Í dag var lokið við heyskapinn, bundið af skæklum á Apavatni neðra – „þar er lengi hægt að slá“ – og öllu ekið „heim í garð“ eins og einhvern tíma hefði verið sagt. Uppskeran varð 72 rúllur, og heyfengurinn á Þóroddsstöðum alls í sumar 485 rúllur af allstórri gerð + ca. 30 stórrúllur sem fyrnt var í vor. Semsagt: Gott.

Rifja upp af þessu tilefni kunnar vísur sem birtust í Bændablaðinu á dögunum. Sú fyrsta er eftir Svein Hannesson frá Elivogum – og hví ekki að gera orð hans að sínum, þótt mínar „ær“ séu raunar aðallega hross?:

Mér var aldrei slyngt um slátt
slappur að beita ljánum,
en tíðast hef í tóft þó átt
tuggu handa ánum.

Önnur vísan sem ég tilfæri er eftir Kolbein í Kollafirði, og höfðar listilega til annars veruleika en þess sem stafrétt er lýst:

Sumir dengja launaljá
landssjóðsengi í múga flá.
Kreppa engin þjáir þá;
þar er lengi hægt að slá.

Þriðja vísan á kannski ekki vel við í nútíma heyskap, þegar mestallur heyskapurinn er eins manns verk. Valdimar Kamillus Benónýsson var við slátt, en þrjár vinnukonur rökuðu ljána.

Einn ég skára grýtta grund
glymur ljár í steinum.
Nauða sára nálgast stund
níðast þrjár á einum.

%d bloggers like this: