylla óskir um að tala hér um kosti og galla Sauðárkrókshrossa, tíundaða af ráðunaut eins og starfsskyldan bauð. Láta bara pabba gamla hafa orðið! Þannig yrði gulltryggt að kæmist til skila sitt pundið af hvoru, og hvergi sparað af að tína til gallana myndu þeir ætla sem lesið hafa Átakasögu hrossaræktarmannsins Sveins Guðmundssonar eftir Árna Gunnarsson: Glymja járn við jörðu.  Þar eru nokkuð rakin samskipti þessara gömlu fjandvina af sjónarhóli höfundarins. Hvað sem um þá frásögn má segja,er jafnvíst að báðir stóðu fast á sínu, í fullu samræmi við skapfestu sína og persónugerð. Og þótt fæst benti til þess á köflum að einhvers konar málamiðlun næðist í samskiptum þessara manna, er ljóst að í þeim suðupotti hefur orðið til einhvers konar samnefnari  í íslenskri hrossarækt.  Í þeim eldsumbrotum hefur orðið til það hraun, sem vér stöndum nú á, nánast  öll sem fást við að rækta íslenska hestinn, hingað og þangað um veröldina. Og nú er von að spurt sé:  Hverju reiddust þá goðin? Kannski  fást  einhver svör við því hér.

 

Í hinni merku bók Horfnir góðhestar eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp eru mergjaðar lýsingar á afrekshestum fyrri tíðar.  Ég glugga stundum í þessa sígildu bók og leyfi mér að lesa hana til skemmtunar og listrænnar upplifunar fyrst og fremst, á sama hátt og Íslendingasögurnar, en láta ekki  vangaveltur um sannfræði og staðhætti spilla fyrir á nokkurn hátt. Á einum stað segir Ásgeir frá gæðingnum Eldjárnsstaða-Blesa, sem varð svo nafntogaður að „næstum hvert barn í nálægum sveitum, sem kunni að segja pabbi og mamma, kunni einnig að segja Eldjárnsstaða-Blesi.“

Um það bil 100 árum eftir að Eldjárnsstaða-Blesi var á dögum, voru hross Sveins á Sauðárkróki á hvers manns vörum, og um sum þeirra má eflaust hafa svipað orðalag og Ásgeir gerir í Horfnum góðhestum. Síða frá Sauðárkróki, Sörli, Hrafnkatla, Hrafnhetta, Hervar, Kjarval, Otur. Enginn hestamaður sem vildi láta taka sig alvarlega gat verið þekktur fyrir að vita ekki öll deili á þessum hrossum.  Í umsögnum og eftirmælum Þorkels Bjarnasonar um þessi  hross hygg ég að komi fram flest  af því sem máli skiptir fyrir viðfangsefni mitt hér í dag, þótt óneitanlega sé stiklað á stóru og safaríkir bitar hafi slysast  undir niðurskurðarhnífinn. Í trausti þess  að enn hafi Skagfirðingar „hálfgaman af smávegis“, eins og Jón Ósmann komst að orði um sjálfan sig í  þekktri  vísu fyrir liðugri öld, langar mig  nú  að vitna beint í Þorkel, með leyfi ráðstefnustjóra.

”Það er kannski allt í lagi að rifja upp ein fyrstu kynni mín af  Sveini. Á Þveráreyrum 1954 var ég knapi á Feng frá Hróarsholti sem lenti í 6. sæti að mig minnir, en Goði  Sveins næstur honum. Það var nú einhvers konar málamiðlun býst ég við, því öðrum þræði  var búið að dæma Goða úr leik vegna þess að hann hafði verið eineistingur. Goði átti að vera svo viljugur, og víst var hann það, en hann reið á mann karlinn! – stoppaði bara klárinn hjá sér aftan á mínum klár. Það varð nú svolítið hnútukast hjá okkur útaf þessu, ég kunni ekkert við þetta. „Þarftu að vera að ríða á mann” sagði ég við hann. „Þú ættir að koma þér áfram á þessari helvítis truntu” var svarið sem ég fékk og svipnum sem fylgdi gleymi ég seint.

FM 1972 á Vindheimamelum

Efst af afkvæmahryssum var Síða 2794, Sveins á Sauðárkróki. Það fylgdi henni skemmtilegur hópur, og má segja að þetta hafi verið söguleg stund að sjá svona hóp saman kominn undan einni og sömu hryssunni. Hrafntinna Þorsteins hafði hlotið meteinkunn fyrir byggingu og  Sörli hafði sigrað í flokki stóðhesta sex vetra og eldri á LM 1970. Hrafnkatla stóð efst í  flokki sex vetra og eldri hryssna á þessu móti með fágæta einkunn, og Hrafnhetta  sigraði í 4ra vetra flokki með hæstu hæfileikaeinkunn sem gefin hafði verið svo ungu tryppi. Og einu 1. verðlaunahrossi átti Síða eftir að bæta í hópinn síðar, Hrafnsdótturinni Hervöru, þannig að samtals urðu þau fimm talsins. Í umsögn segir að afkvæmin séu háreist og glæst með mikla hæfileika í gangi, vilja og geði. Að fótabyggingu þeirra mátti finna, en hálsbygging var mjög góð.

Síða 2794 frá Sauðárkróki kom aftur til afkvæmadóms á LM 1974 og varð efst afkvæmahryssanna. Hér fylgdu henni nokkuð sömu hrossin og gert höfðu á FM 1972. Núna fannst mér ekki ástæða til þess að spara stóru orðin:

” Kostirnir eru fríðleiki , fjör, ganghæfni og lundgæði, en byggingu er stundum áfátt, þótt þar vegi margháttuð fegurð lýtin upp. Síða má óefað teljast besta kynbótahryssa, sem undir dóm hefur komið á síðari árum. Hlýtur 1. heiðursverðlaun.”

Á þessu síðastnefnda vildi ég hnykkja, þótt enn væru ekki orðnar til þær reglur sem síðar giltu um heiðursverðlaun afkvæmahrossa – enda hafið yfir allan vafa að Síða skipar sér þar á bekk með fremstu kynbótahryssum allra tíma. Er nokkur goðgá að segja að hún sé þeirra allra fremst, að minnsta kosti þeirra hryssna sem við höfum aðstöðu til að meta í sögulegu ljósi? Yfirleitt öll Sveinshross eru komin út af henni og þar með gríðarstórt hlutfall allra ræktunarhrossa í landinu, slík hefur útbreiðslan orðið.

Ég get hins vegar ekki stillt mig um það núna að segja ofurlítið frá því þegar ég sá Síðu í fyrsta sinn, þá nemandi Gunnars Bjarnasonar á Hvanneyri og í slagtogi með honum á hrossasýningum eins og fyrri daginn. Við komum í Mælifellsrétt að dæma hross. Enn eimdi eftir af aðferðum Theódórs að dæma hryssurnar bara undir sjálfum sér, þeim var ekkert riðið þarna. Þarna var Sveinn ungur maður með Síðu og hálsbyggingin var engu lík, langur, fínn og  grannur háls, hátt settur og klipinn í kverk. Þetta var algjört met, og þótt Ragnars-Brúnka móðir hennar og Hrafnkatla dóttir hennar minntu mjög á hana að þessu leyti, þá hafði Síða vinninginn, ég fer ekki ofan af því. Höfuðið var mjög þokkalegt, og svo var hún svo prúð með þessu, ennistoppur, fax og tagl. Þessu hélt hún svo alla tíð, þótt gömul væri orðin. En ég sá strax að hún var ekki nærri eins falleg að aftan, lendin illa fyllt áslend og fæturnir með þessu sérkennilega kýrfætta lagi. Það varð svo ýktara með árunum, ég man hvernig það var þegar ég sá hana í síðasta sinn, með folaldi heima hjá Sveini – en hálsinn var samur og fyrr.

 

Á FM 1969 á Einarsstöðum varð efstur í flokki 4ra og fimm vetra stóðhesta Sörli 653 frá Sauðárkróki (8,20 – 8,28: 8,24). Ég var afar  hrifinn af Sörla, hann var alltaf svo glæsilegur, þótt hann væri ekki af þessari fínbyggðu gerð, sem mér leist allra best á. Reisingin var afbragðsgóð og framgangan öll. Ég taldi auðvitað skyldu mína að segja bæði kost og löst á honum, eins og öðrum hestum. Þetta var lagt út á versta veg og enn í dag er maður að sjá  því haldið á lofti að Sveinn hafi mætt stöðugum andróðri með Sörla, kerfið hafi verið honum óvelviljað. Þetta er eins fjarri lagi og hugsast getur. Hitt er satt að gagnrýnislaust fór hann ekki í gegnum nálarauga dómkerfisins, frekar en aðrir hestar. Umsögn dómnefndar um Sörla að þessu sinni hljóðaði svona:

„Háreistur, glæsilegur viljahestur, með allan gang rúman. Háar og tilþrifamiklar hreyfingar.”

 Svona stóð Sörli sig nú alltaf. Hann kom aftur í einstaklingsdóm á LM 1970 á Þingvöllum. Þorsteinn Jónsson var alltaf með hann. Það gekk  frekar illa að sýna brokkið í honum Sörla, hann var það viljugur. Það var ekki fyrr en seinna sem maður sá almennilega til hans á brokki, enda var hreinlega ekki lagt uppúr því á þessum árum. Ég var það gamaldags að ég gekk ekki stíft eftir því að menn sýndu brokk, ég taldi brokkið svo sem ekkert vörumerki reiðhesta. Við þessu verð ég bara að gangast. Það verður að koma fram hér um Sörla að þótt hann væri tvímælalaust fjölhæfur ganghestur, þá var hann aldrei neinn gammavekringur. Þorsteinn vissi alveg hvað hann gat og lagði ekki meira að honum en svo að hann skilaði sprettunum heilum. Seinna sá maður öðrum knöpum takast miður, þá átti að leggja Sörla einhverja rosaspretti sem hann réð bara ekki við, stytti sig og hljóp upp. Systur hans báru alveg af honum hvað þetta varðaði, einkum Hrafnhetta, sem var firn vökur.

Á LM 1978 á Þingvöllum, síðasta landsmótinu í Skógarhólum, voru í fyrsta sinn verðlaunuð hross eftir nýjum reglum um afkvæmasýningar. Nú varð til í fyrsta sinn sérstakur heiðursverðlaunaflokkur.

Fyrsti stóðhesturinn til að hljóta þessi heiðursverðlaun var Sörli 653 frá Sauðárkróki. Allt frá því að Sörli kom fram fyrst tveggja vetra á LM 1966 á Hólum hafði hann hlotið betra brautargengi  en nokkur annar hestur fyrr og síðar. Almenningur hreifst af honum og hann var notaður víða um land og undir hann leiddar margar af albestu hryssunum. Sem einstaklingur hafði hann staðið efstur á þeim sýningum sem hann kom á, þannig að við dómarar létum ekki okkar eftir liggja í eftirlæti við hann. Samt var það nú svo að það myndaðist einhvers konar samúðarfylgi við hann, það var reynt að koma því inn að hann ætti undir högg að sækja og væri ekki metinn að verðleikum af mér og meðdómurum mínum. Ég held að þetta helgist kannski af þeirri starfsreglu minni að segja kost og löst á öllum gripum. Ég var auðvitað ekki tilbúinn til þess að taka Sörla í guðatölu, fremur en ég hafði gert við Hörð frá Kolkuósi – en til þess var ætlast með þá báða. Af því að ég vogaði mér að efast um að þeir væru yfir allt hafnir, varð til einhver einkennilegur pirringur, en einnig hugsanavilla og rammasta þversögn. Því var komið á kreik að þessir hestar nytu ekki sannmælis og sigrar þeirra túlkaðir sem vísbending um hvað kerfið væri steinrunnið og dómararnir úti á þekju. Þetta sjónarmið kemur glöggt fram í bók Árna Gunnarssonar um Svein Guðmundsson, Glymja járn við jörðu. En það er einmitt þetta sama kerfi sem veitti Sörla heiðursverðlaun fyrstum hesta.

Í afkvæmahópi Sörla voru nú þeir hestar sem hvað mesta athygli vöktu á mótinu, hvor á sínu sviði: Náttfari frá Ytra-Dalsgerði og glæsitöltarinn Hlynur frá Bringu.

Undan Sörla komu í fyllingu tímans 42 1. verðlauna hross. Það var miklu fleira en dæmi voru til um fram til þessa. Svipur hafði átt 28 slík, Nökkvi 24 og Hörður 20, og höfðu þessir þrír haft yfirburði að þessu leyti.

(Sjálfur átti Þorkell undan Sörla tvö afrekshross í kappreiðum, sem hann hélt mikið upp á, Gjálp frá Höskuldsstöðum og Áka frá Laugarvatni. Þessi mynd af Sörla, sem varpað hefur verið á tjaldið, hefur hangið yfir skrifborði Þorkels í áratugi.)

Drottning 4648 frá Sauðárkróki (8,00 – 8,30: 8,15) var undan Sörla 653 og Fjöður 2827 frá Sauðárkróki. Drottning var reist með þunnan háls og fremur gróft höfuð. Hún var viljug, lundgóð og fjölhæf reiðhryssa. Þegar Drottning kom til forskoðunar fyrir FM 1976, hafði ég gert athugasemdir við byggingu hennar, sem Sveinn brást við með hörkulegum hætti. Hann neitaði bréflega að selja Stóðhestastöðinni hestfolald, eins og þó hafði verið fastmælum bundið. Bréf  Sveins fer hér á eftir, óstytt, og eru stílbrögð þess og orðfæri til marks um að Sveini er fleira til lista lagt en haldið hefur verið mest á lofti.

 

„Sauðárkróki, apríl, 1977

Hr. hrossaræktarráðunautur,

Þorkell Bjarnason.

Þegar Einar Gíslason fór þess á leit við mig, að þið lituð á þau hross mín er heima voru, nú í mars síðastliðnum, varð ég ekki lítið undrandi, því að það oft eru þið búnir nú á seinni árum að fara hér um án þess að finna hvöt hjá ykkur til þess að koma við hjá mér og líta á þetta tómstundastarf mitt.

Svo fór að þú falaðir af mér svart hestfolald undan Fjöður og Sörla sem ég gaf kost á fyrir stóðhestastöðina. Ég taldi í mínum barnaskap nokkrar líkur á því að þessi litli hestur, ef honum entist aldur, gæti orðið allgóður merkisberi þess starfs sem ég hef verið að vinna að á undanförnum árum og áratugum af veikum mætti þó.

Það er trú mín sem ég byggi á nokkurri reynslu, að með því að leiða saman Sörla og hryssur útaf Goða 401 megi vænta vænlegs árangurs í hrossarækt.

Síðan þið Einar sóttuð mig heim hefur mér borist í hendur blað með dómi um hryssuna Drottningu. Þessi dómur var gerður norður í Eyjafirði síðastliðið vor, en þar fór fram forskoðun kynbótahrossa fyrir fjórðungsmótið.

Nú verð ég að segja  eins og er, að oft hef ég furðað mig á athugasemdum þínum, þegar þú hefur lýst afkvæmum Sörla. En byggingardómurinn á Drottningu og athugasemdir þær sem fram koma á blaðinu, sem ég hlýt að álíta að séu réttar og vel grundaðar að ykkar mati, taka þó öllu fram í þessu efni.

Þessi byggingardómur og athugasemdir eru frómt frá sagt rothögg á mig og mína hrossarækt.

Ég hafði talið mér trú um það, allt frá því að ég fyrst leit þessa jörpu hryssu, að þarna væri ég að fá upp eitt best byggða hrossið mitt.

Svo birtist byggingardómurinn með athugasemdunum:

  1. Þrír af fjórum fótum skakkir.
  2. Þungur grófur haus.
  3. Kryppa, djúp lend nokkuð brött full stutt.

 

 

Það sem er þarna þyngst á metunum að mínu mati er að ég skuli vera farinn í minni einfeldni að rækta hross með kryppu upp úr baki án þess að gera mér grein fyrir því.

Sú spurning hlýtur að vakna hvort ekki sé komin tími til að hætta þessum leik, því skammt gæti að bíða þess að hjá mér fæðist úlfaldi.

Nú veist þú manna best Þorkell, að ég hef talið að ekki væri nógu vel vandað til allra þeirra folalda sem á stóðhestastöðina hafa komið.

Þar sem umrætt folald er albróðir Drottningar, verður að teljast vafasamur ávinningur fyrir hrossaræktina ef ekki ámælisverður að ala það upp á sjálfri Stóðhestastöð ríkisins.

Ég hefi því tekið þá kanski örlagaríku ákvörðun, að svarta folaldið skuli áfram verða mín eign.

Virðingarfyllst:

Sveinn Guðmundsson.” (Úr bréfasafni)

 

Hrafnkatla 3526 frá Sauðárkróki (8,20 – 8,88: 8,54) varð efst í flokki sex vetra og eldri hryssna. Faðir hennar var Andvari 501 frá Varmahlíð og Síða móðirin. Hrafnkatla setur hérna nýtt met í hæfileikaeinkunn, enda dýrið óvenjulegt alveg, en þannig hafði hún líka lagst í mig frá upphafi.  Hrafnkatla var alveg einstök hryssa, eins og einkunnin segir til um. Hún  var einkar fríð, með grannan og fínan háls, en ekkert sérstaklega reist eða glæsileg fram. Sótti þar meira til föður síns. Það skartaði samt af henni á allan hátt, hún var líka svo fjörviljug og fylgin sér, gangfalleg og rúm, alveg sprengja. Enn hljómar fótatak hennar og mynd hennar stendur þeim fyrir  hugskotssjónum sem til sáu.

Hrafnkatla  eignaðist fjölmörg afkvæmi, og flest þeirra eða öll voru leidd til dóms. Það var bara siður flestra öflugustu ræktunarmanna á þessum árum, að koma samviskusamlega með allt sem til var undan hryssunum og stinga helst engu undan. Þannig fengust afar trúverðugar upplýsingar um hryssurnar – og kynbótahrossin almennt – og óneitanlega styrkti þetta mjög grundvöll kynbótamatsins. Það er svo önnur saga hvernig þetta hefur þróast, eftir að teygnisæknin varð allsráðandi. Það fældi menn frá og gerði að verkum að farið var að velja þetta meira heima. Þannig skapaðist þversögn, eins og rætt hefur verið um, enda yfirlýst að handahófskennt  úrval dæmdra hrossa  væri grundvöllur hins  nýja kerfis.

Undan Hrafnkötlu voru dæmd hvorki fleiri né færri en 15 afkvæmi. Er það einsdæmi og skapar Hrafnkötlu sérstöðu: Eftir því sem næst verður komist er hún eina hryssan fyrr og síðar sem mælanleg er með sömu aðferð og stóðhestar, því eins og kunnugt er verða þeir nú að eiga að minnsta kosti 15 dæmd afkvæmi til þess að hljóta afkvæmadóm. Átta afkvæma Hrafnkötlu hlutu 8,00 eða hærra í aðaleinkunn. Hæst er dæmdur Otur frá Sauðárkróki (8,37), og hann er auðvitað jafnframt einn áhrifamesti stóðhestur sögunnar þegar metin eru samlegðaráhrif hans og sonarins, Orra frá Þúfu.

Þegar Hrafnkatla var sýnd til heiðursverðlauna á LM 1990, hlaut hún annað sætið á eftir Hrund frá Keldudal. Af þessum sökum fór af stað mikið umtal og illindi, og endaði með því sem frægt varð: Á hátíðarstundu við sjálfa verðlaunaafhendinguna neitaði Sveinn að lúta að svo lágu og bandaði frá sér verðlaunabikarnum fyrir annað sætið. Slíkt hefur hvorki gerst fyrr eða síðar í samanlagðri sýningasögunni, ef ég man rétt. Bikarnum var mutrað inn í aðstöðuhúsið á Vindheimamelum. Þar fær hann að standa  til efsta dags, og verður trúlega seint handleikinn af Sveini.

Hrafnhetta 3791 frá Sauðárkróki (7,70 – 8,35: 8,02) var efst af 4ra vetra hryssum, þessi brúnskjótta fallega hryssa hans Guðmundar Sveinssonar. Hún var undan Síðu og Eyfirðingi 654 og rak smiðshöggið á vaxandi álit á honum. Hrafnhetta var myndarleg, ekki fíngerð, stór og svolítið gelgjuleg ennþá. Hana  vantaði þroska og fyllingu og hafði ekki afskaplega traustvekjandi fótagerð, sótti þar til móðurinnar. Hún var reist, en ekki eins hálsgrönn og gamla merin, dýpri á brjóstið og hálsþyngri, í rauninni miklu líkari föðurnum að því leyti. Hæfileikaeinkunnin hennar var að ég held algjört met í flokki 4ra vetra hrossa. Hrafnhetta var fljúgandi gæðingsefni með óvenju mikla skeiðferð.  Hrafnhetta  kom aftur til dóms á LM 1974. Hrafnhetta var óvenjuleg, enda jaðraði hæfileikaeinkunn hennar við níuna, 8,92.  Stórbrotnara skeiðflug hef ég sjaldan eða aldrei séð en þegar hún tók til fótanna.

Hervör 4647 frá Sauðárkróki (7,70 – 8,32: 8,01) var undan Hrafni 802 frá Holtsmúla og Síðu 2794 frá Sauðárkróki. Hér var komið fram á sjónarsviðið svo stórættað kynbótahross, sem hægt var að hugsa sér um þessar mundir. Síða hafði hlotið eftirminnileg ummæli á LM 1974 eins og lesendur muna, og í ljósi þess sem var nú sem óðast að koma í ljós með Hrafn, held ég að ekki sé þetta ofsagt. Við dómarar tókum dálítið í Hervöru fyrir byggingu, okkur fannst hún svona heldur ósamstæð, en um hæfileikana varð ekki deilt, þeir voru alveg raktir. Hervör var reist fjörhryssa með allan gang, flugvökur.  Hún varð í neðsta sæti 5 vetra hryssnanna að þessu sinni. Hún hafði átt  Hervar þriggja vetra gömul, einn áhrifamesta stóðhest ræktunarsögunnar Ég sé það í gömlum skrifum hjá mér að ég hef látið að því liggja að ef ég mætti velja mér eina af þessum yngri hryssum, gæti allt eins verið að ég tæki þá neðstu eins og þá hæstu. Hyggjum betur að þeim orðum í næsta kafla.

„Það fer nú ævinlega svo fyrir mér, að þyki mönnum hlutirnir vera í góðu lagi og dásama stöðuna og framfarir, dreg ég úr því og segi að ýmislegt samverkandi komi til, sem varpi full miklum ljóma á stöðuna, þó að góð kunni að vera. Á sama hátt finnst mér að hlutirnir geti verið of hart dæmdir og ósanngjarnlega, þótt aðfinnsluverðir séu og jafnvel gæti skammsýni í mati manna, þó svo staðan kunni að virðast niður við kyrrstöðu. En lái mér hver sem vill. Á bak við ræktunarstafið, sem á sína úttektardaga, sýningarnar, standa menn sem eru á vissan hátt mínir menn. Með þeim hef ég starfað. Ég gleðst með þeim, ef tilefni gefst og reyni að bera með þeim byrðina ef miður gengur.”

Bára-Brún 5451 frá Sauðárkróki (7,78 – 8,28: 8,03) var undan Gusti 923 frá Sauðárkróki og Hrafnkötlu. Hér sáum við forsmekkinn að því hvert Sveinn Guðmundsson stefndi nú með sína ræktun, og átti eftir að einkenna hana um nokkurt árabil. Hann leitaði miskunnarlaust inn á við og festi þannig í sessi ýmislegt sem miður fór og hann hefði að mínu mati átt að reyna að bæta með markvissum hætti. Það tel ég að hann hefði getað gert án þess að missa nokkurn tíma sjónar á sínum eftirlætisviðfangsefnum í hrossaræktinni, sem lutu auðvitað frekar að hæfileikum hrossanna en byggingu. Vissulega var þó ekki um nærri eins auðugan garð að gresja á þessum árum og nú er, og margt af hæfileikaríkustu hrossunum var einmitt frá Sveini. Honum var því ef til vill nokkur vorkunn að þessu leyti. En var ekki hægt að fara vægilegar í sakirnar en svo að nota harðskyldleikaræktaðan hest eins og Gust á náfrænkur sínar? Veikleikar Gusts hafa verið tíundaðir nokkuð og á þeim þurfti Sveinn síst á að halda í sínum hrossum.

Hervar frá Sauðárkróki  var undan Blossa og Hervöru. Ég hef lýst því áður að þessi léttbyggði og spengilegi hestur tók í arf frá föður sínum, Blossa 800, ókosti sem ég varð að hamra á: Leiðinlega eyrnastöðu og miður fallega fótagerð. Þegar afkvæmi Hervars fóru að koma fram sá ég þessa lökustu punkta ganga aftur í sumum þeirra. Ég viðurkenni að ég tók hart á þessu. Núna finnst mér að beri miklu minna á þessari fótagerð í afkomendum Hervars. Var þá engin ástæða fyrir mig að vara við þessu og setja spurningamerki við? Jú, það held ég. Sé það rétt hjá mér að þessi þáttur sé á uppleið, þá er það vegna þess að menn hafa tekið mark á mér og eytt því versta, ekki notað það til kynbóta altént. Það má segja að þetta gildi að sumu leyti um Höfða-Gust líka, sem var dæmigerður hestur andstæðnanna, sem ég kallaði svo. Ég hafði bara ennþá meiri áhyggjur af því að menn yrðu gagnrýnislausir á Hervar, því hann var ennþá betri að öðru leyti. Og þetta er einmitt einn mesti vandinn sem ráðunautur stendur frammi fyrir í sínu starfi, og ábyrgð hans er mikil. Hvernig á að fara með hesta sem hafa yfirburðakosti að sumu leyti, en eru jafnframt alvarlega gallaðir? Þótt vissulega sé oft á móti straumnum að fara í þessum efnum, er fyrir öllu að sýna staðfestu og hamra á göllunum. Þá er helst von til þess að menn beiti ströngu vali gagnvart afkvæmunum.

Helst af öllu hefði ég bara viljað losna alveg við Hervar. Ég skal fúslega viðurkenna það að hann var sá af Sveinshestum sem ég taldi að í byggju mestar andstæður, og mér var alltaf  drumbs um slíka hesta. Alltaf var nú verið að afsaka þessa fótagerð, og gekk maður undir manns hönd að vitna um góða endingu slíkra fóta. Ég hef þegar lýst því hvað ég var hrifinn af folaskömminni þegar ég sá hann hjá Albert Jónssyni þarna um vorið heima í Svarfaðardal, einkum var brokkið og töltið afbragð. Það voru nú áhöld um það hvort hann skeiðaði þá, en ekki er ég í neinum vafa um að hann hafi verið vel vakur að upplagi.

Já, það má eiginlega segja að það haf verið sótt hart að mér bæði innanfrá og utan að vægja Hervari. Þá áraun stóðst ég, vona ég að megi segja, og kannski er það þess vegna sem mér finnst nú að meira beri á betri hliðunum í afkomendum Hervars en þeim lakari. Vonandi gildir það líka um eyrun, enda hamraði ég ekkert síður á því.

Hervar  naut mikillar hylli, fór um allt land og óð í tækifærunum. Á þeim árum voru Sveinshestar gífurlega eftirsóttir, eins og nærri má geta, og ættin að honum Hervari var nú ekkert slor, faðirinn undan Sörla og móðirin undan Hrafni og Síðu. Ég var á þessum árum að verða þess fullviss að í gegnum Hrafn væri að sækja megin framfaraþróttinn í íslenska hrossastofninum, það er að segja í þá átt sem ég vildi stefna. Og ég varð ekki var við annað en að meginþorri hrossaræktenda vildi þangað með mér. Vissulega stóð þetta með Hervari. Hann var nú kominn hér með föngulegum afkvæmahópi, og voru þar í fjölmargir stóðhestar.

Kjarval 1025 frá Sauðárkróki (7,94 – 8,70: 8,32) var undan Hervari og Hrafnhettu frá Sauðárkróki, úr þessari innræktun sem segja má að þeir feðgar hafi um þessar mundir haft í hávegum. Á þessu stigi er óhætt að segja að vel hafi gengið, og þess vegna má kannski virða þeim til vorkunnar að halda áfram á sömu braut  í ræktuninni næstu árin. Efstu hestarnir í 4ra og fimm vetra flokknum á landsmóti voru nú frá þeim, til komnir á þennan hátt. Kjarval var óvenju hæfur og jafnvígur viljahestur, hæstur allra kynbótahrossa fyrir hæfileika, aðeins fimm vetra gamall.

Næst segir frá Kjarval er hann var mættur að taka við heiðursverðlaunum sínum. Það lá fyrir nú að staðfesta fyrri afkvæmadóm Kjarvals og raunar aðeins formsatriði að hengja á hann heiðursverðlaunamedalíuna. Það má segja það almennt um hesta sem heiðursverðlaun hljóta, að þeir þurfa að vinna mikið til þeirra, og þarflaust er og síst við hæfi að draga í efa að þeir séu vel að viðurkenningunni komnir. Hitt er augljóst að þessum áfanga ná hestar út á mjög misjafnar forsendur. Flestir út á jöfn og farsæl gæði, en aðrir út á yfirburði sína á einhverjum sviðum, sem draga að landi og jafna út slaka þætti. Þessum seinni hópi tilheyrði nú Kjarval augljóslega, og drógu hæfileikarnir byggingarhlassið. Þó var hálsbygging góð og hófarnir afbragð. Fótagerðin var lökust. Reiðhestskostir vori nógir, þar má nefna fyrst óbrigðulan vilja og ágæta lund, sem greiðir svo götu fjölhæfni og frábærrar drifavekurðar. Töltið er þó síst, og fótaburði oft ábótavant. Kjarval mátti kallast

„stórgæðingafaðir, raunar metfé hvað kosti varðar í reiðhestaræktinni.” (Hrossaræktin 1994, bls. 21)

Otur 1050 frá Sauðárkróki var óhemju gangmikill, þjáll orðinn og gæðingur í höndum Eiríks Guðmundssonar, kappviljugur og flugvakur. Víst er að ekkert var til sparað í yfirlegu og umhugsun, og farsællega hafði Eiríki tekist að lenda þessum vandmeðfarna hesti.

Það er freistandi að gera svolítinn samanburð á þessum hálfbræðrum og stórfrændum, sem voru hvor á sínu árinu og báðir aldir upp og tamdir á Stóðhestastöðinni í Gunnarsholti. Ég þekkti báða vel og kom Kjarval á bak oftar en einu sinni. Hins vegar rekur mig ekki minni til þess að Eiríkur hafi boðið mér á bak Otri, hvernig sem á því stendur, því það var nánast regla að ég kæmi þar á bak öllum hestum.

Báðir höfðu þeir bræður  veikleika af svipuðum toga, eins og fram kemur í umsögn um sköpulagið. Ég taldi þó Kjarval líklegri til að standa framarlega. Hann hafði betri hálsbyggingu og traustari skaphöfn og var í rauninni ennþá jafnvígari og betri hestur – og umfram allt auðveldari fyrir allan almenning, og það var nú ekki svo lítils virði. Ég var, hvorki þá né síðar, að velta fyrir mér eða beina athyglinni að einhverjum bévítans monttýpum, heldur að reyna að finna farsælustu undaneldisgripina með tilliti til allra þeirra krafna sem gera varð. Eiríkur heitinn Guðmundsson þurfti nú ekki að liggja lítið yfir honum Otri til að gera hann góðan, og óvíst er að aðrir hefðu komist í gegnum hann til fulls. Svoleiðis hestgerðir eru nú ekki endilega það sem ég bar helst fyrir brjósti, þótt vissulega hrifist ég ævinlega af því þegar fallega var tekið til fótanna.

Otur var, á sama hátt og Kjarval, afar sterkt ættaður útaf Síðu gömlu frá Sauðárkróki. Faðir þeirra var dóttursonur Síðu, og mæður þeirra voru dætur hennar. Otur var orðinn landsþekktur gæðingur, og í einhverju sérstöku uppáhaldi hjá mörgu fólki. Afkvæmi hans skorti oft betri fótabyggingu og fríðleika, auk þess sem hálsgerð þeirra var of sver og kýtt við bol. Þau voru hins vegar iðulega örviljug og léttfær,

„það er þeirra sterkasta jákvæða einkenni og þessi ólgandi framganga, sem fylgt er eftir með ágætu tölti og fótaburði, klárgangur er stundum ríkjandi en mörg þeirra sem skeið hafa eru líka vökur svo um munar, örugg og botnlaus.” (Hrossaræktin 1993, bls. 185)

Mynd af verðlaunaafhendingu.

Hrossaræktarsaga Sveins Guðmundssonar er nú komin vel  á sjötta  tug ára, jafngömul eða eldri sögu landsmótanna. Og þótt okkar samskipti hafi ef til vill ekki byrjað gæfulega á LM 1954 á Þveráreyrum, og oft hafi gefið á bátinn í næstum hálfrar aldar véli um hross og hrossadóma, minnist ég þeirra tíma með  hlýjum hug og vinarþeli í garð Sveins. Það stendur uppúr þegar allt kemur til alls.“

Hér lýkur beinni tilvitnun í Þ.B.

 

Til að lengja þessa umfjöllun ekki um of var að mestu sneitt hjá formlegum umsögnum um einstök hross og afkvæmahópa, enda eru það opinber gögn sem birst hafa á prenti. Það er einlæg von mín að þessi umfjöllun varpi nokkru ljósi á viðfangsefnið og að ef til vill sé allvíða komið að kjarna málsins. Það er einungis hægt að gera ef talað er tæpitungulaust. Sá var  háttur gömlu mannanna sem hér hafa verið nefndir. Freistandi var að draga nokkuð þeirra persónusamskipti inn í umfjöllunina, og vona ég að það hafi engu spillt og að mér fyrirgefist það.

Um síðastliðin áramót, eftir bankahrunið mikla,  kvað við nýjan tón í  hefðbundnum áramótaræðum og viðtölum við fyrirmenn í heimi  þjóðmála  og lista. Hlú skyldi að gömlum íslenskum gildum. Björk Guðmundsdóttir hvatti til þess að listafólk héldi trúnað við sjálft sig, en seldi ekki  sannfæringu sína eða  gengist undir markaðslögmál eða aðra ánauð;  farið fremur að dæmi pönkara, sagði Björk,  og eigið ykkur  sjálf, hvað sem á dynur.

Nú rennur mönnum ef til vill kalt vatn milli skinns og hörunds, og halda að ég ætli að fara að líkja Sveini við pönkara. Ekki er það nú ætlun mín. Hins vegar má segja að sú sérstaða og sá orðstír sem  hrossarækt þeirra feðga hefur áunnið sér, grundvallist öðru fremur á svipuðum gildum og hér var lýst. Þolgæði og trúnaður við sjálfan sig er ef til vill það mikilvægasta af öllu því sem útheimtist  til þess að vera ævinlega í fararbroddi í þeirri viðleitni að rækta alvöruhross, sem duga til hvers sem vera skal.

Auðvitað nærðist Sveinn og hrossarækt hans líka á almannahylli, sem að sumu leyti var mögnuð upp af vel við haldinni staðalmynd  af baráttu einstaklings við kerfið.  Ekkert af þeirri almannahylli er þó byggt á falsmyndum eða hátimbruðum skrautsýningum einhæfra  glugghrossa, heldur er alltaf til  fyrir ávísuninni: Botnlausir skeiðsprettir ólmra fjörhrossa, orgínala sem standa fyrir sínu á öllum listagangi, hlaðin einhvers konar frumkrafti sem góðfúslega er látinn í té hvenær sem eftir er leitað. Í þessum orðum held ég að sé saman dregið það sem verðugast er að halda á lofti um Sauðárkrókshross fyrr og nú.

Gallarnir hafa líka fengið sitt pláss í þessari umfjöllun. Þeir tefja auðvitað  fyrir í ræktunarstarfi, að minnsta kosti þar sem metnaður er  til að viðhalda fjölbreyttum eðliskostum og útlitsfegurð íslenska gæðingsins. Málið er einfaldara fyrir þá sem einblína  á  háa framfótalyftu og taka svokallað lyftulull fram yfir hreint og mjúkt hýruspor, sem svo var nefnt hér í Skagafirði við upphaf töltreiðar á Íslandi.

Þótt gallar séu að sönnu lífseigir,  skjóta öðru hverju upp kolli einstaklingar  í hrossaræktarstarfinu, sem erfitt er að finna að. Til að útskýra þetta  betur  finnst mér við hæfi að bregða upp mynd af því hrossi úr ræktun Sauðárkróksfeðga sem  síðast stóð í sporum formæðra sinna og forfeðra sem sigurvegari á Landsmóti.

Mynd af Hvítasunnu

Hvíta-Sunna frá Sauðárkróki er verðugur vitnisburður um þau eldsumbrot sem minnst var á hér að framan, og jafnframt gott dæmi um þær ræktunaraðferðir sem bestu hafa skilað á undangengnum áratugum. Hér er ljósi liturinn sóttur til Jóns á Reykjum og blesan til Sigurðar í Kirkjubæ og fleiri hafa lagt hér gott til. Undir, yfir og allt um kring er hins vegar endalaus röð af Sauðárkrókshrossum. Allt er það  brætt,mótað og hert í deiglu – kynslóð eftir kynslóð – í smiðjunni hjá þeim feðgum Sveini og Guðmundi. Hver vill ekki eiga slíkan smíðisgrip, svona djásn?

Sauðárkrókshrossin  eru útbreidd og ríkjandi í íslenska hrossastofninum, sem er stolt Íslendinga, menningararfur og sameiginlegur fjársjóður ræktunarmanna. Því get ég sagt um leið og ég þakka fyrir gott hljóð: Gakktu í sjóðinn og sæktu þér hnefa!

Bjarni Þorkelsson

%d bloggers like this: