Nú hefur litið dagsins ljós niðurstaða starfshóps Hrs.samtaka Suðurlands um fyrirkomulag kynbótasýninga á landsmótum. Margt er þar vel athugað, en tæplega er hægt að tala um einhuga niðurstöður eða breytingatillögur.

Ég ætla raunar ekki að gera niðurstöður starfshópsins að umfjöllunarefni hér, en leggja fremur orð í belg og stinga uppá breyttu fyrirkomulagi.
Fyrst ætla ég þó að mæla eindregið með því að ekki verði fallið frá þeirri nýbreytni sem upp var tekin á LM 2012 að efna til sérstakrar kynningarsýningar á kynbótahrossum, þeirra sem ekki komust í verðlaunasæti. Þótt hún hafi ekki tekist að öllu leyti eins og til var ætlast svona í fyrstu tilraun, var þó margt gott um hana, og ég hef fulla trú á því að slík sýning eigi eftir að vinna sig í álit, einkum ef tekst að tryggja þar góða þátttöku.

Mín tillaga gengur út á það að þeir sem ná að tryggja hrossi sínu farseðil á Landsmót, geti valið um það fyrirfram hvort það fari í dóm aftur á sjálfu Landsmótinu. Aðeins þau hross sem í dóm færu, kæmu til álita í verðlaunasæti. Þau hross sem ekki færu í dóm, hlytu veglega kynningu, sem að samanlögðu yrði þó ekki nærri því eins tímafrek og dómurinn – ef til vill yrði það bara yfirlitssýningarhluti dómsins, eða eitthvað sambærilegt.
Loks kæmu svo öll hross fram í kynningaratriði, hver flokkur fyrir sig og væri skyldumæting. Hrossin yrðu kynnt í stafrófsröð þar til kæmi að þeim (tíu) hrossum sem efst stæðu í flokknum og ynnu til verðlauna.

Enginn vafi er í mínum huga að þetta fyrirkomulag gæti skapað heilnæmara andrúmsloft. Mun fleiri kynbótahross hlytu jákvæða athygli og með þessu móti yrði vel undirstrikað það sígilda viðhorf að kynbótasýning sé ekki fyrst og fremst keppni eða sætaslagur. Ekkert yrði þó frá þeim tekið sem tilbúnir eru í þann slag, og dómararnir gætu fengi hæfilega útrás og rennt sér upp og niður skalann að vild, býst ég við.
Þarna gæfist hrossaræktarráðunauti upplagt tækifæri til að líta upp frá dómstörfunum og ræða við brekkuna um það sem fyrir augu ber – og það er ekki svo lítils virði að míni mati. Í stuttu máli: Á þennan hátt gæti skapast – að minnsta kost meðfram – ennþá betri farvegur fyrir þau gildi sem löngum hafa falist í orðinu kynbótasýning. Gáum að þessu.

%d bloggers like this: