Fórum í dag austur að Ármótum á Rangárvöllum að horfa á skeiðmót Meistaradeildar.

Þar var Vera komin í keppni, nú hjá nýjum eiganda og knapanum Eyjólfi Þorsteinssyni. Gekk það vel, niðurstaðan annað sætið og tíminn 15,11. Hún hreinsaði sig gjörsamlega af sínum riðli, báða sprettina, og var keppnislaus. Sigurvegarinn varð Blossi frá Skammbeinsstöðum á 14,92 (knapi Elvar Þormarsson), þriðji varð Birtingur frá Selá á 15,12 (knapi Sigurður Matthíasson), fjórði Óðinn frá Búðardal á 15,5 (knapi Sigurbjörn Bárðarson), fimmta Gletta frá Þjóðólfshaga á 15,57 (knapi Sigurður Sigurðarson). Gletta er ný og stórefnileg á þessum vettvangi, hátt dæmd kynbótahryssa undan Hugin frá Haga.
Já það var verulega gaman að sjá hvað Eyjólfur virðist fljótt ná góðum tökum á Veru, einkum var seinni spretturinn vel heppnaður, niðurtakan og skeiðsniðið. Þó fór hún þvert yfir völlinn, til vinstri. Það er töf að því.
Í gæðingaskeiði sigraði Sigurbjörn Bárðarson á Flosa frá Keldudal, eftir að Siggi Sig. (Freyðir Hafsteinsstöðum) hafði verið dæmdur úr leik fyrir notkun krossmúls.
Á þessu móti bar það við í seinni umferð í 150 m skeiðinu að hestarnir voru aldrei nefndir á nafn, hvað þá meir. Að ætlast til að þeir séu almennilega kynntir af mótsþul, ætt og fyrri afrek, er greinilega ansi langt utan seilingar, þegar svo er komið að það er ekki einu sinni minnst á þá einu orði, ekki frekar en að þeir séu ekki til! Enn herðir á þessari óstöðvandi tilhneigingu að manngera kappreiðarnar. Hver er ástæðan? Er það persónu- og knapadýrkun sem lengi hefur viðgengist og nær nú nýjum hæðum? Spyr sá sem ekki veit.
Ég kvartaði að vanda, þótt nú fari ef til vill að styttast í það að ég gefist upp fyrir þessum nýja sið. Það væri annars gaman að sjá þessa kappa reyna með sér á skeiði, ef teknir væru af þeim hestarnir! Þulirnir myndu að minnsta kosti ekki bregða sér hið minnsta, og gætu óáreittir haldið sínu striki: Lá Sigurbjörn? Eyjólfur fór á 15,1 – o.s. frv.
Nei tímarnir yrðu nú eitthvað lakari.

%d bloggers like this: