Þóroddsstaðahryssurnar hafa vissulega stundum staðið framar, en urðu nú engu að síður allar þrjár í verðlaunasæti.
Hera varð þriðja í 100 m skeiðinu á 7,83 (knapi Bjarni Bjarnason). Sigurvegarinn varð Hörður frá Reykjavík á 7,53 (knapi Daníel Smárason). Daníel var einnig knapi á hestinum í öðru sæti, Blæng frá Árbæjarhjáleigu. Sá fór á 7,69. Prins frá Efri-Rauðalæk varð 4ði á 7,83 (knapi Valdimar Bergstað), fimmti varð Andri frá Lynghaga á 7,86 (knapi Sigurbjörn Bárðarson). Vera skeiðaði nú á 8,11 (knapi Bjarni Bjarnason).
Hera var raunar hársbreidd frá því að tryggja sér sigur í 250 metrunum – var vel á undan Gríði frá Kirkjubæ, sem skeiðaði á 22,43 – en sprakk upp á síðustu metrunum. Sigurvegari í 250 m varð svo Korði frá Kanastöðum á 22,4 (knapi Teitur Árnason). Önnur varð Gríður eins og fyrr segir (knapi Ragnar Tómasson), þriðji Flosi frá Keldudal á 22,63 (knapi Sigurbjörn Bárðarson), fjórði Hörður sem fyrr var nefndur á 22,65, fimmti Blængur frá Árbæjarhjáleigu á 23,05 (knapi Daníel Ingi Smárason).
Óðinn frá Búðardal varð hlutskarpastur í 150 metrunum – eins og oft áður. Hann fór á 14,62 (knapi Sigurbjörn Bárðarson). Annar varð Gammur frá Svignaskarði á 14,71 (knapi Daníel Ingi Smárason). Í þriðja sæti varð svo Veigar frá Varmalæk á 14,86 (knapi Teitur Árnason), fjórða varð Hrund frá Þóroddsstöðum á 15,03 og fimmta varð Vera frá sama bæ á 15,4. Knapinn á þessum síðasttöldu var Bjarni Bjarnason.
Það má segja að heimamaðurinn Daníel Ingi Smárason geti manna best við þessar niðurstöður unað, enda ríkir þar á bæ mikill og heilbrigður metnaður gagnvart skeiðgreinunum, með tilheyrandi undirbúningi og þjálfun. Það má með sanni segja að það séu nú að verða kynslóðaskipti meðal skeiðknapa, eins og sjá má í þessum pistli og fyrri skeiðpistlum. Daníel Ingi Smárason, Teitur Árnason, Ragnar Tómasson og Bjarni Bjarnason eru allir kornungir menn. Nöfn þeirra heyrast nú jafnaðarlega þegar kallað er til verðlaunaafhendinga í skeiði, og skipta þeir gjarnan sætunum nokkuð bróðurlega, þótt fráleitt sé að ætla að það sé nú meiningin hjá þeim!
Kynslóðaskipti sagði ég. Tíminn er seigur karl, arkar áfram jafnt og þétt og fer höndum um allt sem á vegi hans verður, stundum ómjúklega. Vissulega – en hver af gömlu höfðingjunum skyldi samt sem áður alltaf prýða þennan hóp verðlaunaknapa og hafa raunar gert í áratugi, allar götur síðan 1967 ef ég man rétt, fyrstu 10 árin á stökkhestum, en æ síðan á fljúgandi vekringum? Enginn annar en Sigurbjörn Bárðarson, sem nú er farinn að þjálfa upp nýjan vekring, sem á vafalaust eftir að láta mjög að sér kveða. Fordæmi Sigurbjörns er mikil áskorun fyrir þessa ungu menn sem nefndir voru hér á undan. Skyldu þeir endast eins og sá gamli? Ef guð lofar, þá hef ég fulla trú á því.
Á þessum skeiðkappreiðum vakti sérstaka athygli að þulurinn mælti á enska tungu, hraðmáll mjög. Engan sá ég í hópi áhorfenda sem ég vissi kjósa helst að hlýða þessari tungu og skilja betur en móðurmál sitt, íslenskuna. Hvaða tilgangi þjóna svona æfingar?