Árleg folaldasýning Hrossaræktarfélagsins Goða var haldin í Hólmarshöllinni á Minniborg 11. nóv. 2012. Veður var kyrrt og kalt, og allmargir lögðu þangað leið sína. Andrúmsloftið var hefðbundið, vinsamlegt og afslappað að sögn Magnúsar í Kjarnholtum, en þau Guðný voru mætt að venju. Þau eru sérstakir aufúsugestir okkar Goðamanna, og eftir fyrirmynd Magnúsar er sýningunni háttað: Folöldin rekin til og frá á öllum tilþrifagangi, en stillt upp í kyrrð inn á milli, til þess að dómarar og áhorfendur geti áttað sig betur á „heildarmyndinni“.

Þótt hver þáttakandi ætli sínu folaldi góðan hlut, situr þó samkennd og góður kunningsskapur í fyrirrúmi, og enginn er hér svo kappgjarn að fari út í gönur. Þykir mönnum það góð tilbreyting frá öllu keppnisatinu, sem alsiða er orðið í hestamennsku.
Og kaffið maður og kakóið, kleinur og pönnukökur, randalínur og skúffukökur – ótal sortir raunar í ylnum uppi í kaffisalnum þeirra Minniborgarhjóna, með útsýn yfir hinn haslaða hallarvang. Það er auðvelt að gleyma sér yfir þeim kræsingum við spjall og spekúlasjónir. Fyrir bragðið dregst stundum á langinn að hafa sig aftur útí reiðhallarkuldann og reyna til þrautar að gera upp á milli folaldanna, sem verða sífellt jafnari og álitlegri með hverju árinu. Jafnvel dómararnir gleyma sér við glaum og glys, og eru þó engir flysjungar.
Keppt var í 4 flokkum: Hryssur og hestar félagsmanna, hryssur og hestar í gestaflokki. Dómarar voru þeir sömu og í fyrra, Erlendur Árnason og Ásmundur Þórisson, búsettir í Rangárþingi eystra. Þeir gáfu umsagnir og kváðu upp sinn dóm, eftir að hafa horft dulráðum augum á reislur og kvarða sem búa óhlutgerð í brjósti góðra hestamanna.
Hestfolöld
1. IS 2012188806 Gikkur frá Þóroddsstöðum, móálóttur.
F. Sær frá Bakkakoti M. Blökk frá Þóroddsstöðum u. Þyrni Þóroddsstöðum.
Eigandi: Bjarni Þorkelsson Þóroddsstöðum.
Mjög stór og fallegur, klipinn í kverk, fótaburður, svif og léttleiki, súper góður gangur.
Besta folald sýningarinnar að mati dómaranna.

2. Fengur frá Minniborg, brúnn.
F. Ásþór frá Ármóti M. Lísa frá Þorlákshöfn u. Fána frá Árbakka.
Eigandi: Hólmar Bragi Pálsson, Minniborg.
Léttbyggður, fríður, góð yfirlína, fínlegur, rúmur og allur gangur.

3. IS 2012188710 Bjarki frá Miðengi, móálóttur, vindóttur, (grár?)
F. Kjarni frá Þjóðólfshaga M. Hæra frá Miðengi u. Galdri Laugarvatni.
Eigendur: Dóri og Helga, Miðengi.
Langur og mjúkur háls, klipinn í kverk, rúmur og hágengur, laus gangur, mjög léttstígur.

4. – 5. IS 2012188690 NN frá Efri-Brú, jarpstjörnóttur.
F. Dynur frá Dísarstöðum M. Sunna frá Efri-Brú u. Óskari frá Litladal.
Eigandi: Óli Fjalar Böðvarsson, Efri-Brú.
Léttbyggður og langvaxinn allur, mjög fínlegur, svifmikill og sýnir gang.

4. – 5. IS 2012188810 Svarri frá Þóroddsstöðum, dökkjarpur.
F. Þóroddur frá Þóroddsstöðum M. Hörn frá Þóroddsstöðum u. Galdri Laugarvatni.
Eigandi: Bjarni Þorkelsson, Þóroddsstöðum.
Góð, mjúk yfirlína, svifmikill og mjúkur, rúmur opinn gangur.

Merfolöld
1. IS 2012288805 Hnáta frá Þóroddsstöðum, rauðstjörnótt.
F. Þóroddur frá Þóroddsstöðum M. Dama frá Þóroddsstöðum u. Nökkva V-Geldingaholti
Eigandi: Margrét Hafliðadóttir Þóroddsstöðum.
Þroskuð, mjög góð yfirlína, fríð, allur gangur, skásettir bógar, gengur vel uppí herðum.

2. IS 2012282212 Hylling frá Litla-Hálsi, jörp.
F. Adam frá Ásmundarstöðum M. Hetja frá Hvítanesi u. Hrynjanda Hrepphólum.
Eigandi. Litli-Háls ehf.
Falleg fríð og léttbyggð allur gangur, mjög góðar línur í henni.

3. IS 2012188.. Drottning frá Hömrum, brún.
F. Aron frá Strandarhöfði M. Framtíð frá Hömrum u. Yl frá Bjarnastöðum.
Eigandi: Auður Gunnarsdóttir, Hömrum.
Reist og falleg, hálsinn langur og reistur, skrefmikil og allur gangur.

4. – 5. IS 2012288771 Frostrós frá Hömrum, grá.
F. Spuni frá Vesturkoti M. Nútíð frá Hömrum u. Gusti frá Hóli.
Eigendur: Auður og Siggi, Hömrum.
Mikið þroskuð, mætti vera fótahærri, léttstíg mjúkgeng, opinn allur gangur.

4. – 5. IS 2012288819 Helgi frá Þóroddsstöðum, móbrún.
F. Arður frá Brautarholti M. Snót frá Þóroddsstöðum
Eigandi: Bjarni Bjarnason, Þóroddsstöðum.
Góðar línur, heldur djúpur háls, allur gangur, mjög mjúkgeng, gengur vel uppí herðar.

Ómögulegt er annað – hérna á heimasíðunni – en að minnast á Fjöður frá
Þóroddsstöðum, laglega dóttur Vonar og Kráks, sem vakti sérstaka athygli fyrir rými og
fótaburð –fljúgandi efni. Hún hlaut þessa umsögn: Aðeins misþroskuð, heldur lág á
herðar, heldur fyllt í kverk, mjög svifmikil og rúm.

Nös frá Þóroddsstöðum, brúnnösótt dóttir Friggjar og Hróks frá Efstadal, fékk þessa
umsögn: Fríð, langur háls, góð yfirlína, léttstíg og góður fótaburður.

Viðja frá Þóroddsstöðum, dóttir Freyju og Varðar frá Árbæ, hlaut þessa umsögn:
Meðalgóð bygging, skásettir bógar, létt í spori og góður fótaburður, allur gangur opinn.

%d bloggers like this: