Hin árlega folaldasýning Hrossaræktarfélagsins Goða var haldin á sunnudaginn í Hólmarshöll á Minniborg. Fólk dreif að úr öllum áttum með folöldin sín, en félagssvæði Goða er Grímsnes, Grafningur, Þingvallasveit og Laugardalur – svo vitnað sé til hinnar gömlu hreppaskiptingar – enda halda þessi gömlu svæða- og sveitaheiti að fullu gildi sínu, þótt stjórnsýslueiningarnar séu nú aðrar. Það var fátt sem tafði för í þessari himinblíðu, þótt vetur eigi að heita genginn í garð – raunar má segja, á þessari blessuðu tíð, að oftast sé vel brúklegt vorveður.

Það var enda létt yfir mönnum, eins og jafnan við þetta tilefni, spenna þó í lofti, kannski of mikið að segja rafmögnuð. Að þessu sinni dæmdu folöldin kunnir gæðingadómarar úr Rangárþingi eystra, Ásmundur Þórisson á Hvolsvelli og Erlendur Árnason á Skíðbakka. Sáu menn nú í hendi sér að myndi ekki duga neitt stampabrokk til þess að heilla þessa hestamenn, eina vonin væri að örlaði á fjölhæfni og gangmýkt í spori folaldanna. Folöldin voru nú tekin inn í Hólmarshöllina á Minniborg, og eftir nokkrar þreifingar um fyrirkomulag, rekin til eitt í einu eftir aðferð og fyrirmynd Magnúsar í Kjarnholtum, sem rétt einu sinni heiðraði okkur Goðamenn með þátttöku sinni og nærveru.
Það er skemmst frá því að segja að dómararnir komust að þessri niðurstöðu:

Hestfolöld.
1. Blesi frá Þóroddsstöðum, rauðblesóttur.
F. Þröstur frá Hvammi
M. Snót frá Þóroddsstöðum (u. Aroni frá Strandarhöfði og Dömu frá Þóroddsstöðum)
Ræktandi og eigandi: Bjarni Bjarnason
2. NN frá Hömrum, grár/brúnn.
F. Herjólfur frá Ragnheiðarstöðum
M. Nútíð frá Hömrum (u. Gusti frá Hóli og Brúnku frá Hömrum)
Ræktandi og eigandi: Auður Gunnarsdóttir
3. Kveikur frá Þóroddsstöðum, rauðblesóttur.
F. Kvistur frá Skagaströnd
M. Kolbrún frá Þóroddsstöðum (u. Hilmi frá Sauðárkróki og Svölu frá Þóroddsstöðum)
Ræktandi og eigandi: Bjarni Þorkelsson
Merfolöld.
1. Esja frá Litla-Hálsi, rauðstjörnótt.
F. Álfur frá Selfossi
M. Embla frá Minniborg (undan Ottó frá Höfða og Lísu frá Minniborg)
Ræktandi og eigandi: Litli-Háls ehf.
2. Harpa frá Þóroddsstöðum, bleikrauð.
F. Þóroddur frá Þóroddsstöðum
M. Hörn frá Þóroddsstöðum (u. Galdri frá Laugarvatni og Áru frá Laugarvatni)
Ræktandi og eigandi: Bjarni Þorkelsson
3. Embla frá Efri-Brú, brún.
F. Klettur frá Hvammi
M. Sunna frá Efri-Brú (u. Óskari frá Litladal og Þöll frá Efribrú)
Eigandi og ræktandi: Óli Fjalar Böðvarsson

Í gestaflokki
Í flokki hestfolalda 1. Höfðingi frá Austurkoti 2. Kóngur frá Kjarnholtum 3. Valur frá Efribrú
Í flokki merfolalda 1. Álfaborg frá Austurkoti 2. Katla frá Kjarnholtum 3. Dagrenning frá Stangarlæk

Margt var þarna fallegra og velgengra folalda, verulega eigulegra. Að mati margra velmeinandi sýningargesta og undirritaðs (sem getur óhikað talað svona á sinni eigin heimasíðu) bar Blesi frá Þóroddsstöðum nokkuð af fyrir samanlagða þætti: Létta hálsbyggingu, fótaburð, rými og heillandi framgöngu. Hamra-Gráni er geysilega öflugt og þroskavænlegt folald, hreyfingafallegt og jafnvígt að sjá að byggingu og hæfileikum. Kveikur frá Þóroddsstöðum er allra folalda fínlegastur, fríður og nettur. Esja frá Litla-Hálsi er fallegt folald, skrefar rúmt og hátt. Embla frá Efribrú ber með sér þokkann og myndarskapinn. Ekkert folald skákaði þó Hörpu frá Þóroddsstöðum að fegurð, fríðleika og djörfu uppliti. Fínleg eyrun eru höfuðdjásn, stillt og djarft augnatillitið, brúsandi prúðleiki – allt eftir óskum ræktandans og raunar er sumt af því sem helst prýðir folaldið eins konar vörumerki fyrir Þórodd, föður þess. Má ég segja frá því í framhjáhlaupi að samkvæmt nýjustu útreikningum Blupps-ins stendur Þóroddur nú í heiðursverðlaunum, tólf vetra gamall?

%d bloggers like this: